Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:22:33 (1148)

1998-11-16 19:22:33# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur skýrt fram í útboðslýsingunni á 49% hlut í Fjárfestingarbankanum að í ljósi reynslunnar af sölunni á þessum 49% verði síðan metið hvernig menn standi að næsta áfanga sem er 51% sem verður leitað eftir heimild frá Alþingi til að selja. Við þetta verður staðið.

Auðvitað er alltaf spurning hvaða markmið menn setja sér í þessari sölu. Ég hef sett það sem markmið númer eitt að gera sem mest verðmæti úr þessum eignum þjóðarinnar. Þjóðin getur notið þessara eigna með mismunandi hætti. Annars vegar með því að fá sem mesta fjármuni inn í ríkissjóð og hins vegar, eins og hv. þm. var að lýsa áðan, að geta keypt í þessu og haft ábata af því að selja á hærra verði þannig að um þessar tvær leiðir er að ræða. Þetta er hugsanlega líka hægt að samræma. Með því að selja kannski stóran hlut í dreifðri sölu en líka með því að láta þá sem ætla sér þegar fram líða stundir að reyna að ná tökum á bankanum með ráðandi hlut þurfa að kaupa einhvern hluta á mjög háu verði. Það er hægt að fara margar leiðir í þessu.

Svo er aftur önnur saga, hvað er ráðandi hlutur? Ráðandi hlutur getur verið 5%, hann getur verið lægri ef dreifingin er svakalega mikil. Það er eins og í Íslandsbanka, það er enginn hluthafi stærri þar en með 8% en þar eru ákveðnir hluthafar sem hafa samstarf um það hvernig bankanum er stýrt. Það er sýnilegt.

Hins vegar eigum við ekki að gefa okkur það fyrir fram að menn ætli sér að reyna að ná ráðandi hlut í bankanum. Ég vil ekki horfa á það þrátt fyrir þann orðróm sem hér er á kreiki um söfnun á kennitölum sem er ekkert hægt að fullyrða um. Við skulum sjá hvað út úr því kemur og meta síðan framhaldið um aðferðina.