Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:16:45 (1133)

1998-11-16 18:16:45# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Ég heyri það að hann hefur áhyggjur af þeim viðskiptaháttum sem ég lýsti sem eru mjög óeðlilegir. Ráðherrann orðaði það svo að komi ljós að um sé að ræða stórfellda kennitölusöfnun þá sé það mjög alvarlegt.

En hvernig hefur ráðherrann hugsað sér að bregðast við þessu? Hvernig ætlar hann að komast að raun um hvort um stórfellda kennitölusöfnun hafi verið að ræða og til hvaða aðgerða hyggst hann þá grípa? Mér finnst þetta ekki nægjanleg svör þó að vissulega séu það svör að ákveðnu marki að ráðherrann hefur áhyggjur af þessu, það er þó byrjunin. En eins og ráðherrann nefndi er þetta þvert á tilætlaðan tilgang með því að selja hlutafé ríkissjóðs í bankanum og því spyr ég ráðherrann: Mun hann láta bankaeftirlitið fara í málið til þess að kanna það hvort um stórfellda kennitölusöfnun hafi verið að ræða eða ekki? Til hvaða aðgerða hyggst ráðherrann þá grípa og hvað er það raunverulega sem hann metur stórfellt?

Öll svona söfnun finnst mér óeðlileg og ég tel að það verði að tryggja það --- ég tala ekki um þegar á að fara að selja hér 51% eða allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbankanum --- að þetta geti ekki átt sér stað og að brugðist verði við því.

Herra forseti. Mér fannst svör ráðherra heldur óljós að því er þetta varðar og spyr hann hvort hann muni t.d. bregðast þannig við að bankaeftirlitið fari ofan í þetta mál og kanni það sérstaklega.