Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:18:28 (1175)

1998-11-17 15:18:28# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þessa umræðu að umræðu um dýrafræði eins og hv. þm. virðist hafa mestan áhuga á. Ég er einungis þeirrar skoðunar að allar þær aðgerðir sem hv. þm. nefndi heyri sögunni til. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að verja fjármagni fyrst og fremst í aðgerðir eins og þessa. Ég held að ef menn taka ákvörðun um það að verja fjármagni til þess að stemma stigu við þessum fólksflótta þá eigi menn að reyna að fara aðrar leiðir. Í staðinn fyrir það t.d. að eyða miklu fjármagni í þessa hluti sem hv. þm. taldi vera marktæka þá eiga menn miklu frekar að fara þá leið að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að nota fjármagnið til þess að aðstoða menn við að hrinda í framkvæmd góðum hugmyndum á sviði einhverra sólrisugreina, t.d. hátækniiðnaðar, vegna þess að ég held að framtíðin muni leiða í ljós að það verði miklu farsælla og auðveldara að stofna til slíkra atvinnutækifæra á landsbyggðinni heldur en hefðbundinna fyrirtækja. Ég held að það sem e.t.v. vanti inn í þetta sé svolitil sýn inn í framtíðina, þ.e. hvernig við getum nýtt okkur nýja tækni til þess að reisa skorður við þessari búseturöskun.

Ég tel að það sé alveg út í hött að koma hingað eins og hv. þm. og telja upp öll þessi sömu ráð sem við höfum verið að beita áratugum saman og sem hv. þm. getur lesið í þessari skýrslu að hafa ekki skipt máli. Ég tel að sú hugsun sem birtist í greinargerð með tillögunni a.m.k. vísi í rétta átt. En ég tel að málflutningur hv. þm. vísi aftur til fortíðar og að þau ráð sem hv. þm. er að leggja hér fram séu afskaplega lítils virði. Þau hafa a.m.k. minna vægi en sá vottur af nýrri hugsun sem kemur fram í þessari tillögu.