Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:26:40 (1121)

1998-11-16 17:26:40# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:26]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þótt frv. þetta láti ekki mikið yfir sér þá hreyfir það mjög mikilvægu máli, stefnumótunarmáli varðandi orkurannsóknir og fjármögnun þeirra á Íslandi. Þau mál hafa ekki verið í nægilega skipulögðum farvegi hér á landi. Einstök orkufyrirtæki hafa ákveðið rannsóknir og farið með þær hvert eftir sínu höfði. Hér er gert ráð fyrir einum samfelldum farvegi fyrir þessi mál eins og frv. lítur út. Þó er auðvitað alveg ljóst að þær 50 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. næsta árs munu hvergi nærri hrökkva til að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins, eins og það er orðað.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. að því hvernig hann sér sambúð þessara nýju laga um Orkusjóð, ef þetta frv. verður samþykkt, við rannsóknarstarfsemi fyrirtækja og þá sérstaklega rannsóknir Landsvirkjunar. Ég tel í sjálfu sér skynsamlegt að fella orkurannsóknir og undirbúning á orkuframkvæmdum í eina heild og til hliðar við orkuvinnslufyrirtækin eins og Landsvirkjun. Ég held að það sé að mörgu leyti vafasamt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun þurfi að standa að jafnstórum hluta í rannsóknum og það hefur gert. Í framtíðinni er við því að búast að eignarhaldi á því fyrirtæki verði breytt á einhvern hátt, hvort sem sveitarfélögin og þar með borgin fara þaðan út eða hvernig svo sem það verður. Þess vegna er skynsamlegt að einhver ein stofnun og þá hugsanlega Orkusjóður hafi með þessar rannsóknir að gera. Ég vil því biðja hæstv. iðnrh. að fara aðeins nánar yfir það áður en málið fer til nefndar.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða rök eru fyrir því að gera þá tillögu sem gert er ráð fyrir í annarri meginbreytingatillögu þessa frv., að ráðherra skipi tvo ráðsmenn eins og það heitir, en Alþingi kjósi þrjá ráðsmenn hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér mjög fyrir því að ríkisstjórnin og ráðherrar, þ.e. framkvæmdarvaldshafi hverju sinni fari með ákvörðunarvald um hverjir skipi fulltrúa í ráð, nefndir og stjórnir fyrir hönd ríkisins eða af hálfu þjóðarinnar ef svo má að orði kveða í stað þess að Alþingi kjósi þessa aðila. Frægustu dæmin um það eru auðvitað bankaráð Búnaðarbankans og Landsbankans. Ég hef tekið eftir því að menn úr öllum flokkum hafa tekið undir þessi sjónarmið ráðherrans. Ég hef ekki endilega tekið undir þau þar sem ég tel það vel koma til greina að við þessar stofnanir séu pólitískar stjórnir.

[17:30]

Í rauninni kann ég ekki að meta það að menn geri jafnlítið úr hinu pólitíska stjórnvaldi sem er í þessari stofnun og menn gera stundum í umræðum um þessi mál og líta þannig á að ráðherrann sem er þó líka pólitískur sé allt í einu orðinn ópólitískur um leið og hann gengur inn í húsið fyrir ofan Arnarhvol eða hvar hann er til húsa að öðru leyti.

Hér er hins vegar blandað saman þessum tveimur aðferðum. Annars vegar er gert ráð fyrir því að Alþingi kjósi þrjá menn hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar og hins vegar skipi ráðherra tvo ráðsmenn. Hér er verið að fara einhverja leið sem ég átta mig ekki alveg á hvaða rök eru fyrir. Ég hefði alveg getað hugsað mér að Alþingi kysi alla þessa menn en ég átta mig ekki alveg á því hvernig á því stendur að gerð er tillaga um það af ríkisstjórninni að báðar aðferðirnar séu notaðar í þessu tilviki.

Mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra svaraði spurningum mínum um leið og ég tek fram að þar sem ég starfa með hv. iðnn. mun ég eiga þess kost að fylgja málinu eftir á vettvangi hennar.