Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:41:34 (1139)

1998-11-16 18:41:34# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:41]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ekki dregur hv. þm. úr stóryrðunum. Fréttir eru uppi um það að menn hafi verið að kaupa sér áhrif í gegnum kennitölur. Það er engin staðfesting. En hér gengur hv. þm. Ágúst Einarsson fram og fullyrðir að svo sé. (Gripið fram í: Hann sagði grunur.) Sagði grunur, en sagði um leið, og fyrir því verður hv. þm. að finna stað orðum sínum, að lög hafi verið brotin. Menn hafi farið fram hjá lögum í þessum efnum. Hv. þm. verður að benda á hvaða lög voru brotin og standa fyrir slíkum fullyrðingum sem hann heldur hér fram. Hvaða lög voru brotin við sölu á hlutabréfum ríkisins í Fjárfestingarbankanum? Hv. þm. verður bara að koma hér í þennan ræðustól og vitna í þau lög sem þarna hafa verið brotin. Þingmenn geta ekki leyft sér svona málflutning og haldið slíku fram án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hvað þeir eru að tala. Hitt er aftur á móti alvarlegt ef menn hafa farið þá leið að safna kennitölum í þeim tilgangi að reyna að kaupa sig til áhrifa en við skulum ekki dæma um það hér og nú. Það mun verða hægt síðar og hv. þm. getur ekki leyft sér málflutning eins og hann var með við umræðuna.