Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:05:55 (1131)

1998-11-16 18:05:55# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það vakti athygli mína þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. viðskrh. þegar hann mælti fyrir breytingu á lögum um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins að hann sá ekki ástæðu til þess að nefna þá frétt sem var í Ríkisútvarpinu um helgina þar sem fram kom að á því hefði borið við sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum að verðbréfafyrirtæki hafi notað, að mínu mati óprúttnar og siðlausar aðferðir til að komast yfir hlutabréf í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Í þeirri frétt sem fram kom í Ríkisútvarpinu í gær kom fram, með leyfi forseta:

Búast má við því að hluthöfum fækki verulega í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þegar viðskipti með hlutbréf í 4,7 milljarða króna útboði bankans verða endanlega gerð upp. Ljóst er að fjölmargar peningastofnanir, tryggingafélög og aðrir stórir fjárfestar standa á bak við kaup einstaklinga á hlutabréfum í bankanum.

Eins og greint var frá í útvarpsfréttum í gær var talsvert um það að fólk skráði sig fyrir hámarkshlut í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þó raunverulega í nafni annarra. Fréttastofan þekkir til að mynda nokkur dæmi þess að verðbréfamiðlarar hafi samið við fólk um að það skráði sig fyrir hármarkshlut á sölugenginu 1,4. Verðbréfafyrirtækið hét því hins vegar á móti að kaupa hlutinn á hærra gengi. Þannig væri það útlátalaust af hálfu einstaklingsins að skrá sig fyrir hlut í Fjárfestingarbankanum og það eina sem hann þyrfti að gera væri að taka við peningum fyrir viðvikið.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst þetta mjög sérkennilegir viðskiptahættir ef þetta getur gerst á markaðnum við sölu á hlutabréfum í Fjárfestingarbankanum og þá væntanlega líka í Landsbankanum. Ég hafði ekki heyrt um að þetta hefði gerst þar en það gæti a.m.k. komið til álita hvort svo hafi ekki verið.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi að mér hefur borist í hendur bréf sem starfsfólk í verðbréfafyrirtæki fékk greinilega frá yfirmönnum sínum. Ég mun á þessari stundu ekki nafngreina fyrirtækið, en tel ástæðu til að lesa bréfið. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Eftirfarandi er starfsmönnum algerlega óheimilt að ræða við nokkurn aðila:``

Síðan kemur nafnið á verðbréfafyrirtækinu og sagt að það sé að safna kennitölum til að gera tilboð í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

,,Starfsmönnum er heimilt að koma með kennitölur sínar og fjölskyldu sinnar og aðila sem þeir treysta. T.d. er í góðu lagi þótt starfsmaður komi með 10 kennitölur. Við munum greiða fimm punkta fyrir hverja kennitölu. Vænt verðmæti hverrar kennitölu er á bilinu 50--100 þús. kr.``

Síðan stendur: ,,Við munum skrá hverja kennitölu fyrir kaupum að upphæð 1--2 millj kr. að nafnvirði. Við greiðum ekki starfsfólki fyrir að koma með kennitölurnar heldur kennitölunum sjálfum.``

Síðan segir í lokin, með leyfi forseta:

,,Ágæta starfsfólk. Ég þarf vonandi ekki að ítreka við ykkur mikilvægi þess að trúnaður vegna þessa máls verði haldinn. Ef þetta fréttist á markaðnum og til samkeppnisaðila okkar er málið dautt.``

Mér finnst þetta mjög sérkennilegt bréf sem mér barst í hendur og allsérstæðir viðskiptahættir sem þarna eiga sér stað. Ég hafði hreinlega ekki gert mér grein fyrir að starfsfólk í verðbréfafyrirtækjum gæti safnað saman kennitölum hjá fjölskyldum sínum, vinum og vandamönnum og verðbréfafyrirtækið sæi síðan um að kaupa hlutinn fyrir viðkomandi og tryggði þeim fimm punkta hækkun á gengi hlutabréfanna þannig að hver sem lánaði kennitölu sína fengi í hendur nokkra tugi þúsunda. Maður veltir því fyrir sér hvort kolkrabbinn sé kominn af stað bakdyramegin til þess að eignast Fjárfestingarbankann.

Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh.: Hver er skoðun hans á þessari aðferð við kaup á hlutabréfum í Fjárfestingarbankanum sem stuðlar vissulega að samþjöppun hlutabréfanna á færri hendur og er greinilega til þess gert að opna möguleika á kaupum fjársterkra aðila að fleiri hlutabréfum en leyfilegt hámark er. Menn eru að tala um að það eigi að vera hámarksdreifing á þessum hlutabréfum. En sú leið sem hér er farin --- maður veit auðvitað með eftirmarkaðinn að hann getur breytt þessu. En þarna á þessu stigi máls eru það verðbréfafyrirtæki sem beita sér fyrir því að starfsmenn verðbréfafyrirtækjanna geta boðið vinum og kunningjum ákveðinn ágóða án þess að leggja fram nokkra peninga með því að lána kennitölu sína.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ástæðu til að láta bankaeftirlitið kanna þetta mál sérstaklega og hvort hann telji rétt að bregðast við og grípa til aðgerða sem komi í veg fyrir svona óeðlilega viðskiptahætti. Hér á að fara að selja 51% í viðbót af hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum. Hæstv. ráðherra er að biðja Alþingi um heimild til þess. Telur ráðherrann, áður en það útboð fer af stað, að grípa eigi til einhverra aðgerða, eða er það kannski ekki hægt, til þess að koma í veg fyrir að fjársterkir aðilar og kolkrabbinn geti með þessari leið safnað að sér hlutabréfum langt umfram það hámark sem leyft er í útboðunum?

Ég vil í þriðja lagi spyrja hæstv. ráðherra að því hvort draga megi þá ályktun af þeirri miklu eftirspurn sem er á bréfunum og þeirri sem ég kalla óprúttnu leið sem sterkir fjárfestar nota til að fjárfesta í þessum bréfum að gengi þeirra í útboðunum sé of lágt. Má draga þá ályktun, herra forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra að því, af þessari miklu eftirspurn sem er eftir bréfunum að gengi þeirra í útboðunum sé of lágt --- það er greinilega mikil eftirspurn eftir þeim --- og að ríkissjóður hefði getað fengið hærra verð fyrir hlutabréfin en raun ber vitni, að ríkissjóður hefði getað fengið meiri verðmæti út úr þessum banka?

Ég tel, herra forseti, að full ástæða sé til þess, úr því að þetta hefur komið fram í fjölmiðlum, að ráðherrann svari því úr ræðustól á þinginu hvert álit hans er á þessum viðskiptaháttum sem ég tel með öllu óverjandi og óviðunandi, ef fjársterkir aðilar komast svona bakdyramegin til að koma í veg fyrir eins dreifða eignaraðild og kostur er og á þennan hátt.