Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:31:13 (1122)

1998-11-16 17:31:13# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Eins og kom fram lætur málið ekki mikið yfir sér en hér er stórmál á ferðinni eins og hv. þm. benti á vegna þess að hér er verið að fara inn á alveg nýjar brautir. Þetta frv. er flutt sem sérlög um Orkusjóð en Orkusjóður hefur fram undir þetta verið X. kafli af orkulögum. Með breytingum að undanförnu og með stærri breytingum sem eru væntanlegar í framtíðinni, mun í sjálfu sér ekki standa eftir neitt sem heitir orkulög. Þess vegna reikna ég með því á fyrstu dögum þings eftir jólaleyfi að geta lagt fram nýtt frv. um raforkulög sem gerir ráð fyrir gerbreyttri skipan á þessum málum. Þegar þau hafa tekið gildi, sem ég geri ekki ráð fyrir að verði á þessu þingi vegna þess að ég tel að þingið þurfi mun lengri tíma til að fjalla um það og undirbúa, þá stendur raunverulega ekkert af þessum gömlu orkulögum eftir.

Mjög margir hafa rætt um að það væri annaðhvort kominn tími til þess að slá Orkusjóð sem slíkan af og breyta eða hætta því hlutverki sem hann hefur haft, sem hefur verið fyrst og fremst að veita styrki, veita lán til rannsókna og borana eftir heitu vatni og hefur haft nokkuð mikilvægu hlutverki að gegna í því, en að koma því fyrir með öðrum hætti en nákvæmlega í Orkusjóði. Með þessari breytingu er hins vegar það skref stigið að Orkusjóði verður fært algerlega nýtt hlutverk, þ.e. að vera að nokkru leyti jöfnunarsjóður í því að geta haldið stöðugu fjármagni til rannsókna hverju sinni. Þetta er hugsað eins og ég lýsti í framsöguræðu minni þannig þegar viðkomandi fyrirtæki hafa fengið afhent rannsóknar- eða virkjanaleyfi endurgreiði þau þann kostnað sem ríkið hefur lagt í við slíkar rannsóknir. Þeir fjármunir renni beint inn í Orkusjóð og síðan verði tiltekin upphæð notuð á ári hverju í yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins. 50 millj. kr. eru áætlaðar á árinu 1999 samkvæmt fjárlagafrv. í sjóðinn. Hins vegar er gert ráð fyrir því að 50 millj. kr. muni renna til sjóðsins árlega á næstu fimm árum og það byggist á því, og kannski gerði ég ekki alveg nógu glögga grein fyrir því í framsöguræðu minni, að nú er Landsvirkjun að endurgreiða þann kostnað sem ríkið og Orkustofnun hafa lagt í varðandi Fljótsdalsvirkjun sem er reiknað með að sé upp á í kringum 350 millj. kr., 50 millj. kr. hafa nú þegar verið greiddar eða verða greiddar í desember beint í ríkissjóð, 50 millj. kr. á næsta ári í Orkusjóð og síðan verða greiddar árlega næstu fimm árin 50 millj. kr. sem eru í samþykktum skuldabréfum sem Landsvirkjun hefur gefið út. Síðan ef fleiri virkjanaleyfi verða gefin út þar sem slíkur kostnaður liggur að baki þá er hugsunin sú að allar þessar endurgreiðslur renni inn í sjóðinn og fyrir þá fjármuni sem koma inn í hann geti Orkustofnun síðan staðið að þessum grundvallarrannsóknum.

Þarna tel ég verið sé að stíga mjög mikilvægt skref og algert nýmæli vegna þess að sú breyting sem þarna verður á er sú að nú mun það ekki ráðast af því hversu marga fiska við drögum úr sjó eða hvert verðið á fiskafurðum okkar verður á erlendum mörkuðum eða með öðrum orðum hvert ástand þjóðarbúsins er hverju sinni hversu mikla peninga við höfum til rannsókna í framtíðinni, heldur verði menn með fasta upphæð á ári til slíkra rannsókna. Það er samkvæmt þeirri áætlun sem Orkustofnun hefur lagt fyrir okkur að við gerum ráð fyrir því að geta verið með mjög góða stabba af vel rannsökuðum virkjunarkostum á næstu árum með þessum fjármunum sem þarna er gert ráð fyrir.

Eins og um var talað áður en sú kyrrstaða sem rofin var með orkufrekum iðnaði í tíð þessarar ríkisstjórnar, töldu menn eftir að Blönduvirkjun var vígð að það væri síðasta stórvirkjun vatnsafls sem vígð yrði á þessari öld og þannig væru menn búnir að rannsaka ástand orkulindanna langt fram á fyrsta áratug næstu aldar. En svo er ekki og menn hafa gengið núna mjög á þann stabba af virkjunarkostum sem Orkustofnun var búin að rannsaka þannig að full ástæða er til að fara út í mikið átak í þeim efnum sem áætlað er með þessum fjármunum fyrir utan það að menn þurfa líka að taka til endurskoðunar ýmsa þá virkjunarkosti sem menn hafa verið með áform uppi um að ráðast í, ekki til þess að slá þá af eins margir tala um og henda frá sér af því að það hentar á hverjum tíma að tala um slíka hluti heldur kannski fyrst og fremst að breyta röðinni og leita leiða hvort ekki sé hægt að fara aðrar leiðir en nákvæmlega þær sem menn hafa valið í dag, þ.e. fara alltaf þá ódýrstu og hagkvæmustu en menn geta kannski fundið aðrar leiðir í þessum efnum sem eru ekki eins ódýrar, ekki eins hagkvæmar en mismunurinn á hagkvæmustu leið og þeirri leið sem valin yrði er þá það gjald sem menn hafa verið að greiða fyrir í umhverfisverndinni og sjálfsagt er að gera. Þannig vonast ég til að ég hafi svarað þessu atriði sem snýr að frv. eins skilmerkilega og ég get við þessa umræðu.

Þá kem ég að annarri spurningu hv. þm. þar sem hann biður um rökin fyrir því að nú skuli tveir fulltrúar vera valdir af iðnrh. og þrír fulltrúar kjörnir af Alþingi. Í dag er það þannig að orkuráð er að öllu leyti kosið hlutfallskosningu á Alþingi. Eins og kom fram hjá hv. þm. er með þessari breytingu gert ráð fyrir því að tveir fulltrúar séu valdir af iðnrh. í stjórn sjóðsins.

Hugsunin sem liggur þarna að baki er þessi: Sú framtíð sem ég sé að blasir við, hvort sem það verður í tíð þessarar ríkisstjórnar eða næstu ríkisstjórnar, er að þá munum við gera grundvallarbreytingar á orkulögum. Bæði erum við sjálfviljugir að breyta slíku fyrir utan það að tilskipun Evrópusambandsins um breytt fyrirkomulag um veitingu virkjanaleyfa mun leiða það af sér að við þurfum að breyta því fyrirkomulagi sem við erum með í dag. Alþingi mun í minna mæli fjalla um einstök virkjanaleyfi í framtíðinni að mínu viti og þær kröfur munu m.a. birtast í tilskipun Evrópusambandsins en það er hins vegar því mikilvægara að Alþingi fjalli enn frekar um nákvæmar áætlanir sem eru uppi um orkunýtingu og þess vegna tel ég að þetta sé samstarfsverkefni Alþingis og framkvæmdarvaldsins sem mun í auknum mæli fara að veita leyfin án beinnar íhlutunar Alþingis en Alþingi leggja hins vegar hinar stóru línur um það hvað skuli virkjað og hvernig það skuli gert. Af því að það er hlutverk Orkusjóðs samkvæmt því sem hérna er sett fram að vera með þessar yfirlitsrannsóknir á orkuauðlindunum og hvernig þær skulu nýttar tel ég að það eigi að vera samstarfsverkefni framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins að gera þetta með þessum hætti.

Það breytir ekkert þeirri afstöðu minni sem hefur komið skýrt fram í þeim frumvörpum sem ég hef áður lagt fram á Alþingi um að framkvæmdarvaldið skuli velja einstaka stjórnarmenn til setu í stjórnum hlutafélaga og þar fram eftir götunum. Hins vegar er ekki verið að breyta þessum sjóði í hlutafélag --- og býst ég þá við að hv. þm. rifji það upp --- það var heldur ekki verið að breyta Landsvirkjun í hlutafélag á sínum tíma þegar sú breyting var gerð, hvernig var valið til þeirrar stjórnar en þá var eins og kom skýrt fram í því frv. verið að reyna að færa, þrátt fyrir að við værum ekki að breyta fyrirtækinu í hlutafélag, rekstur fyrirtækisins og móta hann þannig að hann líktist enn meira hlutafélagaforminu en verið hefur og ég býst við að það verði innan kannski ekki mjög margra ára sem menn hafa tekið þá ákvörðun að breyta Landsvirkjun yfir í hlutafélag.

Ég vonast til að ég hafi svarað hv. þm. eins skilmerkilega og ég get við þessa 1. umr. Eins og kom fram hjá hv. þm. mun hann hafa veruleg áhrif á það hvernig framgangur málsins verður gegnum þingið með setu sinni í hv. iðnn.