Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:22:15 (1136)

1998-11-16 18:22:15# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:22]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er mjög einfalt. 1. gr. frv. er einungis einn málsliður:

,,Heimilt er að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Og 2. gr. hljóðar svo:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Nú er það svo að oft er gott að löggjöf sé skýr og ljóst að hverju menn stefna. En þetta mál er ekki svona einfalt. Þessi banki, sem var á sínum tíma settur á laggirnar með samruna Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, vakti pólitískar deilur í þingsölum eins og menn muna. Við stjórnarandstæðingar töldum margir hverjir að hér væri verið að fara inn á rangar brautir. Það hefði verið nær að taka þessa sjóði og styrkja með þeim ríkisviðskiptabankakerfið sem þurfti mjög á því að halda í stað þess að stofna sérstakan banka.

Það er mat mitt að reynslan hafi staðfest að þær röksemdir sem við höfðum á sínum tíma hafi verið réttar og það má einmitt benda á að ýmsir tala um það sem aðalhagræðinguna í íslensku bankakerfi einmitt að kaupa þennan tiltekna banka og fella hann svo inn í aðra banka sem hér eru á markaðnum. Uppleggið var rangt en hins vegar var tekist á um það pólitískt og ríkisstjórnin knúði fram vilja sinn sem var meirihlutavilji Alþingis og það er ekkert við því að segja. Við í stjórnarandstöðunni verðum að horfast í augu við það að ekki sé hlustað á allt sem við leggjum til. Hins vegar fjallar þetta frumvarp, og við skulum reyna að ræða það efnislega, um að selja í reynd 51% í bankanum vegna þess að það var áður heimild fyrir að selja 49%. Það ferli hefur verið í gangi undanfarið. Hins vegar er engin útfærsla í frv. um hvernig eigi að standa að sölunni og það er mjög ámælisvert vegna þess að við sölu á 49%, eins og við höfum séð, hafa komið upp miklir vankantar sem segja okkur að þegar við gengum frá lögunum á hinu háa Alþingi, hafi ekki verið tryggilega gengið frá því að þeirri stefnu að tryggja dreifða eignaraðild, sem menn voru nokkuð sammála um. Úr því að það átti að selja hluta í bankanum á annað borð, er mikilvægt að fylgt sé eftir nægjanlega skýrt í frv. þegar bankinn var stofnsettur.

Nú keyrir hins vegar um þverbak vegna þess að í því frv. sem hér er til umræðu eru enn þá færri ákvæði og minni útfærsla á sölunni. Vakin hefur verið á því athygli hér, og hefur reyndar verið gert í fjölmiðlum líka, að menn hafa farið fram hjá þeirri leið að hafa hámark á kaupum. Nú ganga kaupum og sölum réttindi manna til að gera tilboð í bankann. Þetta hefði vitaskuld mátt koma í veg fyrir með því að setja í lögin um Fjárfestingarbankann þröng skilyrði um hámarkseignaraðild. Með þessu frumvarpi þarf að breyta því þannig að ekki einungis verði sett á nákvæm útfærsla um hvernig staðið verði að sölunni, það verður beinlínis að gera það. Þetta frumvarp er algjörlega ófullnægjandi eins og það er lagt fram. Það þarf að útfæra hvernig salan á hlutabréfunum fer fram, það er ekki nóg að gera það eins og segir í frv.

,,Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að sölu hlutafjár í bankanum í síðari áfanga, þ.e. hvernig heimildir Alþingis til frekari sölu samkvæmt þessu frumvarpi verði nýttar.``

Það er algjörlega óviðunandi, herra forseti, að mínu mati að svo sé frá málum gengið. Það er hægt að útfæra feril sem tryggir dreifða eignaraðild og tryggja að í eftirsölu safnist ekki hlutabréfin á of fáar hendur og það er vandalítið að útfæra slíkt í lagatexta. Ég er hins vegar ekkert viss um að ríkisstjórnin kjósi að gera það en það á eftir að koma í ljós.

Hins vegar er augljóst að uppleggið við söluna á 49%, eins og fréttir eru að berast af, er ekki í samræmi við lögin eins og gengið var frá þeim. Það er ekki í samræmi við lögin og greinargerðina með frv. um Fjárfestingarbankann, eins og það var afgreitt á sínum tíma, því að menn ræddu þá mjög ákveðið um dreifða eignaraðild.

Ef það er rétt, sem fréttir eru hér til um, að fólk hafi verið fengið til skrifa sig fyrir hlutum, til að færa það svo aftur yfir til banka eða fjárfestingarfyrirtækja eða hverra sem er, til að komast fram hjá hámarkskaupréttinum, sem var að mig minnir 3 millj. að nafnvirði, ef það er tilfellið, þá er augljóst að hér er verið að fara á svig við lögin, e.t.v. ekki lögin sjálf vegna þess að þau hafa kannski ekki verið nógu vel útbúin hvað þennan þátt varðar, það verður að skoða, en það er alveg ljóst að farið er á svig við það upplegg sem efh.- og viðskn. lagði fram þegar hún gekk frá málinu á sínum tíma til 2. umr. Ég hygg að það megi líka segja að hér sé gengið á skjön við ætlun ríkisstjórnarinnar, eins og hún birtist í ummælum hæstv. viðskrh. á sínum tíma. Þetta þarf að skoða betur.

Herra forseti. Ég mun á næsta fundi efh.- og viðskn. í vikunni óska eftir að þetta mál verði tekið þar sérstaklega til umræðu og nefndin skoði og afli sér nánari upplýsinga um framkvæmd þessarar sölu á 49%. Það er við hæfi að nefndin kynni sér þetta mál og sjái hvort hér séu misfellur á framkvæmd eins og nefndin gekk frá frv. á sínum tíma. Ég ætla í sjálfu sér ekkert að fullyrða um það á þessi stigi en það er augljóst að ekki er hægt að láta þetta mál einfaldlega falla niður því að ef þetta leiðir síðan til meiri samþjöppunar á eignaraðild á bankanum en menn ætluðu í upphafi þá er það vitaskuld grafalvarlegt mál. Hvort efh.- og viðskn. verður samstiga í þessari skoðun eða ekki, á það á eftir að reyna. Þetta mál hefur ekki verið rætt enn þá í nefndinni, en ég tel a.m.k. rétt að í fyrstu umferð sé málið skoðað þar með þessum hætti.

[18:30]

Jafnframt tel ég, herra forseti, að þetta frv., sem vafalítið verður vísað að umræðu lokinni til efh.- og viðskn. að tillögu hæstv. viðskrh., verði að leggja aðeins til hliðar á meðan menn fá skýr svör um framkvæmdina á sölunni á 49% og leggjast yfir það með hvaða hætti salan verður útfærð. Við munum hinn pólitíska ágreining um þetta mál og vitaskuld gætum við í stjórnarandstöðunni sagt: Allt þetta mál er klúður og á ábyrgð stjórnarinnar. Og það er þannig. Við í stjórnarandstöðunni höfum vanið okkur við að reyna að taka efnislega afstöðu til málanna hverju sinni og staðreyndin er að bankinn var stofnaður þótt við hefðum ekki viljað það. En það er sömuleiðis staðreynd, sem við ráðum að vísu heldur ekki við sjálf, að allt uppleggið sem miðaði að því að tryggja hagsmunasamtökum sem réðu mestu í fyrri sjóðum --- við sjáum að þau tök eru öll til staðar í hinum nýja banka.

Í greinargerð með frv. er eiginlega að nokkru leyti rakin sorgarsaga hæstv. viðskrh. í bankamálum sumarsins þegar hann ætlaði að ganga til sölu á Landsbanka Íslands en var gerður afturreka með það í ríkisstjórninni. Það væri í sjálfu sér hægt að hafa langt mál um það en ég sé enga sérstaka ástæðu til þess nema að draga fram að hæstv. viðskrh. hafa verið mjög mislagðar hendur í bankamálum frá því að hann tók við embætti. Hann hefur ekki náð hugmyndum sínum fram, oft hafa þær verið illa útfærðar og stundum hefur skort pólitískan styrk fyrir því sem hann hefur lagt áherslu á. Það er hins vegar vandamál ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar.

Hins vegar verður að hafa í huga að mikið fé, opinbert fé, er bundið í þessum banka. Þessi banki er almenningseign. Það er líka staðreynd að vextir eru hér hærri en í nágrannalöndunum og að við erum með óhagkvæmt bankakerfi og hærri þjónustugjöld en í nágrannalöndunum. Hluti er vegna fámennis, hluti er einfaldlega vegna skipulags okkar í bankamálum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að aukin samkeppni á þeim markaði væri mjög brýn og þá sérstaklega með því að fá inn erlenda banka, bæði starfandi eða sem hluthafa, sem ekki hefur reyndar orðið enn í okkar fjármálaumhverfi. En það má benda á að það eru margar ástæður til að hafa áhyggjur af einmitt skipulagi í bankakerfinu. Mig langar, herra forseti, að vitna aðeins í haustskýrslu Seðlabankans sem fjallaði m.a. um bankakerfið og var með varnaðarorð gagnvart efnahagsstefnunni sem var gerð að umtalsefni hér fyrr í dag.

Í skýrslunni segir að mikill vöxtur útlána bankakerfisins sé sérstakt áhyggjuefni Seðlabankans vegna hættu á verðbólgu og auknum viðskiptahalla. Það segir einnig í þessari skýrslu að Seðlabankinn telji að lánastofnanir kunni að leiðast út í áhættusamari lánveitingar sem skila ekki ætlaðri ávöxtun þegar aftur sverfir að. Þetta eru mjög þung orð, herra forseti, sem Seðlabankinn lætur falla um íslenska bankakerfið. Ég dreg þetta sérstaklega fram vegna þess að ég vildi gjarnan fá álit hæstv. viðskrh. á þessum ummælum og hvort hann hyggist beita sér á einhvern hátt fyrir því að þessir hlutir nái ekki fram að ganga eins og Seðlabankinn er búinn að lýsa áhyggjum sínum yfir.

Ekki er hægt, herra forseti, að ganga frá þessu frv. eins og hæstv. viðskrh. raunverulega fór fram á, að þetta yrði lögfest fljótlega, ég held hann hafi talað um fyrir áramót. Hann veit vitaskuld að það er ekki hægt. Ég veit að vísu ekki hvort hann er sammála því. Ég held hann ætti að hugleiða það mjög vandlega hvort þetta frv. verði ekki að taka verulegum breytingum í meðförum þingsins. Það er ekki hægt að afgreiða frv. með þessum hætti, að láta selja 51% af ríkiseign algjörlega án útfærslu þegar fyrir liggur að fyrri framkvæmd á sölu 49% hefur misfarist. Það verður að skoða það betur og finna á því bót. Það verður þá að ganga frá löggjöfinni um sölu á þessum 51%, því það má færa rök fyrir því að úr því að bankinn er til, þá sé alveg hægt að hugsa sér að ríkisvaldið dragi sig út úr eignaraðild á þessum banka. Það verður þá að gerast, herra forseti, á markvissan og skipulagðan hátt og má ekki gerast þannig að við séum að styrkja fákeppnisvaldið enn frekar, helmingaskiptavaldið sem þessi ríkisstjórn styðst svo við því þá er verr af stað farið en heima setið.