Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:54:40 (1073)

1998-11-12 15:54:40# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:54]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hver einasta króna sem tapast í útlánum er auðvitað of mikið tap. Ég tek alveg undir það með hv. þm. En ég býst fastlega við að útilokað sé að rökstyðja það að bankastofnanir sem eiga að taka áhættu í útlánum sínum geti ekki orðið fyrir skakkaföllum og tapað fjármunum. 14 milljarðar kr. eru allt of miklir fjármunir sem hafa tapast og ef hv. þm. les það viðtal sem var við mig í Degi þennan tilvitnaða dag, þá gengur það út á það að ég tel 14 milljarða kr. of mikið og 2,2% eða 2,3% af heildarútlánum sem tapast er allt of mikið. En það er einmitt það sem gerðist á árunum frá 1992 til ársins 1994. Þegar við horfum upp á þessi útlánatöp núna og það sem menn eru að taka til hliðar í sjóðina sem eru í kringum 1% í Landsbankanum, 1,01% í Íslandsbanka, 0,84% í Búnaðarbankanum og 0,53% í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þá eru menn á réttri leið því það er verið að draga úr útlánatöpunum. Það er verið að minnka áhættuna sem sjóðirnir og bankarnir taka í útlánum núna og það er aðalatriðið.

Þumalputtareglan er sú að menn geti tapað í kringum 1% af því sem þeir lána. Það er of mikið en reynslan annars staðar frá segir okkur að áhættan sem menn taka í útlánum geti verið upp á 1% í tapi. Það er of mikið en það er það sem menn verða að búa við vegna þeirrar áhættu sem fjármálastofnanirnar taka.