Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:34:22 (1107)

1998-11-16 16:34:22# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem mér sýnist við fljótlegan yfirlestur að sé til bóta. Hér er lagt til að ganga þannig frá gerð vegabréfa að þau verði öruggari og minni hætta verði á að þau verði fölsuð. Í almennum athugasemdum við lagafrv. er jafnframt vakin athygli á því að hægt sé að auka öryggið með því að taka upp þessa vélrænu skráningu, þetta muni síðan stuðla að hraðari afgreiðslu farþega í vegabréfaskoðun o.s.frv. Almennt séð finnst manni þetta því allt stefna í rétta átt og auki öryggi varðandi þessa þætti.

Að vísu vakna spurningar hjá okkur sem höfum efasemdir um Schengen-samkomulagið sem felur í sér afnám vegabréfaeftirlits. Maður veltir fyrir sér hversu brýnt þetta sé í ljósi þess að Schengen stefnir að því að menn geti ferðast innan Schengen-svæðisins án þess að hafa vegabréf. En látum það liggja milli hluta. Það er ekki aðalástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs um þetta mál, heldur hitt að mér finnst þurfa að vekja athygli á fylgifiskum þessa frv.

Frv. mun hafa það í för með sér að vegabréf verða aðeins gefin út á einum stað á Íslandi, þ.e. hjá ríkislögreglustjóra. Sýslumannsembættin, lögreglustjóraembættið í Reykjavík og sýslumannsembættin úti á landi, munu ekki lengur hafa heimild til að gefa út vegabréf. Þetta ásamt ákaflega mörgu öðru verður til þess að draga úr þjónustu við borgarana úti á landi. Það að sækja um vegabréf er að vísu ekki daglegur gjörningur hjá fólki og sem betur fer er það ákaflega sjaldgæft að menn þurfi að sækja um vegabréf. Engu að síður er þetta einn af þeim litlu þáttum sem alltaf hefur gert það eftirsóknarvert að búa úti á landi, þ.e. að geta átt þægileg og persónuleg samskipti við opinberar stofnanir. Með þessu frv. er einn þessara þátta að hverfa. Til lengri tíma litið veikir þetta fremur sýslumannsembættin. Þeim verkefnum sem sýslumannsembættunum hefur verið falið fram undir þetta mun fækka en hins vegar fjölga hjá ríkislögreglustjóra sem við vitum öll að er staðsettur á Reykjavíkursvæðinu.

Ég ætla ekki að andmæla frv. almennt á þessum forsendum. Mér virðast mjög gild rök fyrir því að breyta vegabréfaútgáfu eins og hér er lagt til. Margvísleg rök eru tíunduð í athugasemdunum eins og ég nefndi og það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. Ég geri engan ágreining um það. Ég velti hins vegar fyrir mér er hvort ekki væri unnt að ætla ríkislögreglustjóra að sjá svo um að hluti af þessari starfsemi fari ekki endilega fram hjá embætti ríkislögreglustjórans í Kópavogi?

Í fyrsta lagi er ljóst að þessi tilhögun krefst einhvers konar framleiðsludeildar. Einhver mun þurfa að nýta hina nýju tækni sem innleiða á á grundvelli lagasetningarinnar, líta til með tækjum og annast framleiðslu vegabréfanna. Þarna verður væntanlega starfrækt einhvers konar prentsmiðja eða útgáfustarfsemi. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann sjái nokkuð því til fyrirstöðu á grundvelli þessara laga að frá því verði gengið að þessi framleiðslustarfsemi fari ekki endilega fram á höfuðborgarsvæðinu, heldur t.d. hjá einhverju af sýslumannsembættunum úti á landi. Þar er víða ágæt starfsaðstaða fyrir hendi og þar væri hægt að nýta fjárfestingu og mannafla miklu betur með auknum verkefnum.

Af hreinni tilviljun detta mér t.d. í hug tvö sýslumannsembætti sem hentuðu býsna vel, þ.e. Hólmavík og Patreksfjörður þar sem daglegar samgöngur eru við höfuðborgarsvæðið þar sem mannfjöldinn býr og auðvelt er að tryggja að framleiðsla á vegabréfum berist til Reykjavíkur eða hvert á land annað sem menn kysu að fá vegabréfin sín afhent.

Ég held nauðsynlegt sé að fitja upp á þessum hugmyndum þrátt fyrir að hæstv. ráðherrar hafi annan ásetning. Það hefur alltaf verið þannig að starfsemin hefur tilhneigingu til að togast í eina átt. Þetta mál er auðvitað ákaflega smátt í sniðum. Það mun ekki valda byggðaröskun. Fólk mun ekki taka ákvörðun um að flytja af Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi eða öðrum stöðum vegna þess að þar sé ekki lengur hægt að fá útgefið vegabréf. En eitt með öðru er þetta liður í að breyta því þjónustumunstri sem til staðar hefur verið. Ég tel því mjög mikilvægt að við skoðum þessa þætti í því ljósi.

Hér á að taka ákvörðun um að tiltekinni atvinnustarfsemi sem falist hefur í gerð vegabréfa á sýslumannskontórunum, stimplun þeirra og útgáfu, ljúki hér með og verði komið fyrir hjá ríkislögreglustjóra. Því vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt í ljósi þess að nútímafjarskipti, nútímasamgöngur og nútímapóstþjónusta bjóða upp á þá möguleika, að sérhæfð framleiðslustarfsemi af þessu tagi verði vistuð annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vek athygli á því að í þessu plaggi er vikið að því, t.d. í athugasemdum við 2. gr., og gert ráð fyrir að um sé að ræða rafrænt samskiptaform milli ríkislögreglustjóra og annarra sem um þetta mál þurfa að véla. Það er því gert ráð fyrir að nýta alla nútímasamskiptatækni, fjarskiptatækni, til að vinna þessi störf og það er vissulega vel. Okkur er það öllum ljóst að einmitt þessi tækni gerir það að verkum að möguleikarnir til að staðsetja atvinnustarfsemi víðar um landið en áður eru margfalt meiri. Mér finnst að hér sé um að ræða spennandi valkost sem skoða mætti sérstaklega til að færa störf út á land, til að tryggja og nýta betur fjárfestingu og mannafla á landsbyggðinni og senda þau skilaboð út á land að hið opinbera vilji láta atvinnustarfsemi fara fram víðar en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem því verður við komið.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja máls á þessu í tengslum við málið sem hér er til umræðu. Ég ítreka að hér er ekki um að ræða stórt mál, það veldur ekki straumhvörfum í þjónustustigi á landsbyggðinni en mér finnst eðlilegt að menn haldi vöku sinni varðandi þetta í umræðunni. Ég tel að fjalla þurfi um þessa hlið ekki síður en aðrar þegar þetta mál verður kemur til hv. allshn. A.m.k. vil ég gjarnan að þau skilaboð komist í gegnum þessa umræðu til allshn. Alþingis að þessi þáttur verði alveg sérstaklega skoðaður.

Ég hef að vísu þá reynslu, að sé ekki gengið frá málum fullkomlega strax við lagasetningu, endi þjónustustarfsemi af þessu taginu yfirleitt alltaf á einum og sama stað, helst sem mest í nágrenni við póstnúmer 101 í Reykjavík. Mér finnst að hv. allshn. þurfi sérstaklega að fara ofan í málið og kynna sér gaumgæfilega. Örugglega koma þær viðbárur einhvers staðar frá að þetta sé allt ómögulegt vegna þess að fjöldinn búi hér. Þá minni ég á að í frv. er gert ráð fyrir því að nýta nútímafjarskiptatækni og ég vek athygli á þeim algeru umbreytingum og umskiptum sem hafa orðið t.d. í póstsamgöngum í landinu. Sú breyting auðveldar mönnum að fá afgreidd vegabréf, þ.e. því má koma þannig fyrir að póstur berist á einum degi milli fjarlægustu landshluta. Ég vek athygli á því að almenna reglan er sú að menn þurfa að bíða nokkuð eftir vegabréfaútgáfu, nokkra daga ef ég man rétt, þannig að staðsetning tæknibúnaðarins og framleiðsludeildarinnar mundi væntanlega ekki hafa mikla röskun í för með sér fyrir þá sem sæktu um ný vegabréf. Fyrst og fremst væri framleiðslan á einum stað og vegabréfin yrðu síðan send til viðtakanda. Ég hygg að auðvelt væri að tryggja ekki lakari þjónustu með slíkri starfsemi á landsbyggðinni en með því að staðsetja hana á höfuðborgarsvæðinu.