Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:36:29 (1066)

1998-11-12 12:36:29# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:36]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þál. um úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans sem ég flyt ásamt hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að láta fara fram úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans á árunum 1993--97 að báðum meðtöldum. Skal hún framkvæmd af hlutlausum fagaðilum eins og endurskoðunarskrifstofum, innlendum eða erlendum. Úttektin skal sérstaklega beinast að því að finna og skýra ástæður þessara útlánatapa. Jafnframt skal kannað hvort um óeðlilega fyrirgreiðslu eða hagsmunaárekstra hafi verið að ræða við veitingu þessara lána eða ófullnægjandi tryggingar.

Niðurstaða úttektarinnar skal lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1999.``

Tilefni þess, herra forseti, að tillaga þessi er flutt er einkum sú að á 121. löggjafarþingi lagði viðskiptaráðherra fyrir Alþingi svar við fyrirspurn minni um útlánatöp hjá Landsbanka og Búnaðarbanka á árunum 1993--97. Fram kom að útlánatöpin hefðu numið tæpum 14 milljörðum kr. Útlánatöpin voru aðallega hjá lögaðilum. Hjá þeim voru afskrifaðir rúmir 12 milljarðar kr. en hjá einstaklingum um 1,5 milljarðar kr.

Hér er, herra forseti, vissulega um gífurlega háar fjárhæðir að ræða, eða um 14 milljarðar kr. sem með einum eða öðrum hætti koma niður á skattgreiðendum og þeim sem þjónustunnar njóta. Ég tel að skattgreiðendur eigi rétt á frekari skýringum en fram hafa komið á ástæðum þessara útlánatapa.

Það sem einnig vakti athygli mína er að þetta var spurning um útlánatöp árið 1993--1997 en á 120. löggjafarþingi hafði hv. þm. Magnús Stefánsson spurt viðskrh. um útlánatöp ríkisbankanna og opinberra sjóða. Þá kom í ljós að á þeim árum, 1990--1995 þegar við máttum þola mun erfiðara árferði í atvinnulífinu en á árunum sem fyrirspurn mín beindist að, þ.e. 1993--97, virtust útlánatöp bankanna hafa verið miklu minni.

Ég vil t.d. nefna að á árunum 1990 voru endanleg útlánatöp hjá báðum bönkunum samkvæmt svari sem hv. þm. Magnús Stefánsson fékk 228 millj. kr., árið 1991 1.271 millj. kr. og árið 1992 1.597 millj. kr. Þegar við skoðum árin eftir það, þ.e. 1993--1997, eru útlánatöpin öll þessi ár einhvers staðar á bilinu 2,2--3,1 milljarður kr. Það er upp undir helmingi meira en á árunum þar á undan. Maður hefði ætlað, herra forseti, að árin á undan hefðu verið viðskipta- og atvinnulífinu miklu þyngri í skauti, að viðskiptaaðilar og fyrirtæki hefðu átt erfiðara með að greiða skuldir og fremur lent í útlánatöpum þá en þegar við vorum komin áleiðis inn í uppsveifluna sem við búum við í dag.

Ég vil einnig benda á að í svari viðskrh. kom fram að í Landsbankanum áttu einungis tíu aðilar á árunum 1993 og 1994 um helming af útlánatöpunum, eða 1.065 millj. kr. Það eru tíu aðilar, herra forseti, sem eiga í þessum útlánatöpum árið 1993 og 1.233 millj. kr. árið 1994. Þarna eiga örfáir aðilar í útlánatöpum sem nema á annan milljarð kr., herra forseti.

Ég tók líka eftir því í svari hæstv. ráðherra að í allmörgum tilvikum voru lánveitingarnar án nokkurra tryggingar. Til dæmis voru hjá Landsbankanum 16 lán á þessu tímabili, þ.e. árunum 1993--1997, án nokkurra trygginga. Ég spyr mig: Hver er skýringin á því að það er verið að lána, kannski háar fjárhæðir, án nokkurra trygginga?

Hjá Búnaðarbankanum var þetta þó skaplegra, herra forseti, vegna þess að þar var aðeins um að ræða eina lánveitingu sem var án trygginga á árinu 1993 en 16 hjá Landsbankanum.

Í fyrirspurn minni bað ég um sundurliðun útlánatapa hjá hverjum þessara tíu einstaklinga sem mest var afskrifað hjá, auk sundurliðunar á ábyrgðum á bak við hverja lánveitingu til þessara aðila. Því var hafnað. Eftir að ég fékk þetta svar leitaði ég ítrekað til hæstv. viðskrh. eftir því að fá nánari skýringar á þessum útlánatöpum, í hvaða atvinnugreinum þetta væri o.s.frv. Í bréfaskiptum milli mín og hæstv. ráðherra um þetta mál, eftir að svarið kom í þingið, bar hæstv. ráðherra fyrir sig bankaleynd og bréfaskriftir milli hæstv. ráðherra og viðskiptabankanna vegna ítrekunar á fyrirspurn minni. Hæstv. ráðherra bar sem sagt fyrir sig bankaleynd sem ég, herra forseti, verð auðvitað að virða og ætla ekkert að rengja það að ráðherrann hafi getað skotið sér á bak við lögin um bankaleynd og gæti því ekki veitt þinginu og mér sem þingmanni ítarlegri upplýsingar.

Hefði ég fengið svar við þeim spurningum sem ráðherrann treysti sér ekki til að veita mér þá hefði það hugsanlega svarað nánar því sem ég leita eftir með þessari þáltill. Þá hefði hugsanlega verið óþarfi að láta fara hér fram athugun á ástæðum útlánatapanna af hlutlausum fagaðilum. Ég rengi ekki að hæstv. viðskrh. hafi verið í fullum rétti til að neita mér um þessa upplýsingar með stoð í bankalögunum og ákvæðunum um bankaleynd þó að ég telji út af fyrir sig, og það sé kannski sérmál, að skoða þurfi hve oft ráðherrar geti --- og ég er ekkert að tala endilega um viðskrh. --- skotið sér á bak við hlutafélagalögin, bankaleynd o.s.frv. þegar svara á ýmsum fyrirspurnum sem þingmönnum liggur á hjarta og vilja fá svör við. Ég er að ræða hér, herra forseti, um túlkunina, hvernig þetta er túlkað, bankalögin, þetta ákvæði um bankaleynd og kannski þurfi að vera miklu skýrar í lögum undir hvaða kringumstæðum ráðherrar megi skjóta sér á bak við þessa bankaleynd.

Ég vil vitna til þess, herra forseti, að þegar ég fékk svarið við fyrirspurn minni var haft eftir viðskrh. í Degi laugardaginn 9. maí 1998 að 14 milljarða útlánatöp væru eðlileg. Mig rak auðvitað í rogastans, að hæstv. viðskrh. skyldi hafa þá skoðun að 14 milljarða útlánatöp væru eðlileg. Við erum að tala um, herra forseti, fjárhæð sem nemur sennilega nettótekjuskatti einstaklinga til ríkisins á einu ári. Ráðherrann segir bara að þessi 14 milljarða útlánatöp séu eðlileg. Ráðherrann ber fyrir sig ákveðin rök þegar hann heldur þessu fram og ég vil nefna þau. Hann segir í þessu viðtali, með leyfi forseta:

[12:45]

,,Það er þumalputtaregla hjá bönkum um allan heim að taka þá áhættu að tapa 1% af útlánum. Ég hef að vísu ekki nákvæma tölu en 14 milljarðar eru ekki mikið yfir 1% af útlánum bankanna þessi fimm umræddu ár.``

Ég fór auðvitað yfir þessar fullyrðingar hæstv. ráðherra og skoðaði hvað væri rétt í þessu. Og hvað kemur þá í ljós? Í öllum tilvikum varðandi Landsbankann, þegar borin eru saman útlán til viðskiptavina og síðan útlánatöpin, þá eru útlánatöpin ekki innan við 1% af útlánum, þau eru í öllum tilvikum yfir 2% og alveg upp í 2,5%. Og ef það er einhver þumalputtaregla, sem ég hef ekki haft neinar aðstæður til að kanna, almennt í bankaviðskiptum hér og erlendis að eðlilegt sé að tapa 1%, þá ber því sem ráðherrann nefndi, þ.e. að hann teldi að þetta væri innan við 1%, ekki saman við það sem ég er með hér vegna þess að á árinu 1995 voru útlánatöp Landsbankans 2,5%, 1996 2,3% og 1997 2,26%. Þetta er skárra hjá Búnaðarbankanum. Þar eru útlánatöpin 1,68% af heildarútlánunum. 1996 eru þau 0,83% og er það eina tilvikið sem það er innan við 1% af útlánunum, þ.e. á árinu 1996 hjá Búnaðarbankanum. Síðan er það rúmlega 1% á árinu 1997 hjá Búnaðarbankanum.

Ég vil líka gjarnan bera þetta saman við það sem fram kom í svari hæstv. viðskrh. á sínum tíma við fyrirspurn hv. þm. Magnúsar Stefánssonar vegna þess að hv. þm. spurði líka um ýmsa sjóði. Mér var auðvitað starsýnt á þetta mikla útlánatap sem þá kom fram, 1990--1994, og að útlánatöp hjá sjóðum fólksins, Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna, eru 65 millj. kr. meðan útlánatöpin, eins og fram kom í þessu svari við fyrirspurn hv. þm., hjá fjármálastofnunum og viðskiptabönkum atvinnulífsins voru 22 milljarðar, en 65 millj. í heild á þessu tímabili hjá sjóðum fólksins. Samt velta þessir sjóðir fólksins, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, á þessu tímabili, 1990--1994, 400 milljörðum kr., herra forseti. Útlánatöpin voru 65 millj. Bankarnir velta um 80--90 milljörðum á ári. Samt eru útlánatöpin hjá þeim á ári í kringum 2 milljarðar. Menn hafa talið ástæðu til að loka þessum sjóðum, Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna, af því að það er svo mikið tap á þeim, útlánatöp o.fl. Ef þessi rök ættu að standast værum við löngu búin að loka bönkunum, Búnaðarbankanum og Landsbankanum, þ.e. ef þau rök ættu að gilda líka um bankana sem virðast hafa gilt hjá hæstv. félmrh. varðandi Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Það bera þessar tölur augljóslega með sér. Og menn skyldu læra eitthvað af því þegar verið er að tala um það að einstaklingarnir standi ekki í skilum. Þrátt fyrir að margir hafi litlar tekjur þá kappkosta einstaklingar að standa í skilum, leggja sig fram um að standa í skilum og hafa gert það varðandi þessa íbúðalánasjóði. Þó að menn í þessum þingsölum séu oft að ósekju að bera það fyrir sig að svo mikil vanskil og útlánatöp séu hjá þessum sjóðum fólksins að það verði bara að gjörbreyta um stefnu í húsnæðismálum þá eru það ekki rök. Ég held að það sé alveg full ástæða til þess að láta þetta koma fram, herra forseti, í þessari umræðu þegar við erum að ræða útlánatöp hjá bönkunum.

Ég sé að tími minn er að verða búinn, herra forseti. Það má vel vera, og ég skal láta það koma fram, að í mörgum tilvikum sé eðlileg skýring á þessum útlánatöpum. Landsbankinn einkum hefur verið stoð fyrir sjávarútveginn og sjávarútvegurinn hefur vissulega átt sín erfiðu tímabil á þessum árum og verið í öldudal og þurft á aðstoð frá bankakerfinu að halda. Engu að síður erum við að tala um mikla peninga, herra forseti, 14 milljarða, og því miður bendir margt í því sem ég hef undir höndum til þess að óvarlega hafi verið farið í útlánum og ábyrgðir hafi ekki verið nægilega tryggar. Mér finnst að fólkið sem á að standa undir þessum útlánatöpum með sköttum sínum og þjónustugjöldum eigi eðlilega kröfu á því að fá skýringar á þessu.

Nú vil ég taka fram að ég er á engan hátt að beina spjótum mínum að hæstv. viðskrh. með þessari tillögu, alls ekki. Ég er einungis að biðja um aðstoð hæstv. ráðherra til þess að óvilhallir aðilar fari ofan í þetta og gefi okkur skýringar á þessu. Það eru fyrst og fremst bankaráðin og bankastjórnir sem bera ábyrgð á útlánastefnunni og móta almennar reglur þar um. En mér finnst að yfirmaður bankamála, hæstv. viðskrh. og bankamálaráðherra, hafi ákveðnar skyldur við þingið þegar þingið leitar eftir því að fá frekari skýringar á þessu. Þingmenn geta ekki fengið þær í gegnum eðlilegar fyrirspurnir. Er þá ekki eðlileg næsta leið, herra forseti, að óska vinsamlega eftir því við hæstv. viðskrh. að hann í samvinnu við þingið beiti sér fyrir því að þessi úttekt fari fram. Menn geta spurt af hverju. Ég tel að þessi úttekt gæti varpað ljósi á þau miklu útlánatöp sem bankarnir hafa orðið fyrir á þessum árum. Ég tek fram að á því gæti verið sumpart eðlileg skýring en tel að slík úttekt geti gefið gleggri mynd af því sem betur mætti fara við endurskipulagningu bankakerfisins þannig að af þessu væri tvíþættur ávinningur.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra er viðstaddur þessa umræðu og hefur að ég best veit beðið um orðið og vænti þess, herra forseti, að ég fái vinsamlegar undirtektir hjá hæstv. ráðherra við þessari þáltill. sem ég mæli fyrir. Að lokum legg ég til að þáltill. verði vísað til efh.- og viðskn., herra forseti.