Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:21:54 (1156)

1998-11-17 13:21:54# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ógeðfellt að fylgjast með því úr fjarlægð hvernig reynt er að grafa undan lögreglustjóranum í Reykjavík. Nú hefur það verið upplýst hér af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, einum af liði stjórnarinnar, að það er gert innan úr dómsmrn. Það er líka ógeðfellt að heyra stjórnarliða upplýsa að aðstoðarmaður hæstv. dómsmrh. segi blákalt við lögreglusambandið: Ykkur kemur málið ekkert við.

Hér finnst mér, herra forseti, aðalatriði málsins liggja í einu: Lög skulu gilda. Hæstv. forsrh. gaf hæstv. dómsmrh. skýr skilaboð um það þegar þessi umræða kom hér upp fyrir skömmu að lögin tækju að sjálfsögðu fram fyrir reglur og einhvers konar stjórnskipun sem hæstv. dómsmrh. fær utan úr bæ um það hvernig eigi að byggja upp lögregluembættið.

Í 6. gr. lögreglulaga, segir með leyfi forseta: ,,Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi.``

Hér er verið að fara á svig við lögin. Það blasir við. Reynt er að beita þessu skipuriti sem kemur utan úr bæ til þess að setja lögreglustjórann á hliðarspor. Lögin eru ekkert grín, þau eru alvörumál og menn verða að taka landslög alvarlega. Ef það orkar tvímælis að lög séu til að fylgja þeim eftir þá er komin upp mjög alvarleg staða. Við höfum heilt ráðuneyti innan stjórnkerfisins til þess að sjá til þess að lögunum sé framfylgt.

Þess vegna er undarlegt að verða vitni að því að þetta ráðuneyti fari sjálft á svig við lögin. Ég spyr, herra forseti: Hvers konar fordæmi er hæstv. dómsmrh. að gefa þegnum þessa lands? Hvers konar fordæmi er hann að veita lögreglumönnum þessa lands? Og ég spyr, herra forseti: Ætlar ekki hæstv. dómsmrh., í ljósi þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir, að láta af ofsóknum sínum á hendur lögreglustjóranum og framfylgja lögunum, sjá til þess að hann verði yfirmaður lögregluliðsins í sínu umdæmi?