Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:11:24 (1153)

1998-11-17 13:11:24# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. málshefjandi er kunnur að því að hafa hér uppi málefnalegar umræður. Þess vegna kemur það nokkuð á óvart þegar hann að þessu sinni kveður upp býsna mikla dóma um lögbrot dómsmrh. án þess að hafa kynnt sér málin nægjanlega glögglega að því er virðist eða þá með því að snúa út úr gögnum sem verið er að vinna eftir.

Kjarni þessa máls er sá eins og hv. þm. benti á að gerðar voru umfangsmiklar breytingar á lögreglunni í landinu og stór verkefni færð til lögreglunnar í Reykjavík, þar á meðal rannsókn mála og það lá í sjálfu sér alltaf ljóst fyrir að eftir því sem reynslan kæmi fram gæti það kallað á endurskoðun á innra skipulagi í lögreglustjórninni í Reykjavík.

Það gerðist síðan eftir utandagskrárumræður á hinu háa Alþingi í ferúarmánuði sl. að lögreglustjórinn í Reykjavík óskaði eftir sérstakri stjórnsýsluúttekt og bað dómsmrn. um að gangast fyrir henni. Það var gert á tvennan hátt. Annars vegar var Ríkisendurskoðun beðin um að vinna ákveðin verk í því efni og hins vegar var óháð ráðgjafarfyrirtæki sem hefur mikla reynslu á þessu sviði fengið til að gera tillögur sem eru alkunn og vönduð vinnubrögð.

Í sjálfu sér var verið að takast á við þau atriði sem fram höfðu komið í umræðum á Alþingi. Verið var að takast á við viðfangsefni sem lúta að markvissri fjármálastjórn þessa stóra embættis sem fer með mikla fjármuni og mikilvægt að tryggja að öll ákvarðanataka sé eftir skipulegum leiðum í þeim efnum.

Það má segja að það hafi komið fram í skýrslu VSÓ eftir ítarlega úttekt sem fyrst og fremst byggist á viðræðum við þá sem starfa innan embættisins að helstu veikleikar þess séu að mikill fjöldi starfsheita séu án ábyrgðar eða lítillar ábyrgðar og millistjórnendur séu óvirkir, boðleiðir óskýrar, æðstu embættismenn eyddu miklum tíma í að fjalla um smæstu málefni, verkaskipting ákærenda og lögfræðinga við rannsóknir mála væri óljós, staða og hlutverk varalögreglustjóra væri óljós og þörf væri á lögfræðilegum stuðningi við löggæslusvið auk fleiri atriða.

Tillögur VSÓ miða að úrbótum á þessum sviðum, að koma upp markvissu skipulagi þar sem ábyrgð er dreift, færa ábyrgð og auka verksvið millistjórnenda, færa þeim meiri verkefni og meiri ábyrgð og gera stjórnskipulagið allt markvissara, og koma í veg fyrir að misskilningur komi upp eins og oft vill verða ef skipulag er ekki skýrt. Það á eins við um þessa stofnun eins og flestar aðrar að með ákveðnu millibili er nauðsynlegt að fara í gegnum starfsskipulag og stjórnunaraðferðir.

Þessar tillögur voru lagðar fram í síðasta mánuði og sérstökum starfshópi var falið að vinna að framgangi þeirra því mér sýndist að í meginatriðum mættu þær þeim óskum sem ráðuneytið hefur viljað ná fram og þeim óskum sem lögreglustjórinn óskaði eftir þegar hann fór fram á að slík stjórnsýsluúttekt yrði gerð.

[13:15]

Gert er ráð fyrir því að nýtt skipurit geti tekið gildi um áramót og verði staðfest um miðjan desember. Enn hefur engin lokaákvörðun verið tekin vegna þess að þetta er enn í vinnuferli. Ég geri ráð fyrir að í þessu vinnuferli eigi eftir að koma upp ýmis atriði sem síðan verði skoðuð og reynt að taka afstöðu til. Auðvitað hlýtur umfjöllun um mál af þessu tagi að skýra og koma fram með ný atriði sem ég vona að geti stuðlað að því að gera þetta skipulag betra og heilsteyptara.

Því fer víðs fjarri, herra forseti, að hér hafi nokkuð verið gert sem víki gegn lögum. Hér er verið að byggja upp heilsteypt kerfi í fullri sátt við yfirstjórn lögreglunnar og ég er sannfærður um að það muni leiða til markvissari og betri stjórnunar þegar búið er að fara yfir þær athugasemdir og taka endanlegar ákvarðanir.