Efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:09:17 (1085)

1998-11-16 15:09:17# 123. lþ. 24.1 fundur 102#B efnahagsráðstafanir í kjölfar haustskýrslu Seðlabankans# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir sérstökum vonbrigðum með svör hæstv. forsrh. Það fór að vísu eins og ég hélt að forsrh. mundi láta sér þessi varnaðarorð í léttu rúmi liggja og halda sig við efnahagsstefnuna sem kynnt var í haust. Það er einmitt það sem ég er að reyna að draga fram. Seðlabankinn kemst að svipaðri niðurstöðu og ég og aðrir hafa gert, að hér eru mjög alvarleg hættumerki í efnahagsstjórninni í samfélaginu og taka þarf á þeim. Það er alvarlegt þegar viðskiptahalli er mestur í 15 ára sögu og mjög alvarlegt þegar sparnaður er í sögulegu lágmarki.

Hæstv. forsrh. ypptir öxlum og vill ekkert gera. Það lýsir efnahagsstefnu hans að láta reka á reiðanum eins og hann gerir vegna þess að ytri aðstæður hafa markað þessa uppsveiflu og það kemur einnig fram í skýrslu Seðlabankans. Það er ekki hægt, herra forseti, að mínu mati að tala jafn\-ábyrgðarlaust um efnahagsmál og hæstv. forsrh. gerir. Þetta mundi ekki þekkjast í nágrannalöndunum að farið yrði með opinberar aðvaranir á þennan hátt. Ég get fullvissað hæstv. forsrh. um það að í málefnaskrá samfylkingarinnar stendur að ríkissjóður skuli rekinn hallalaus og stefnt skuli að stöðugleika í hagkerfinu.