Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:46:43 (1099)

1998-11-16 15:46:43# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á skaðabótalögum. Frv. þetta felur í sér allnokkrar breytingar á lögunum en endurskoðun þeirra á sér nokkurn aðdraganda eins og kunnugt er.

Skaðabótalögin eru frá árinu 1993 og var markmiðið með þeirri lagasetningu að endurbæta reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda. Einnig miðuðu lögin að því að færa reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða til nútímahorfs. Þá gerðu lögin dómstólum kleift að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem valda tjóni eða bera skaðabótaábyrgð af öðrum ástæðum.

Í tilefni gagnrýni á reiknireglur skaðabótalaganna skipaði ég nefnd í febrúarmánuði 1994 til að taka saman rökstutt álit á því hvort margföldunarstuðull í 1. mgr. 6. gr. laganna leiddi til þess að fullar bætur fengjust ekki fyrir fjárhagslegt tjón vegna varanlegrar örorku. Í nefndinni áttu sæti Gestur Jónsson hrl., Guðmundur Skaftason, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að margfeldisstuðull þessi yrði hækkaður úr 7,5 í 10. Einnig lagði meiri hluti nefndarinnar til að lágmark miskastigs í 2. mgr. 8. gr. yrði hækkað úr 10% í 15% svo þeir sem hefðu engar eða takmarkaðar vinnutekjur ættu frekari rétt á bótum. Þessar tillögur leiddu ekki til breytinga á skaðabótalögunum á sínum tíma.

Í tilefni af dómi Hæstaréttar 30. mars 1995 fól allshn. Alþingis Gesti Jónssyni og Gunnlaugi Claessen að taka á ný upp athugunina frá árinu 1994 með það að markmiði að kanna margfeldisstuðul 1. mgr. 6. gr. laganna í ljósi dóms Hæstaréttar og yfirfara önnur ákvæði laganna. Með álitsgerð Gests og Gunnlaugs frá 10. nóvember 1995 fylgdi frv. til laga um breytingar á skaðabótalögunum. Frv. varð ekki að lögum en með lögum nr. 42/1996 var stuðullinn í 1. mgr. 6. gr. laganna hækkaður í 10, auk þess sem gerðar voru breytingar á 8. gr. laganna. Þá var bætt við lögin ákvæði til bráðabirgða. Með því var dómsmrh. falið að skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga auk þess sem lagt var fyrir ráðherra að skila Alþingi frv. til breytinga á lögum eigi síðar en í október 1997. Í samræmi við þetta var skipuð nefnd til að endurskoða lögin. Í henni áttu sæti hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Sigrún Guðmundsdóttir og Guðmundur Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, en hann var formaður nefndarinnar.

Með lögum nr. 149/1997 var frestur til að leggja frv. fram á Alþingi framlengdur til októbermánaðar á þessu ári. Tilefnið var að nefndin sem vann að endurskoðun laganna taldi skorta fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna eftir gildistöku skaðabótalaga, en þær upplýsingar eru forsenda þess að unnt sé að meta áhrif tillagna nefndarinnar á iðgjöld bifreiðatrygginga. Nefndin skilaði dómsmrn. tillögum sínum 16. september sl. Komst hún ekki að einróma niðurstöðu og er frv. það sem hér liggur fyrir reist á áliti meiri hluta nefndarinnar en að því standa Gestur Jónsson og Guðmundur Jónsson. Sigrún Guðmundsdóttir skilaði séráliti og er það birt sem fskj. með frv.

Í áliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að ekki hafi tekist að afla viðhlítandi upplýsinga frá tryggingafélögum til að mat verði lagt á iðgjaldaþörf bifreiðatrygginga. Þetta tel ég hins vegar ekki skipta höfuðmáli um framvindu frv. enda verða skaðabótalög að tryggja að tjónþoli fái fullar bætur án tillits til þeirra áhrifa sem það kann að hafa á tryggingaiðgjöld.

Eins og ég hef rakið er frv. reist á tillögum meiri hluta nefndar sérfræðinga sem hafði með höndum lögskipaða endurskoðun skaðabótalaganna. Í nefndinni fór fram mikið og vandað starf og eru tillögur nefndarinnar ítarlegar og vel rökstuddar. Það er mikilvægt í ljósi þess að hér er á ferðinni þýðingarmikið mál sem bæði er flókið og viðkvæmt. Almennt má segja að frv. feli í sér þá breytingu á skaðabótalögum að við útreikning bóta er frekari áhersla lögð á einstaklingsbundna þætti í stað þess að staðla bætur.

Nú mun ég í einstökum atriðum gera grein fyrir helstu tillögunum í frv. Lagt er til að horfið verði frá þeirri tilhögun skaðabótalaganna að hafa einn og sama margfeldisstuðulinn sem háður er breytingum til lækkunar frá 26 ára aldri tjónþola. Þess í stað er lagður til samfelldur margfeldisstuðull fyrir alla mannsævina sem lækkar með hækkandi aldri. Þetta miðar að því að bætur fyrir fjárhagslegt tjón verði sanngjarnari án þess að fórnað sé þeirri einföldun bótaákvarðana sem fólst í setningu skaðabótalaga. Í athugasemdum við 5. gr. frv. eru ræddar ítarlega þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við útreikning margföldunarstuðulsins og leyfi ég mér að vísa til þeirra.

Í frv. er gert ráð fyrir að miðað verði við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla tjónþola en ekki einvörðungu þá sem nýta vinnugetu sína til að afla tekna. Þannig verður horfið frá því fyrirkomulagi að greiða bætur sem leiddar eru af mati á læknisfræðilegri örorku til þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur, eins og almennt á við um börn, námsmenn og þá sem eru heimavinnandi. Skipting tjónþola í tvær fylkingar þar sem mismunandi aðferðum er beitt við útreikning bóta getur valdið misræmi og afmörkunarvanda. Óeðlilegt er að vinnutekjur sem maður hefur aflað sér geti valdið því að bætur lækki miðað við að þessara tekna hefði ekki verið aflað. Til að ráða bót á þessu og samræma aðferðir við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku er lagt til að lögfest verði 1,2 millj. kr. lágmarksviðmiðun árslauna og að sú fjárhæð hækki miðað við grunnvísitölu skaðabótalaga.

Með frv. er lagt til breyta reglum um frádrátt frá skaðabótum vegna greiðslu frá þriðja manni, svo sem almannatryggingum eða lífeyrissjóði. Í gildandi lögum tekur margfeldisstuðull laganna mið af því að tjónþoli haldi óskertum bótum þrátt fyrir greiðslur af þessu tagi. Sá margfeldisstuðull sem lagður er til með þessu frv. er hins vegar annars eðlis og miðast við að tekjutap vegna varanlegrar örorku verði að fullu bætt. Því er lagt til að félagslegar greiðslur til tjónþola verði dregnar frá bótum. Þetta tekur til bóta úr almannatryggingum og þess hluta örorkulífeyrisins sem svarar til iðgjaldagreiðslu vinnuveitanda, að teknu tilliti til greiðslu skatta af lífeyri.

Af ákvæðum frv. leiðir að bótaréttur vegna varanlegrar örorku til þeirra sem eru 70 ára og eldri verður rýmkaður. Þannig er lagt til að margföldunarstuðull og lágmarkslaun sem lögð eru til grundvallar við útreikning bóta gildi til 75 ára aldurs. Þá er lagt til að ákvæði um að miskabætur greiðist ekki ef miskastig nær ekki 5% verði fellt niður. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt með þeim rökum að lágmarkið leiði til þess að raunverulegur, varanlegur miski fáist ekki bættur, eða að minni miski en 5% sé metinn of hátt svo bætur falli ekki niður með öllu.

Loks er með frv. lagt til að verulegar breytingar verði gerðar á gildandi reglum um örorkunefnd sem starfar samkvæmt lögunum. Ákvæði frv. miða að því að létta stigvaxandi álagi af nefndinni sem leitt hefur til óviðunandi tafa á afgreiðslu mála. Til að ná þessu markmiði er lagt til að horfið verði frá því að mestu að láta nefndina meta örorku og miskastig á fyrsta stigi. Þess í stað er gert ráð fyrir að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf. Þau álit geti síðan hvor málsaðila borið undir örorkunefnd sem verður þá málsaðili á síðara stigi. Má gera ráð fyrir að til nefndarinnar verði skotið þeim málum sem á einhvern hátt eru sérstök eða fordæmisskapandi.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá allshn.