Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 14:56:51 (1171)

1998-11-17 14:56:51# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[14:56]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara endurtaka að það eru auðvitað, svo ég vitni enn einu sinni til rannsókna Byggðastofnunar, fjölmörg atriði sem skipta máli þegar við erum að tala um búsetuþróun í landinu. Ég endurtek það líka að þau atriði sem ég nefndi í ræðu minni eru dæmi um það sem stjórnvöld geta gert sem lið í því að beita sér gegn þessari þróun, en ég hef aldrei haldið því fram og mun ekki halda því fram að þær dugi einar og sér. Það er nú bara svo einfalt.

Hv. þm. nefndi Akureyri og það sem þar hefur gerst og nefndi að þar hafi dregið úr fólksfækkuninni. Er það þá ekki dæmi um að mönnum hafi þó eitthvað orðið ágengt, ef það dró þó úr fólksfækkuninni? Það hlýtur að vera fyrsta skrefið og sýnir að þar hafi menn hugsanlega náð einhverjum árangri í aðgerðum --- en þær duga ekki til, því miður. (Gripið fram í: Ekki sértækum.) Ekki sértækum. En þetta er svo fjölþætt mál og ég veit það kemur fram í ræðum hv. þm. sem hér eiga eftir að tala. En ég vil enda á að segja að ég nefndi nokkur atriði sem ég tel að skipti máli þó svo að þau dugi ekki ein og sér til að stöðva þessa þróun. Það er af og frá þannig að ég vona að það sé ljóst í huga hv. þm.