Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:02:09 (1142)

1998-11-16 19:02:09# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem kom mér á óvart við þessa ræðu var hversu efnislega vel hún var sett fram og skynsamlega mælt. Það var allt annað að hlusta á fyrrverandi ritstjóra, sem hefur reyndar hrökklast úr því starfi nú, ekki til þess að gera mér lífið leitt síður en svo, vegna þess að þar talaði maður, sem ég hélt reyndar áður að hefði lítið vit á bankamálum og margt af því sem hv. þm. kom hér fram með var mjög skynsamlegt.

Þegar ég hlustaði á það hv. þm. varð ég enn meira hissa á því af hverju Alþfl. stillir sínum mönnum upp á þennan hátt í nefndir þingsins, þ.e. að þingflokkurinn skuli ekki setja þá menn í nefndir þingsins, t.d. í efh.- og viðskn., sem hafa vit á þeim hlutum sem þeir fjalla um. Það er önnur saga og ég ætla ekki sérstaklega að ráðskast með hvernig Alþfl. stillir upp í nefndir.

Svarið við þessum spurningum er að ef hv. þm. les frv. þá kemst hann að því þar er að talað um að skrá Fjárfestingarbankann í erlendri verðbréfamiðstöð. Og ég veit að hv. þm. veit það að þá geta bæði erlendir og innlendir aðilar verslað þar. Með þessu er einfaldlega verið að dýpka möguleikana á því að fá fjárfesta að bankanum.

Ég sagði áðan að þessir hlutir, þrjár millj. kr., voru stórir hlutir. Af hverju völdum við þá leið? Einfaldlega vegna þess að við héldum í upphafi að áhuginn væri ekki eins mikill fyrir Fjárfestingarbankanum og Landsbankanum og Búnaðarbankanum af því hann er ekki með þennan stóra viðskiptamannahóp að baki sér. Nú kemur það hins vegar í ljós að 10.700 manns sýna þessum banka athygli. Og svo kemur hv. þm. Ágúst Einarsson og segir að það sé bara enginn áhugi og þetta séu bara einhverjir sárafáir og litlir kallar sem eru að kaupa og nota sér kennitölurnar. Hann er með alls konar fullyrðingar út í loftið um það sem hann hefur ekkert vit á.

Hinn stóri kostur við ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan var að hann var ekki með fullyrðingar um hluti sem alls ekki standast heldur fór hann efnislega yfir þá hluti sem að mörgu leyti falla mjög vel að mínum skoðunum.

En svarið er klárt. Þessi leið var valin vegna þess að við töldum að ekki væri eins mikill áhugi fyrir Fjárfestingarbankanum og viðskiptabönkunum.