Fjárfestingarbanki atvinnulífsins

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 19:29:18 (1151)

1998-11-16 19:29:18# 123. lþ. 24.32 fundur 229. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[19:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra misskilur örlítið stefnu jafnaðarmanna. Hún felst í því að menn njóti jafnræðis og ef menn fara þá leið að selja sem flesta og smæsta hluti á hinn stóri fjöldi meiri möguleika á að eignast hlut í bankanum. Með öðrum orðum eiga menn að hafa jafnræði til þess að fjárfesta.

Ég er í þessari umræðu talsmaður hinna smáu fjárfesta. Ég nefndi í einni af fyrri ræðum mínum að það hefði einmitt verið til fyrirmyndar hjá Landsbankanum og reyndar öðrum bankastofnunum þegar hlutir voru boðnir út í honum að þeir tóku sig til og buðu hagstæð lán. Það gerir það að verkum að enn stærri hópur á möguleika á að taka þátt í þessu og hagnast. Ég er hins vegar alveg sammála hæstv. ráðherra að því leyti til að það þýðir ekki að allir geti tekið þátt í þessu. Þar kemur hann auðvitað að þeim stóra galla á heiminum almennt að því miður náum við aldrei að jafna aðstöðumun fyllilega. En með þessu mundum við fara eins nálægt því og kostur væri.

Herra forseti. Það hefur a.m.k. komið fram að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að æskilegt sé að reyna að stefna að sem dreifðastri eignaraðild og þá vænti ég þess að þegar hann tekur sig til og menn fara að bjóða út Fjárfestingarbankann, þau 51% sem á að gera samkvæmt því frv. sem við erum að ræða hérna, þá munu menn hverfa frá þeirri stefnu sem er í greinargerðinni og selja sem flesta og smæsta hluti. Ef það kemur á daginn að ekki er hægt að selja öll bréfin í bankanum, er hægt að setja þau í útboðsflokk sem stærri fjárfestar munu síðan kaupa.