Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:18:32 (1134)

1998-11-16 18:18:32# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég ekki rétt á þessari stundu að tala um til hvaða aðgerða eigi að grípa á meðan við erum bara með meinta hluti í höndunum en ekki skjalfestar staðreyndir. Við verðum líka að hafa í huga að verðbréfamiðlarar, bæði Landsbanki og Búnaðarbanki og hugsanlega fleiri aðilar, hafa kannski ekki endilega þurft að vera í kennitölusöfnun. Þeir hafa einfaldlega getað verið að þjóna viðskiptamönnum sínum vegna þess að viðskiptamenn þessara fyrirtækja hafa kannski óskað eftir því að þessi fyrirtæki keyptu fyrir þá inn í sitt safn sem er kannski í vörslu viðkomandi fyrirtækis. Viðkomandi fyrirtæki hafa líka hugsanlega getað verið að kaupa inn í sjóðasafn sitt í viðkomandi fyrirtækjum sem eru síðan fjárfestingarkostir fyrir þá sem þar vilja koma inn. Þess vegna megum við ekki á þessari stundu halda því fram að þarna hafi verið um þessa hluti að ræða. Ég tek skýrt fram að ef svo er og það kemur í ljós að menn hafi verið að leika þennan leik (JóhS: Hvernig ætlar ráðherrann að staðreyna það?), þá finnst mér að við þurfum að hugsa þetta mál algjörlega upp á nýtt. Ekki er hægt að staðreyna það fyrr en við sjáum hvort þessir hlutir fara að safnast saman á næstunni til tiltekinna aðila og það sjá menn auðvitað á hlutafélagaskrám þessara fyrirtækja þegar þar að kemur.

En við megum ekki nálgast málið hér og nú með því að gefa okkur þetta sem staðreynd. Það kemur kannski í ljós að þetta sé staðreynd en það er ekki hægt að gefa sér það. Þess vegna er ég ekki tilbúinn til þess að lýsa því yfir að ég ætli að fara að beita einhverjum viðurlögum sem ég býst við að sé kannski ekki hægt og ég átta mig ekki nákvæmlega á því á þessari stundu hvort yfirleitt sé hægt að koma í veg fyrir slíka hluti.

En tilgangurinn með einkavæðingunni var ekki þessi. Ef þetta er staðreynd þurfum við að hugsa það upp á nýtt hvernig við stöndum að þessu.