Hjúskaparlög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:07:00 (1118)

1998-11-16 17:07:00# 123. lþ. 24.29 fundur 180. mál: #A hjúskaparlög# frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:07]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 196 hef ég lagt fram frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Sigríður Anna Þórðardóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Í 1. gr. þessa frv. segir, með leyfi forseta:

,,Við 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa á meðan hjónaband stóð, skulu þó ekki falla utan skipta.``

Efni þessa frv. hefur verið til umfjöllunar nokkuð mörg þing og er það að gefnu tilefni vegna hjúskaparlaga, eins og ég gat um áðan. Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ný hjúskaparlög tóku gildi 1. júlí 1993 og er því lagt til að mælt verði fyrir um þetta atriði þar. Samkvæmt hjúskaparlögum er eign hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars, sbr. 54. gr., og er þar m.a. átt við persónuleg réttindi að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við þær sérreglur sem um þau réttindi gilda, sbr. 57. gr. laganna. Um fjárskipti þessara réttinda eru ákvæði í 102. gr. en þar eru taldar upp þær hjúskapareignir sem geta fallið utan skipta að kröfu maka. Í frumvarpi þessu er lagt til að ellilífeyrisréttindi verði ekki talin þar með, þau séu hjúskapareign sem geti ekki fallið utan skipta.

Eins og nú háttar til eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.

Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.

Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa á almennum vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér, með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi, að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Því er sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.

Eins og fram hefur komið er frumvarp um þetta efni ekki lagt fram í fyrsta sinn nú. Oft hafa umræður og umsagnir um málið þó snúist meira um aðra þætti, eins og fjölmargar aðrar greiðslur frá lífeyrissjóðum, en sjálfan ellilífeyrisréttinn sem kannski vonlegt er. Kemur þar einkum til skráning á greiðslum og áunnum réttindum í viðkomandi lífeyrissjóði sem nú tengjast einvörðungu þeirri persónu sem iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs eru greidd fyrir, svo og sá viðbótarréttur sem ávinnst við inngreiðslu, þ.e. örorkulífeyrir og barnalífeyrir. Þá er réttur til töku ellilífeyris mismunandi hjá lífeyrissjóðum.

Flutningsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem stjórnir fjölmargra lífeyrissjóða stæðu frammi fyrir væri ætlunin með frumvarpi þessu að rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar, þ.e. áunninn flýtiréttur til töku lífeyris, tímabundnar örorkubætur eða bætur fyrir langtímaörorku. Með frumvarpinu er hins vegar eingöngu gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn ellilífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðað við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis milli lífeyrissjóða í dag.

Á 122. löggjafarþingi voru afgreidd lög frá Alþingi um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Þar er nokkuð komið til móts við efni tillögu þessarar með ákvæði í 14. gr. Í lögunum kemur fram að sjóðfélagi getur á grundvelli samkomulags við maka sinn tekið ákvörðun um, í fyrsta lagi, að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Í öðru lagi að í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka. Í þriðja lagi að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Nær slíkt samkomulag eftir því sem við á til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur.

Flutningsmenn frumvarpsins telja að með þessum nýmælum í lögum nr. 129/1997 sé stigið skref í rétta átt, en vilja ganga lengra og því er það lagt fram að nýju.``

Flutningsmenn hafa fengið fjölmargar áskoranir kvenfélaga og kvenfélagasambanda í landinu þar sem þeir eru hvattir til að vinna þessu máli framgang. Ég vona, herra forseti, að svo megi verða nú í líklega tólfta skipti sem frv. er lagt fyrir hið háa Alþingi.

Ég legg að lokum til að að lokinni umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.