Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:33:47 (1161)

1998-11-17 13:33:47# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er tvennt sem menn þurfa að hafa í huga. Í fyrsta lagi hefur enginn hv. þingmanna fært ein einustu rök fyrir því að verið sé að gera þær breytingar á skipulagi lögreglunnar í Reykjavík sem brjóti í bága við lög, enda gengur það að sjálfsögðu aldrei upp. Allt skipulag verður að vera í samræmi við lög og verður auðvitað aldrei á annan veg. Engin rök hafa verð færð fyrir því að verið sé að gera annað.

Í öðru lagi (ÖJ: Lögin eru sjálf ...) (Forseti hringir.) liggur það í augum uppi lögum samkvæmt og í samræmi við þetta skipulag að lögreglustjórinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður lögreglunnar í Reykjavík, ber þar fulla ábyrgð sem slíkur og ekki hefur minnsta tilraun verið gerð til þess að draga úr því valdi og þeirri ábyrgð. Fyrir því eru engin rök, enda gátu menn hvergi lesið neinn texta í því sem hér liggur fyrir í þá veru. Hins vegar er verið að dreifa ákvarðanatöku í daglegri stjórn í þessari stóru stofnun eins og öllum öðrum stofnunum þar sem þarf að koma við markvissri stjórn. Þar þarf að dreifa daglegri ákvarðanatöku og ætti ekki að vera nýtt fyrir hv. þingmönnum. Það hafa engar hugmyndir verið pantaðar úr ráðuneytinu í þessari vinnu. Það eru fullyrðingar sem eru algerlega sagðar út í loftið og án nokkurs rökstuðnings.

Þær tillögur sem hér liggja fyrir frá VSÓ eru í meginatriðum samhljóða þeim tillögum sem komu frá Ríkisendurskoðun, en þær eru fyllri (ÖJ: Þetta er rangt.) og það var nauðsynlegt að vinna þær frekar. En í meginatriðum eru þær samhljóða. (ÖJ: Ósatt.) Það er líka mikilvægt að það liggi alveg ljóst fyrir og ætti ekki að þurfa að segja mönnum sem segjast hafa lesið þessi gögn, að ég hygg að í fá skipti þar sem þannig hefur verið unnið hafi jafnmikill tími verið gefinn til þess að kynna tillögurnar, kalla eftir athugasemdum og til að meta þær því að það stendur ekki til að taka lokaákvarðanir (Forseti hringir.) fyrr en um miðjan næsta mánuð. (ÖJ: Það er byrjað að framkvæma.) Það eru hátt í tveir mánuðir gefnir til þess að kalla eftir athugasemdum (Forseti hringir.) þannig að allar röksemdir um hið gagnstæða eru rangar. (ÖJ: Það er byrjað að framkvæma þetta.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð og næði til þess að tala.)