Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:11:45 (1101)

1998-11-16 16:11:45# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Sem svar við þeirri fyrirspurn sem hv. þm. bar fram þá get ég sagt að ráðuneytið mun fyrir sitt leyti reyna að greiða fyrir því að allar þær upplýsingar sem kostur er að afla verði lagðar fyrir nefndina. Að vísu heyra tryggingafélögin og málefni þeirra ekki undir ráðuneytið en það breytir ekki hinu að ráðuneytið mun kappkosta að greiða fyrir því að nefndin fái þær upplýsingar sem hún telur þörf á að hafa við hendina þegar ákvarðanir verða teknar. Það breytir ekki hinu að hér er um alveg tvö aðskilin mál að ræða, annars vegar skaðabótaréttinn sjálfan og hins vegar hvort breytingar á honum leiða til breytinga á iðgjöldum tryggingafélaga. Sú meginbreyting varð með setningu skaðabótalaganna að verið var að færa í settar réttarreglur ákvæði um það hvernig fara ætti með bótaréttinn og um leið var reynt að koma á einfaldari framkvæmd til þess að koma til móts við sjónarmið bótaþeganna. En það er, bæði fyrir og eftir setningu skaðabótalaganna meginsjónarmiðið, sem ég held að allir hljóti að vera sammála um, að það á undir öllum kringumstæðum að bæta tjónþola það tjón sem hann hefur orðið fyrir, hvorki meira né minna. Og einhver aðstaða tryggingafélaga getur aldrei breytt því meginmarkmiði. Menn hljóta að sníða ákvæði skaðabótaréttarins eftir þessu eina markmiði og þar getur ekkert annað haft áhrif.

Hér var um flókið verk að ræða af því að um leið og verið var að lögfesta reglurnar var verið að einfalda þær, en hér er um tvo óskylda hluti að ræða. Ég skil hins vegar mætavel að menn vilji gjarnan hafa upplýsingar um áhrif á bótahliðina eða á iðgjaldahliðina eða þann þátt sem snýr að tryggingafélögunum. En það er allt annar handleggur og sú aðstaða getur aldrei haft áhrif á niðurstöðu settra reglna um bótaréttinn.