Staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:21:37 (1095)

1998-11-16 15:21:37# 123. lþ. 24.1 fundur 105#B staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Nemendur í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands gerðu fyrir skömmu könnun á málfari í nokkrum útvarpsstöðvum. Þeir hafa kynnt fyrstu niðurstöðurnar úr þessari könnun. Þær sýndu að tími talaðs máls var stuttur og að íslenskukunnátta eða málfar sumra flytjenda var langt frá því að vera til fyrirmyndar þann tíma sem hlustað var.

Fjölmiðlarnir, sérstaklega útvarp og sjónvarp, hafa hvað sterkust áhrif á þróun íslenskrar tungu. Því er mikilvægt að þeir sem koma þar fram, og þá sérstaklega starfsmenn fjölmiðlanna, séu meðvitaðir um stöðu sína gagnvart íslenskri málþróun og að áhrifin séu mest á málfar ungs fólks, bæði hvað varðar að festa í sessi hreinar málvillur, framburð eða erlendar slettur og slanguryrði.

Á degi íslenskrar tungu er því við hæfi að spyrja hæstv. menntmrh.:

Hyggst menntmrh. beita sér fyrir átaki til að bæta stöðu íslenskrar tungu í fjölmiðlum?