Tollalög

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:07:46 (1068)

1998-11-12 15:07:46# 123. lþ. 23.23 fundur 143. mál: #A tollalög# (aðaltollhafnir) frv., Flm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Flm. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Flm. auk mín að þessu þingmáli eru Egill Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Jón Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Árni Johnsen, Arnbjörg Sveinsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,Við 1. mgr. 28. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1989, bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:

16. Höfn í Hornafirði.

17. Þorlákshöfn.``

Og 2. gr. er svohljóðandi:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Þetta mál hefur áður verið flutt á Alþingi en ekki náð fram að ganga.

Í greinargerð með frv. segir:

,,Undanfarin ár hafa farið fram umræður í sveitarstjórn Ölfushrepps og bæjarstjórn Hafnar í Hornafirði um möguleika þessara byggðarlaga á að þar verði viðurkenndar aðaltollhafnir.

Þrátt fyrir viðræður og bréfaskriftir forsvarsmanna þessara byggðarlaga hafa yfirvöld ekki enn séð sér fært að verða við óskum heimamanna þar að lútandi. Á Suðurlandi er einn staður sem nýtur réttinda aðaltollhafnar, þ.e. Vestmannaeyjar.

Þorlákshöfn er eina fiski- og flutningahöfn hins mikla Suðurlandsundirlendis og Sunnlendingar standa einhuga um höfnina og krefjast þess að hún njóti allra réttinda.

Undanfarin ár hefur mikilvægi Þorlákshafnar aukist sem almennrar vöruhafnar. Vikurflutningar eru miklir og stöðugir frá höfninni auk þess sem aðrir flutningar aukast stöðugt, svo sem á stykkjavöru, korni og áburði.

Nú eru að hefjast fastar siglingar milli Þorlákshafnar, Noregs og Portúgals. Í tengslum við þessa flutninga verður reist frysti- og kæligeymsla auk aðstöðu fyrir tollvörugeymslu. Af þessu má ljóst vera að óhjákvæmilegt er að gera Þorlákshöfn að aðaltollhöfn þar sem nútímaflutningar krefjast skjótrar og liprar afgreiðslu.

Íbúar Ölfushrepps stefna að því að auka mikilvægi Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar og telja þetta mál eina af forsendum fyrir því að það takist.

Embætti tollvarðar á Selfossi var stofnað í júní 1994. Tollafgreiðslur eru á þriðja þúsund á ári auk þess að sinnt er tollafgreiðslu skipa í Þorlákshöfn.

Fyrir nokkrum árum tók til starfa tollhöfn á Selfossi sem veitir mikilvæga þjónustu í höfuðstað Suðurlands, Selfossi. Hér er ekki verið að leggja til að raska þeirri stöðu, enda snýr málið eingöngu að réttarstöðu Þorlákshafnar, að því að bæta þjónustuna þar og því að hún hafi sama rétt og svo margar hafnir aðrar í landinu.``

Ég vil taka það fram að í mörgum öðrum kjördæmum hafa upp í fjórar og fimm hafnir fengið aðaltollhafnarréttindi og því er þetta mjög brýnt mál fyrir þá sem vilja flytja inn á Þorlákshöfn. Ég er sannfærður um að þegar menn horfa til framtíðar og á þær miklu breytingar sem eru að verða í flutningum þá á Þorlákshöfn mikla möguleika á að keppa, ég vil segja við Reykjavík um innflutning. Það sparar langa siglingaleið o.s.frv. þannig að þessi staða og þetta réttindaleysi þessarar sunnlensku hafnar gerir að verkum að hún hefur ekki náð þeim árangri enn þá sem menn sjá fyrir sér. Það er því von mín að þetta frv. nái fram á þessu þingi. Svo snýr þetta þingmál einnig að Höfn í Hornafirði og þar segjum við í grg.:

,,Á Austurlandi er syðsta aðaltollhöfnin Eskifjörður og því óravegur og löng sjóleið í þá næstu sem er Vestmannaeyjar.

Fyrir ört vaxandi byggðarlag eins og Höfn í Hornafirði hlýtur það að vera mikið hagsmunamál að öðlast réttindi aðaltollhafnar, enda hafa bæjaryfirvöld fyrir nokkru óskað eftir athugun og breytingum í þá átt. Sem kunnugt er hefur íbúafjöldi Hafnar í Hornafirði meira en tvöfaldast síðustu tvo áratugi og umsvif atvinnufyrirtækja eflst að sama skapi.

Í umdæmi sýslumannsins á Höfn hefur tollafgreiðslum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Þar er enginn starfandi tollvörður. Tollafgreiðsla fer því fram meðfram öðrum störfum á skrifstofu sýslumanns eins og á Selfossi. Þegar skip og bátar koma erlendis frá sinnir lögregla á Höfn tollun. Um báðar þessar hafnir, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn, gilda þær reglur að óska verður heimildar tollgæslustjóra í Reykjavík um tollun skipa inn í landið og úr því.

Þrátt fyrir lipurð embættismanna tollþjónustunnar sem hlut eiga að máli er þetta kerfi þungt í vöfum og tafsamt og vinnubrögðin varla nútímaleg. Af framanrituðu er ljóst að tímabært er að gerðar verði breytingar til batnaðar án frekari tafa með því að Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði verði gerðar að aðaltollhöfnum. Með því móti einu mundu þessi byggðarlög og nágrenni þeirra öðlast sama rétt og möguleika á tollmeðferð skipa og á innflutningi og útflutningi, enda mun slíkt leiða til einföldunar, aukinnar hagkvæmni, sparnaðar og betra eftirlits í viðkomandi umdæmum.``

Svo mörg voru þau orð í greinargerðinni. Með frv. fylgja síðan bréf og fylgiskjöl sem skráð hafa verið og vil ég þá ekki hafa fleiri orð um frv. en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Alþingis.