Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:17:06 (1154)

1998-11-17 13:17:06# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Mikið gjörningaveður hefur dunið yfir störf lögreglustjórans í Reykjavík, persónu hans, embætti hans og embættisfærslur. Vissulega er ýmislegt sem betur mætti fara en aðferðirnar við að rýra mannorð lögreglustjórans eru með ólíkindum.

Lögreglustjórinn í Reykjavík fór í hálfs árs veikindaleyfi og kom á ný til starfa í gær þar sem fjölmargir starfsfélagar hans tóku hlýlega á móti honum. En hvað gerðist á meðan lögreglustjórinn var í leyfi? Þá fór allt í einu að streyma fjármagn til embættisins. Gert er ráð fyrir 115,5 millj. á fjáraukalögum 1998 og 80,5 millj. kr. aukningu á fjárlögum ársins 1999.

Fjármagn er afl þess sem gera þarf. Skyndilega varð löggæslan sýnileg, hinum almenna borgara bárust upplýsingar um starf lögreglunnar og peningar voru til að efla löggæslu. Allt er þetta til góðs.

Hvað gerðist hins vegar skömmu áður en lögreglustjórinn í Reykjavík kom til starfa? Þá kynnti hæstv. dómsmrh. nýtt skipurit um lögreglustjóraembættið í Reykjavík þar sem lögreglustjórinn er rúinn völdum. Skipuritið er vægast sagt á gráu svæði samkvæmt lögunum og um það eru fjölmörg dæmi. Virkni milli varalögreglustjóra og lögreglustjóra hefur víxlast og ekkert samráð er haft við lögreglustjórann sjálfan.

Ég spurði aðstoðarmann hæstv. dómsmrh., sem er í raun arkitekt þessara breytinga í umboði dómsmrh., hvort haft hefði verið samband við Landssamband lögreglumanna. Hann svaraði stutt og laggott: Þeim kemur þetta ekki við. --- Það er ekki von á góðu.