Framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:11:47 (1087)

1998-11-16 15:11:47# 123. lþ. 24.1 fundur 103#B framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgrh. vegna Reykjavíkurflugvallar.

Eins og kunnugt er fara yfir 400 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll á hverju ári og vegna hagstæðra flugfargjalda að undanförnu hefur farþegum heldur fjölgað. Aðbúnaður farþega er hins vegar heldur bágborinn en það sem er alvarlegast í þessu máli snýr að öryggismálum Reykjavíkurflugvallar. Í mörg ár hefur legið ljóst fyrir alvarlegt ástand flugbrauta. Flugbrautarljós eru frá seinni heimsstyrjöldinni og í miklum vatnsveðrum er völlurinn varasamur bæði við flugtak og lendingu. Það hefur verið ætlan ríkisstjórnar og samgrh. að taka á þessu máli. Hvað líður þeirri ætlan? Hvenær verður hafist handa við uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar?