Sjávarútvegsnám

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:20:04 (1094)

1998-11-16 15:20:04# 123. lþ. 24.1 fundur 104#B sjávarútvegsnám# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Sjávarútvegsbrautirnar eru nú skipulagðar sem tveggja ára nám og síðan bætist þriðja og fjórða árið við. Verið er að vinna að námskrám um þriðja og fjórða árið eins og ég tel víst að hv. fyrirspyrjandi þekki. Þegar þær tillögur liggja fyrir eru menn betur í stakk búnir til að taka ákvarðanir um það hvernig staðið verði að náminu.

Einnig er stefnt að því að búa þannig um hnútana að þetta nám verði engin blindgata heldur geti menn haldið áfram að því loknu upp á háskólastig ef þeir svo kjósa. Það er því verið að gjörbreyta þessu námi og síðan er sérstakt ákvörðunaratriði hvar námið á að vera. Það fer að sjálfsögðu eftir nemendafjöldanum og ef nemendur eru svo fáir að ekki er möguleiki að halda skólann annars staðar en á einum stað á landinu þá verða menn að horfa á það. Hvort það verður í Reykjavík eða annars staðar er svo sjálfstætt ákvörðunarmál.