Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:44:53 (1125)

1998-11-16 17:44:53# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég tek til máls undir þessum lið vegna orða hæstv. iðnrh. um að hann teldi rétt með orkurannsóknum og nýrri fjármögnun þeirra að bæta við þann stabba sem hefði verið kannaður á undanförnum árum í mögulegum orkuframkvæmdum framtíðarinnar og eins það að breyta því sem gert hefur verið eða endurskoða það hugsanlega en slá ekki af hugmyndir eins og sumir vildu, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Ég velti því reyndar fyrir mér hvað hæstv. ráðherra á við með því en mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessum orðum hvað hann meini með því þegar hann segir að það eigi að endurskoða sumt, ég geri ráð fyrir að hann meini sumt af því sem gagnrýnt hefur verið eins og t.d. Fljótsdalsvirkjun, virkjanir sem gera ráð fyrir því að draga úr rennsli Dettifoss, virkjanir sem gera ráð fyrir því að Þjórsárver fari undir vatn.

[17:45]

Fljótsdalsvirkjun mun leiða til þess eins og hæstv. ráðherra veit að Eyjabakkar fara allir undir vatn. Er hann í raun að segja að verið sé að kanna nýjar leiðir í sambandi við Fljótsdalsvirkjun til að hægt sé að virkja hana án þess að Eyjabakkarnir verði skertir eða er hann að segja að taka eigi sumt af Eyjabökkunum undir vatn en annað ekki? Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hv. ráðherra að útskýra þetta aðeins betur fyrst hann hafði sérstaklega orð á þessu.

Þetta brennur á þjóðinni og ég hef orðið var við að almenningur í landinu hefur áhyggjur af því hvernig virkjanir hafa þanist út og menn ekki gætt að sér þegar um náttúruperlur landsins er að ræða og almenningur er kannski orðinn meðvitaðri um þetta sérstaka náttúruundur okkar landsmanna en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er þetta í hugum okkar miklu mikilvægara en áður var.

Mig langar einnig, herra forseti, að spyrja hæstv. ráðherra hvaða stefnu hann hafi í rannsóknum á háhitasvæðum landsins. Þau eru fjölmörg og geta skilað okkur verulegri orku til að bæta hugsanlega það sem við þurfum að draga úr virkjun fallvatna vegna umhverfissjónarmiða. Það eru mörg háhitasvæði ónýtt sem við þekkjum, t.d. á suðvesturhorninu, Trölladyngjusvæðið. Við erum með óvirkjað á Nesjavöllum og í Bjarnarflagi og miklu víðar á landinu er vitað um svæði sem geta gefið mjög mikla orku og komið í veg fyrir þau landspjöll sem fyrirhuguð eru með þeim virkjunum sem eru í þeim stabba sem hæstv. ráðherra minntist á áðan.

Ég geri fastlega ráð fyrir, herra forseti, að hæstv. ráðherra hafi fullan hug á að mæta þeim auknu kröfum landsmanna til umhverfisverndar þegar virkjanir eru annars vegar. Ég held að enginn vilji fara af stað með einhverja allsherjarhræðsluherferð eða gera allt tortryggilegt sem Landsvirkjun er að gera. Það er ekki meining mín með þessum orðum, heldur er það einlægur ásetningur minn og annarra að reyna að gæta fyllsta jafnvægis og vernda og passa upp á að ekki sé gengið ógætilega um þær perlur á hálendinu. Allir hugsandi menn gera sér grein fyrir því að ekki verður aftur heimt það landsvæði sem fer undir vatn vegna virkjana.