Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:17:07 (1104)

1998-11-16 16:17:07# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég upplifi síðustu orð hæstv. ráðherra sem útúrsnúning við mál mitt vegna þess að hæstv. dómsmrh. veit nákvæmlega hvað ég er að meina með þessu. Það kom skýrt fram á síðasta þingi. Ég taldi það hafa komið skýrt fram í ræðu minni áðan og líka í andsvari. Það sem ég er að tala um var að ráðuneytið mundi sjá til þess að óháður aðili, tryggingasérfræðingur, færi ofan í þetta mál og legði mat á það sem upp á vantar og endurskoðunarnefndin kallaði eftir til þess að geta metið áhrifin af hækkun á iðgjöldum eða hvort hennar sé þörf með þessari breytingu.

Mér finnst það satt að segja, herra forseti, vera skylda framkvæmdarvaldsins að koma með málið hingað til þingsins fullbúið til þess að við getum fjallað um það og þessi hlið er vissulega mikilvæg þó hún sé ekki aðalatriðið í þessu. Þess vegna finnst mér óþarfi, herra forseti, að hæstv. ráðherra skuli nota orð sín í þessum ræðustól þess að snúa út úr málflutningi mínum af því að hæstv. ráðherra vissi nákvæmlega hvað ég var að meina. Ég óska eftir því og veit að það verður þá til þess að greiða fyrir málinu í allshn. sem ég er boðin og búin til að gera. Ég bið hæstv. ráðherra að snúa ekki út úr máli mínu en svara því bara beint hér og nú hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að slíkur tryggingasérfræðingur fengist til að fara ofan í málið með endurskoðunarnefndinni þannig að allshn. fengi þessar upplýsingar. Það er alveg ljóst að það mun greiða mjög fyrir málinu. Annars mun þetta bara lenda í karpi og þófi í nefndinni áfram á næstu fundum. Ég er alveg sannfærð um það. Þetta er fyrst og fremst sett fram af minni hálfu til þess að greiða fyrir störfum nefndarinnar.