Orkusjóður

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 17:54:33 (1128)

1998-11-16 17:54:33# 123. lþ. 24.31 fundur 225. mál: #A Orkusjóður# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[17:54]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að margir hafa áhyggjur af því hvað geti gerst í náttúru hálendisins miðað við öll þau áform sem uppi hafa verið um nýtingu orkuauðlindanna. Það sem ég hef einfaldlega verið að segja er að ég tel rétt að menn taki og endurmeti margt af því sem þar hefur verið uppi.

Nú veit ég að hv. þm. veit að Alþingi veitti Landsvirkjun heimild til að nýta Jökulsá í Fljótsdal og þar af leiðandi heimild um leið til að safna vatni í kringum Eyjabakkana. Það er því ekki iðnrh. sem getur tekið slíkar ákvarðanir. Þetta hefur margoft komið fram við umræðu þessa máls, hvað eftir annað það sem af er vetrinum. Ef það er ætlun manna að taka leyfið af Landsvirkjun, þá er það Alþingi eitt sem getur gert það. Ég hef hins vegar sagt að ég mun ekki beita mér fyrir slíku sem iðnrh. Það er vegna þess að fyrirtækinu hafa verið afhent ákveðin réttindi. Fyrirtækið hefur verið hvatt til að fara í fjárfestingar á þessu svæði, hvatt til þess af fyrrv. iðnrh., hvatt til þess af Alþingi, því veittar allar heimildir til að standa við slíka hluti og fyrirtækið hefur lagt í milljarða króna fjárfestingu á svæðinu Ég tel því að ekki sé hægt að haga sér þannig af hálfu stjórnvalda að menn geti ekki treyst því sem Alþingi ákveður hverju sinni. Fyrir utan það að á sínum tíma var búið að skapa sátt milli þeirra sjónarmiða sem þá voru uppi, m.a. umhverfissjónarmiða, í því að Eyjabakkarnir og Norðlingaaldan eða Þjórsárverin fylgdust þarna að og af þeirri ástæðu hafa menn talað um að þar væri orðin sátt. Nú eru önnur sjónarmið uppi sem ég tel rétt að skoða.