Þingfararkaup

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 16:25:29 (1078)

1998-11-12 16:25:29# 123. lþ. 23.22 fundur 104. mál: #A þingfararkaup# (laun, endurgreiðsla kostnaðar o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Vissulega fara menn ekki á þing til að verða ríkir og ég get ekki ímyndað mér að nokkur fari á þing til að verða ríkur út af 375 þús. kr. á mánuði. Til þess gefast önnur tækifæri og betri annars staðar, t.d. á skuttogara á sjó.

Menn þurfa vissulega að hafa hugsjónir. Það er alveg hárrétt. Ég er alveg sammála hv. þm. En ef fólk hefur hreinlega ekki efni á því að fara á þing, hæfileikafólk sem er kannski með fjölskyldu og með töluvert hærri laun, þá er illa komið, sérstaklega þegar maður tekur kostnað af prófkjöri með í dæmið. Ég get ekki séð hvernig menn geta farið á þing með hugsjónir og svona kostnað við prófkjör án þess að vera einhverjum háðir sem eyðileggur hugsjónirnar þá væntanlega.

Varðandi það hvernig ég fer að þessu siðferðilega. Ég ætla ekkert að vera að upplýsa það endilega en ég hef reyndar sett peninga til hjálparstofnunar sem þessu nemur til þess að létta á þessum siðferðilega vanda mínum af því að þetta eru hvorki laun né kostnaður.