Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:35:50 (1137)

1998-11-16 18:35:50# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var gaman að þessari ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar því það er eins og hann hafi unnið hér stórkostlega pólitíska sigra þegar hann var að berjast gegn því að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins yrði til og allur málflutningur hans í þessari umræðu snýr á haus við það sem hv. þm. hélt fram við afgreiðslu málsins á sínum tíma. Væri nú ekki rétt fyrir hv. þm. að reyna aðeins að rifja upp öll stóru orðin sem hann viðhafði við umræðuna um málið? Hér væri á ferðinni skipting, helmingaskipti milli Sjálfstfl. og Framsfl. Hér væri verið að finna stóla fyrir afdankaða pólitíkusa sem þyrfti að koma út úr Stjórnarráðinu og út af Alþingi. Hér væri um einkavinavæðingu að ræða og ég veit ekki hvað og hvað. Ekkert af þeim stóryrðum sem hv. þm. var með og gekk manna harðast fram í hefur gengið eftir. Ekki nokkur skapaður hlutur. Allt sem hv. þm. hélt hér fram við þá umræðu var meira og minna tilbúningur og því miður verð ég að segja, með leyfi forseta, tómt rugl. Það hefur komið í ljós ... (Gripið fram í.) Alls ekki, hv. þm. Þessi formbreyting var nákvæmlega í takt við það sem ég lagði til. Og þegar hv. þm. segir að þetta hafi allt saman mistekist, eins og hann orðaði það, og að þessi sala hafi misfarist, þá er það allt saman tómur misskilningur og hv. þm. veit einfaldlega ekki um hvað hann er að tala.

Það sem hefur hins vegar gerst er það að með tilkomu Fjárfestingarbankans hefur samkeppnin á íslenska bankamarkaðnum aukist stórkostlega. Gott dæmi um það er einmitt það sem ég ætla að nefna hér. Vaxtamunur af heildareignum í Búnaðarbankanum var árið 1997 4,42%. Er eftir sex fyrstu mánuði þessa árs 3,98%. Hvað hefur gerst? Hann hefur lækkað um hálft prósentustig vegna vaxandi samkeppni á þessum markaði sem líka hefur leitt til þess að bankarnir báðir, bæði Búnaðarbanki og Landsbanki hafa þurft að taka sér tak en eru að skila sinni bestu afkomu eftir að þeim var breytt í hlutafélög. Þetta er árangurinn af aðgerðum ríkisstjórnarinnar á fjármálamarkaðnum á undangengnum þremur árum. Þegar hv. þm. heldur einhverju öðru fram þá annaðhvort veit hann ekki --- og það kann vel að vera að svo sé einfaldlega þegar maður hlustar á málflutning hans, að hann þekki bara ekki íslenskan fjármagnsmarkað, hann viti bara ekkert hvað er að gerast á íslenskum fjármagnsmarkaði. Því trúi ég nú varla, en málflutningurinn er nákvæmlega þannig. Það er eins og hv. þm. hafi bara alls ekki fylgst með hvað hefur verið að gerast á íslenskum fjármagnsmarkaði á undanförnum mánuðum og árum.