Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:50:07 (1126)

1998-11-16 17:50:07# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Af því hv. þm. spurði hvað ég ætti við þegar ég sagði ,,sumir`` þá þarf nú ekki að leita langt. Ég býst við að hv. þm. hafi orðið var við að uppi hafa verið mjög háværar kröfur að undanförnu um að hætta algerlega nýtingu íslenskra náttúruauðlinda á forsendu algerrar friðunar. Það eru t.d. fulltrúar hinna ýmsu félagasamtaka og þær raddir hafa líka heyrst á Alþingi án þess að ég þurfi að skýra neitt frekar hvað ég á við í þeim efnum.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þm. að ég tel að þeir fjármunir sem þarna munu koma inn í Orkusjóð geti nýst til að endurskoða nokkur af þeim áformum sem við höfum verið með í nýtingu orkuauðlindanna. Þá á ég við að við höfum eins og ég sagði áðan valið oft og tíðum ódýrustu og hagkvæmustu leiðina til að fá orkuna sem ódýrasta. Þá höfum við kannski í þeim áformum ekki alltaf gætt nákvæmlega að því hvort sú leið sem valin var væri sú besta fyrir náttúruna og umhverfið. Ég tel rétt að endurskoða áform í þessum efnum, hvort við getum fundið aðrar leiðir og ef þær eru dýrari og óhagkvæmari verður það að vera það gjald sem menn greiða til verndar náttúrunni.

Ég hef lagt á það höfuðáherslu og er, eins og fram hefur komið opinberlega, að setja af stað vinnu ráðuneytis míns, umhverfisyfirvalda, þeirra aðila allra sem hagsmuna hafa að gæta í því að menn fari nú og reyni að ná sátt milli mannsins, náttúrunnar og nýtingarinnar í þessum efnum. Það starf mun fara fram og þar vil ég ekki byrja á að gefa mér að rétt væri að slá af einstök virkjanaáform í þeim efnum, en margt af því sem hv. þm. Kristján Pálsson nefndi er alls ekki á dagskrá í þessari umræðu.