Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:04:56 (1143)

1998-11-16 19:04:56# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst tvennt mikilvægt hafa komið fram í svari hæstv. ráðherra. Hann segir að ástæðan fyrir því að þessir hlutir voru svo stórir sem raun ber vitni hafi stafað af því að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hafi talið að nægilegur áhugi væri ekki fyrir hendi.

Ég er sammála honum í því. Ég hefði fyrir fram líka verið sömu skoðunar. Það kom mér á óvart hversu mikill áhugi var á þessu. Raunar tek ég það fram að ef ég væri sá pælari í þessum hlutum sem hæstv. ráðherra er svo vinsamlegur að telja mig vera --- en ég er ekki --- þá hefði ég að öllum líkindum komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri arðvænlegt. Hvers vegna? Ég vísa t.d. í það rit sem er höfuðrit í viðskiptaheiminum á Íslandi, Viðskiptablaðið. Þar kom fram að þetta væri mjög arðvænleg fjárfesting. Og þeir sem velta slíku fyrir sér taka væntanlega mið af því. Ég las það t.d. og sannfærðist um að þetta væri rétt staðhæfing hjá Viðskiptablaðinu.

Herra forseti. Nú blasir það við að hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að sóknin í bankana er mikil, það er mikil eftirspurn. Getur hann þá ekki fallist á að í meðferð þingsins verði a.m.k. opnuð heimild fyrir ríkisstjórnina að selja þetta þannig að það verði smáir hlutir? Ég tala hérna, herra forseti, fyrir hönd hinna smáu fjárfestu sem sjá í þessu ákveðna hagnaðarvon. Mér finnst að menn eigi að fá að græða á verslun með þennan banka. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er ríkisbanki. Þetta er eign fólksins og allir hafa jafna möguleika til að taka þátt í þessu, sér í lagi ef hæstv. ráðherra mundi beita sér fyrir svipuðu fyrirkomulagi og gert var með Landsbankann þar sem mönnum var gert auðvelt að kaupa þetta.

Í annan stað. Ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að það muni auka samkeppnina að skrá bankann á verðbréfaþingum erlendis vegna þess að þá kæmu erlendir fjárfestar væntanlega til keppninnar, þá felur það í sér að hann er að segja að innlendir muni hafa jafna möguleika og erlendir. Nú hef ég ekkert á móti því að útlendingar komi í þetta. En ég spyr hæstv. ráðherra: Þarf nokkuð að skrá bankann erlendis? Nægir ekki að skrá hann hér, eins og hann er þegar skráður? Geta ekki erlendir fjárfestar allt eins komið hingað og keppt við aðra hér? Hvaða hagur er að því fyrir ríkissjóð eða bankann að hann verði skráður erlendis? Mögulega kann það að liggja í því að við fáum hærra verð. En er eitthvað sem bendir til þess?