Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:31:03 (1106)

1998-11-16 16:31:03# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér heildarendurskoðun gildandi laga um vegabréf en þau eru frá árinu 1953. Þessi endurskoðun laganna er liður í endurskipulagningu á öllu því sem lýtur að prentun og útgáfu vegabréfa. Á alþjóðavettvangi hefur verið leitað leiða til að tryggja öryggi vegabréfa en fölsun þeirra hefur verið langvarandi og sífellt vaxandi vandi. Með nýrri tækni sem felst í útgáfu vélrænt lesanlegra vegabréfa hefur tekist að auka verulega áreiðanleika þessara skilríkja. Vegabréf af þessu tagi eru nú gefin út hjá nágrannalöndum okkar og um nokkra hríð hefur verið fyrirhugað að hefja útgáfu slíkra vegabréfa hér á landi. Í dómsmrn. hefur verið unnið að undirbúningi málsins í samráði við utanrrn. og Ríkiskaup.

Með frv. er lögð til sú breyting að útgáfa vegabréfa verði í höndum ríkislögreglustjóra í stað þess að lögreglustjóri í hverju umdæmi landsins gefi út vegabréf. Til hagræðingar er hins vegar gert ráð fyrir að unnt verði að sækja um vegabréf hjá öllum lögreglustjórum og þeir sendi síðan umsóknir til ríkislögreglustjóra sem gefur út bréfin. Ástæða þess að lagt er til að útgáfa vegabréfa verði færð til ríkislögreglustjóra er að tæknibúnaður til útgáfu vélrænt lesanlegra vegabréfa er mjög dýr og af þeim sökum verður slíkum búnaði ekki komið fyrir hjá hverjum lögreglustjóra fyrir sig. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri komi upp neyðarþjónustu þannig að þessi breyting leiði ekki til vandræða fyrir ferðamenn sem skyndilega þurfa á vegabréfi að halda.

Þá er í frv. mælt fyrir um að öðrum stjórnvöldum megi fela útgáfu bráðabirgðavegabréfs og gætu slík stjórnvöld verið bæði lögreglustjórar og sendimenn Íslands erlendis.

Skv. 6. gr. frv. verður vegabréf aðeins gefið út handa einum einstaklingi þannig að felld verður niður heimild til að skrá barn í vegabréf náins aðstandanda. Í þessu felst að gefa verður út sjálfstætt vegabréf til barns án tillits til aldurs þess. Þetta er í samræmi við alþjóðleg viðhorf og stuðlar að því að fyrirbyggja að börn verði numin á brott eða fari úr landi ásamt því foreldri sem ekki hefur forsjá barns en hefur nafn þess skráð í vegabréf sitt.

Í 4. gr. er fjallað nánar um útgáfu vegabréfa til barna undir 18 ára aldri og tekið fram að við útgáfu vegabréfs til barns skuli liggja fyrir samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá. Þó er gert ráð fyrir að víkja megi frá þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á.

Þá er mælt fyrir um heimild um að afturkalla vegabréf í 7. gr. en slíka heimild er ekki að finna í gildandi lögum. Í þessu ákvæði er leitast við að skilgreina nákvæmlega hvenær heimild til afturköllunar vegabréfs er fyrir hendi.

Loks er í 8. gr. lagt til að ríkislögreglustjóri haldi skrá um öll útgefin vegabréf og þar verði einnig skráð glötuð vegabréf. Þetta felur í sér að komið verður á fót tölvufærðri skrá á landsvísu í stað þess að lögreglustjórar í hverju umdæmi haldi skrá um útgefin vegabréf. Miðlæg skrá af þessu tagi mun auðvelda alla öflun upplýsinga sem er mikilvægt með hliðsjón af samstarfi við alþjóðlegar stofnanir og önnur ríki.

Herra forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.