Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 18:46:10 (1141)

1998-11-16 18:46:10# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[18:46]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gefur fullt tilefni að rifja upp hina makalausu magalendingu hans í bankamálunum fyrr í sumar. Hæstv. ráðherra segir að það sé vegna Fjárfestingarbankans, vegna hinnar auknu samkeppni sem sá banki hafi leitt inn í fjármálalíf landsmanna, að vaxtamunur í öðrum bönkum, þar á meðal Búnaðarbankanum, hafi lækkað verulega. Hver voru rök hæstv. ráðherra fyrir að selja útlendum auðjöfrum, Wallenberg-ættinni eða Skandinaviska Enskilda Banken, ráðandi hlut í Landsbankanum? Rökin voru eins og hann sagði í sumar að þetta ætti að auka samkeppnina.

Nú segir hæstv. ráðherra að það þurfi ekki neina útlenda banka, þetta hafi í raun verið vitleysa hjá honum með Wallenbergana vegna þess að Fjárfestingarbankinn hafi verið nægileg samkeppni til þess að minnka þennan vaxtamun. Ég held, herra forseti, að ef maður fer yfir sviðið og skoðar afkomu bankanna þá blasi tvennt við. Í fyrsta lagi má sjá að vaxandi góðæri í þjóðfélaginu hefur að sjálfsögðu komið fram í betri afkomu bankanna og þeim hefur tekist að minnka vaxtamun sinn. Jafnframt vita allir að íslensku bankarnir hafa staðið í umtalsverðum hagræðingaraðgerðum á síðustu árum sem að sjálfsögðu koma fram í minnkandi vaxtamun.

Hæstv. ráðherra ætti að nota seinni ræðu sína til að útskýra hina makalausu ferð sína varðandi bankamálin hér fyrr á þessu ári. Hæstv. ráðherra og flokksbróðir hans, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., beittu sér fyrir því á bak við Alþingi og aðra í ríkisstjórninni að hafnar voru viðræður við erlendan banka sem átti að leiða til þess að --- ja, Framsfl. ætlaði að selja Wallenberg-ættinni í Svíþjóð ráðandi hlut í Landsbankanum. Maður veltir fyrir sér hvers vegna það var, herra forseti. Var það vegna þess að Wallenbergarnir ættu að læsa klónum um leifarnar á SÍS-veldinu sem enn er uppistaðan í Framsfl.? Átti þannig að ná aftur framsóknarlegu tangarhaldi á fjármálalífi Íslendinga? Átti að endurvekja SÍS-drauginn með hjálp sænsks súrefnis? Auðvitað var það málið.

Herra forseti. Hver urðu afdrif hæstv. iðn.- og viðskrh. í þessu máli? Hæstv. forsrh. hann gekk fram fyrir skjöldu og kippti honum niður úr fluginu. Hann dró nú ekki mikinn arnsúg þegar hann brotlenti. Hæstv. forsrh. sagði einfaldlega og sló á fingur hæstv. iðnrh.: ,,Svona gera menn ekki.`` Það er auðvitað rétt, herra forseti, svona gera menn ekki. Þarna stefndi hæstv. ráðherra ranga leið eins og allir vissu. Hún var í blóra við það sem hann er að tala um núna og hefur reyndar talað fyrir eftir að hann vitkaðist, þ.e. dreifðri eignaraðild.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að afskaplega vel hafi tekist til með sölu á Landsbanka Íslands. Ég tel að þar hafi verið gefið ákveðið fordæmi um það hvernig fara eigi að því að selja íslensku bankana. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að selja þá þannig að landsmönnum verði boðnir smáir hlutir og þannig reynt að treysta dreifða eignaraðild. Ég tel að það hafi verið lofsvert hjá íslensku bönkunum og sparisjóðunum að örva menn til slíkra hlutabréfakaupa með því að veita þeim hagstæð lán. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég tel að fara hefði átt sömu leið varðandi Fjárfestingarbankann. Það hefði til að mynda ekki átt við söluna á 49% sem núna er nýlega afstaðin að hafa hlutina svona stóra. Hvers vegna? Ég geri mér grein fyrir því að það eru stórir aðilar sem eru að keppa um völdin í þessum bönkum. Ég, herra forseti, tel það ekkert óeðlilegt. Það skapast að sjálfsögðu eftirmarkaður með þessi bréf. Það hefði átt að örva almenning frekar með því að hafa hámarksupphæðina lægri. Ég held að niðurstaðan sýni að það hefði eigi að síður tekist að selja þá.

Ég held að hæstv. ráðherra geti ekki, með því að skoða hverjir eru eigendur þessara hluta núna, komist að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar menn keyptu bankann. Það er eðlilegt að menn notfæri sér það að þessi bréf séu eftirsóknarverð. Það er ekkert óeðlilegt við að menn kaupi bréf og selji aftur. Það er ekkert óeðlilegt við það.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að gera eigi allt sem hægt er til að tryggja dreifða eignaraðild. Til þess eru ýmsar leiðir færar. Þær eru ekki allar jafngóðar. Á til að mynda að fara þá leið sem hæstv. forsrh. hefur ítrekað nefnt, m.a. í stóru viðtali um bankamálin þegar hann kippti hæstv. viðskrh. niður af fluginu hér fyrr í sumar? Þar talaði hann um að mögulegt væri að lögbinda eignaraðild. Ef við færum þá leið, herra forseti, þá væri að öllum líkindum hægt að koma í veg fyrir að einstakir aðilar söfnuðu stórum hlut, m.a. með því að safna kennitölum eða með því að kaupa stóran hlut á eftirmarkaði. Það mundi aftur á móti girða fyrir möguleika smærri eigenda til að hagnast sem mest á þessum bréfum. Þess vegna tel ég að það sé ekki rétt leið, þó rétt sé að taka hana inn í umræðuna. Ég er þeirrar skoðunar að verulegrar íhugunar þyrfti við áður en menn kæmust að þeirri niðurstöðu. (Gripið fram í.) Ég tel, herra forseti, að það mundi rýra möguleika þeirra sem fjárfesta í smáum hlut í bankanum. Ég tel að þeir eigi að hafa fullt svigrúm til þess að selja sinn hlut og hagnast á því.

Hæstv. ráðherra spyr hvort við séum í sama flokki, ég og hv. þm. Ágúst Einarsson. Við erum í sama flokki, herra forseti, og erum meira að segja að flestu leyti sömu skoðun á þessu máli.

Hæstv. ráðherra talar um nauðsyn þess að stefna að því að tryggja hvað dreifðasta eignaraðild. Þá spyr ég, herra forseti: Hvernig stendur á því að í grg. með þessu frv. er talað um að miða eigi við að hlutdeild hvers aðila í frumsölu verði ekki stærri en 5--10% hlutafjár? Ég velti því fyrir mér, af hverju farið er af stað með svona stóra hluti? Hvers vegna förum við ekki sömu leið og gafst farsællega við sölu Landsbankann? Sú aðferð tryggði gríðarlega eftirspurn eftir bréfunum sem nú er verið að selja í Fjárfestingarbankanum.

Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að æskilegt sé, eins og hann hefur reyndar áður tjáð bæði í ræðu og riti, að ná upp því sem hann kallar burðarása- eða kjölfestufjárfesta, er þá ekki alveg ljóst miðað við staðreyndirnar sem við höfum frammi fyrir okkur, að niðurstaðan yrði á þann veg? Eru ekki hér á Íslandi a.m.k. tveir voldugir aðilar í fjármálalífinu sem vilja ná ítökum í þessum banka, sparisjóðirnir og Búnaðarbankinn? Er þá nokkuð óeðlilegt þó að þeir glími við að verða sér úti um þá hluti sem þeir vilja og eiga að hafa fullt frelsi til þess að fá, með því að kaupa hluti af smáum fjárfestum?

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Ef hann er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að hafa dreifða eignaraðild, af hverju leggur hann þá í þessa sjóferð með það að marki að hlutdeild hvers og eins kunni að vera 5--10%? Af því að ég hef fyrr í þessari ræðu vakið athygli á því að hinn raunverulegi bankamálaráðherra heitir ekki Finnur Ingólfsson heldur Davíð Oddsson hæstv. forsrh., þá hefur hann aðra skoðun á þessu. Hann hefur látið uppi að selja eigi bankana án þess að nokkur fari yfir 3%, reyndar hefur verið talað um 1--3%.

Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Ágúst Einarsson um að ranglega hafi verið af stað farið með þetta mál. Ég tel að þessi banki hafi aldrei haft neinu sérstöku hlutverki að gegna. Hvað er það sem hina bankana hefur skort en þessi banki hefur upp á að bjóða? Ég vísa þá a.m.k. í ummæli forvígismanna bæði Búnaðarbankans, Íslandsbanka og sparisjóðanna, sem allir hafa sagt að þessi banki sinni ekki neinu sem þeir geti ekki sinnt jafn vel. Ef við erum að tala um hagræðingu á íslenskum bankamarkaði og ef við erum að tala um að fækka ríkisbönkunum þá er það auðvitað óskiljanlegt hjá hæstv. iðn.- og viðskrh. að rembast eins og rjúpan við staurinn að ná því fram að þessi banki yrði settur saman.

Hverjar urðu þá sárabæturnar þegar honum var kippt niður úr flugferðinni miklu til Svíþjóðar? Þær voru að hæstv. ráðherra hann náði því fram að Fjárfestingarbankinn ætti áfram að vera sjálfstæð eining. Í þessari grg. og reyndar fyrri textum sem komið hafa frá ríkisstjórninni um þetta mál, virðist allt miða að því að koma í veg fyrir að innlendir aðilar kynnu að kaupa þennan banka og renna honum saman við aðra banka. Það kann vel að vera að á bak við þessa hugsun hjá hæstv. ráðherra liggi hringekja góðra raka, ég þekki það ekki. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að markaðurinn eigi að fá að ráða þessu. Ef Búnaðarbankinn eða sparisjóðirnir vilja kaupa sér ráðandi hlutdeild í Fjárfestingarbankanum þá eiga þeir að geta tekist á á við það verkefni á frjálsum markaði. Ef það þýðir að smáir hluthafar sem festa fé sitt í smá hlut geti hagnast, þá eiga þeir að fá að hagnast.

Ein leiðin, herra forseti, til að koma eign landsmanna í þessum bönkum til þeirra sjálfra felst í að fara sömu leið og gekk svo farsællega með Landsbankann. Ef hæstv. ráðherra, sem ég veit að er ákafur lesandi ritstjórnargreina sem ég skrifaði reglulega í dagblað sem ég er nú hættur að ritstýra, hefði lesið þær rækilega hefði hann komist að því að ég tók heils hugar undir þá aðferð sem hæstv. ráðherra slampaðist á þar. Ég segi slampaðist, herra forseti, vegna þess að hæstv. ráðherra kemst oft að réttum niðurstöðum en stundum í krafti rangra forsenda. En það er nú leyfilegt samkvæmt klassískri rökfræði.

Mig langar hins vegar, herra forseti, að velta einu upp. Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að nú þegar sé það mikil samkeppni í íslensku bankalífi að vaxtamunur fari hraðminnkandi, sem er hið besta mál, hvers vegna telur hann þá nauðsynlegt að fá erlenda kjölfestufjárfesta í þennan banka? Ég tek það fram, herra forseti, að ég hef ekkert á móti því að erlendir bankar hasli sér völl á Íslandi. Fyrir tilstilli flokksins sem ég tilheyri, Alþýðuflokksins, var lögum breytt svo á síðasta kjörtímabili að erlendum bönkum leyfist það. Þeir hafa fullt leyfi til þess að koma hingað og reisa hér útibú. Þegar má segja að íslenska bankakerfið sé í harðri samkeppni við erlenda banka vegna þess að fyrirtækin fara hvert á land sem er í heiminum til að finna hagstæð lán. Sparisjóður Bolungarvíkur fjármagnar smábátakaup Bolvíkinga með því að taka ódýr japönsk lán. Fyrirtækin fara til Japans eða Ameríku, hvert sem þau fýsir, þangað sem markaðurinn býður bestu lánin. Bankakerfið er orðið að litlu þorpi.

Hæstv. ráðherra talar um dreifða eignaraðild. Eigi að síður, eins og ég hef rakið, talar hann um nauðsyn þess að hlutdeild hvers aðila í frumsölunni verði ekki stærri en 5--10%. Hvað má lesa úr því? Mér virðist hann segja, herra forseti, að þegar ráðist verði í að hrinda í framkvæmd þeim lögum sem kunna að verða til á grundvelli þessa frv. þá verði hinum svokölluðu kjölfestufjárfestum, sem hæstv. ráðherra er svo annt um, gert kleift að kaupa 5--10%. Ég er á móti því, herra forseti. Ég tel að hafa eigi hlutina miklu smærri og leyfa eigi mönnum að kaupa smáa hluti og þess vegna hagnast á þeim á eftirmarkaði. Ég sé bara ekkert athugavert við það.

En ég kem hér aðallega, herra forseti, til þess að inna ráðherra eftir því hvers vegna hann vilji, eins og kemur fram á bls. 4 í grg., endilega selja hluti í þessum banka erlendis. Ég hef áður lýst því að ég er ekki á móti erlendum bönkum en hvað felst í þessu? Ég spyr að gefnu tilefni, herra forseti. Í plaggi frá viðskrn. fyrr í sumar var talað um að fá ætti kjölfestufjárfesta í Fjárfestingarbankann en þeir ættu að vera erlendir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Munu einungis erlendir fjárfestar, erlendir bankar eða erlendir sjóðir eiga kost á að bjóða í þennan banka og væntanlega hasla sér völl með 5--10% hlut eða munu íslenskir bankar, íslenskar fjármálastofnanir, standa erlendu bönkunum jafnfætis?

Þegar ég segi að ég spyrji að gefnu tilefni þá er það út af eftirfarandi: Ef svar hæstv. ráðherra er já, þá hefur hann breytt um stefnu frá því í sumar. Ég tel ekkert að því. Það sem ég las út úr þeim textum sem þá komu frá hæstv. ráðherra, eftir ríkisstjórnarfund og var dreift á blaðamannafundi, var að hann útilokaði íslenskar bankastofnanir frá því að njóta jafnræðis gagnvart erlendum bankastofnunum. Stefnan útilokaði þær frá því að taka að sér hlutverk kjölfestufjárfesta.

[19:00]

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann breytt um stefnu? Er skilningur minn á þessu rangur þegar ég þykist lesa úr þessu að erlendir fjárfestar muni fá tækifæri til þess að bjóða í tiltekna hluti af stærðargráðu sem innlendir fjárfestar, innlendir bankar, munu ekki fá?

Í öðru lagi: Ef hæstv. ráðherra er enn sömu skoðunar og hann var í fyrri ræðu sinni, að það væri æskilegt að stefna að dreifðri eignaraðild, af hverju erum við þá að fara þá leið að selja 5--10%? Af hverju förum við ekki þá leið sem við höfum þegar farið, að selja 500 þús. kr. hlut eða 1 milljón kr. hlut og leyfa sem sagt manninum á götunni, leyfa íslenskum almenningi, sem greinilega virðist vera þyrstur í hlutabréf og virðist eiga sparifé sem hann vill festa í þessu --- og það væri gott fyrir þann ríkissjóð sem hæstv. ráðherra starfar við að gera sem bestan --- að festa fé sitt í þessu á þennan hátt?

Ég er alveg klár á því, herra forseti, að það mundi leiða til þess að sennilega yrðu átök um hluti þessara smáu fjárfesta. En ég tel að það sé af hinu góða. Það mun örva hlutabréfamarkaðinn. Það mun leiða til þess að margir sem fjárfesta munu hagnast á því. Ég tel það bara hið besta mál. Ég tel að það yrði vítamínssprauta fyrir markaðinn.

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari þessum örfáu spurningum mínum sem ég hef beint til hans hér um mál sem mér finnst varða kjarnann í þeirri aðferð sem menn ætla að beita við söluna, en segi þó að ég er að öðru leyti efnislega samþykkur því markmið sem kemur fram í 1. gr. þessara laga. Ég er þeirrar skoðunar að þessi banki eigi ekki að vera í eigu ríkisins og ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að hann hafi ekki mikið hlutverk, en ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra er annarrar skoðunar.