Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:24:14 (1120)

1998-11-16 17:24:14# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:24]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 252 sem er 225. mál þingsins, um Orkusjóð. Í því er lagt til að sett verði sérlög um Orkusjóð og um leið að X. kafli orkulaga sem fjallar um sjóðinn verði felldur úr gildi. Frv. byggir að mestu á ákvæðum núgildandi orkulaga en hefur að geyma nokkur nýmæli. Helstu nýmæli eru þessi:

Í fyrsta lagi er lagt til að Orkusjóður fjármagni yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir þessari breytingu á hlutverki Orkusjóðs og lagt til að 50 millj. kr. verði varið til rannsóknanna á árinu 1999.

Í öðru lagi er lagt til að Alþingi kjósi þrjá stjórnarmenn í orkuráð með hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar, en ráðherrar skipi tvo.

Í þriðja lagi er lagt til að orkumálastjóri veiti orkuráði ráðgjöf eftir því sem um er beðið. Skv. X. kafla orkulaga er orkumálastjóri framkvæmdastjóri Orkusjóðs en þar sem Orkustofnun kemur til með að sækja fjármuni til sjóðsins verður orkumálastjóri vanhæfur til að gegna stöðu framkvæmdastjóra hans.

Í fjórða lagi er lagt til að ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með sérstökum rannsóknum og áætlanagerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skuli framkvæmdaaðilinn endurgreiða Orkusjóði þann kostnað við veitingu virkjana eða nýtingarleyfa. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslu verði að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Lagt er til að fé vegna slíkra endurgreiðslna skuli varið skv. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þannig er lagður grunnur að fjármögnun framtíðarrannsókna á orkulindum landsins. Í orkulögum segir, með leyfi forseta:

,,Ef ráðist er í framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlanagerðum á vegum Orkustofnunar, skal þessi rannsóknar- og undirbúningskostnaður talinn með stofnkostnaði þeirra og endurgreiðast Orkusjóði. Endurgreiðslu skal að fullu lokið eigi síðar en fimm árum eftir að hafist er handa um hagnýtingu framkvæmdanna.``

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. Alþingis.