Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:43:12 (1140)

1998-11-16 18:43:12# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir hæstv. viðskrh. vera kominn utan vegar. Það liggur fyrir að þegar lögin um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins voru afgreidd hér á hinu háa Alþingi var það mjög veigamikið atriði að þegar væri farið að selja 49% yrði dreifð eignaraðild tryggð. Ég lýsti þessu áðan mjög skilmerkilega. Það var vilji ráðherra og vilji efh.- og viðskn. sem gekk frá þessu máli, meiri hluta nefndarinnar. Við erum að ræða þá staðreynd núna að svo virðist sem farið hafi verið á svig við þetta í lögunum um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Ég tilkynnti áðan að ég mundi taka málið upp í efh.- og viðskn. á fimmtudaginn kemur og skoða það betur því okkur ber skylda til að sjá til þess hvort hér hafi eitthvað brugðist við lagasetninguna. Það er þess vegna, herra forseti, sem þetta frv. um sölu á 51% er algjörlega út í hött nema að fyrst verði búið að svara spurningunum um framkvæmdir á sölunni á 49%. Það sýnir okkur líka að endursemja þarf allt þetta frv. og útfæra mjög nákvæmlega hvernig staðið verði að sölunni því það hefur sýnt sig að ekki er hægt að ganga frá löggjöfinni eins og þetta frv. liggur fyrir. Það hef ég sagt og flutt fyrir því röksemdir en hæstv. viðskrh. einhverra hluta vegna leiðist út í ómálefnalega umræðu. Svo virðist sem hann hafi slæma samvisku í stjórnun sinni á bankamálum. Það getur vel verið. Ég hef ekki fundið að hagsmunir almennings í landinu hvað viðvíkur bankamálum hafi verið vel tryggðir í höndum hæstv. viðskrh. Hægt væri að færa margar sögur og dæmi um það og nefna til bæði Landsbanka og Búnaðarbanka, hvort sem eru háeff-væðing, söluvæðing eða bankastjórar eða annað slíkt. Þetta er allt hægt að rekja hér, afrekaskrá í gæsalöppum hæstv. viðskrh. En hann verður a.m.k. að reyna að þola það hér að taka þátt í málefnalegri umræðu þó að hann kikni undan henni.