Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 14:54:02 (1169)

1998-11-17 14:54:02# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt fyrst að hv. þm. væri að rugla okkur saman, mér og hæstv. forsrh. en komst nú að því að svo var ekki. Það sem ég nefndi í ræðu minni er auðvitað hluti af þeim lífsgæðum sem fólk býr við. Ég tók einnig fram, held ég, að þær aðgerðir sem ég nefndi dygðu hvergi nærri til einar og sér. Það er hárrétt sem hv. þm. vitnaði til og hæstv. forsrh. nefndi í ræðu sinni að það eru hin fjölbreyttu lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu sem skipta þarna máli. Það hefur komið fram að fólk sækir í þetta. Það liggur fyrir. En þau atriði sem ég nefndi eru líka hluti af lífsgæðunum og búsetuskilyrðunum úti um landið. Ég nefndi nokkur dæmi um mál sem ég tel að hægt sé að taka upp í fjárlagafrv., bæta þar heldur við útgjöld ríkissjóðs að vísu, hrinda þeim í framkvæmd strax á næsta ári því komið hefur fram í þeim rannsóknum sem við vitnum til að þessi atriði skipta verulega máli í búsetuskilyrðum fólks úti á landsbyggðinni.