Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:24:35 (1178)

1998-11-17 15:24:35# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það væri líka gaman að velta því fyrir sér hvar landsbyggðin væri í dag ef ekki hefði verið áttundi áratugurinn. Hafa menn t.d. kíkt á aldurssamsetningu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni, einbýlishúsa? Vita menn hvenær var byggt á landsbyggðinni, hringinn í kringum landið við sjávarsíðuna? Menn búa núna í húsunum sem voru byggð á áttunda áratugnum. Ef hann hefði ekki komið til sögunnar þá held ég að ástandið væri ekki glæsilegt.

Það er að sönnu rétt að gerð voru mistök og það var ekki allt saman skynsamlegt sem þarna var gert eða allt góð ráðstöfun fjármuna. Mér sýnist nú það ekki heldur vera hér eða annars staðar á byggðu bóli. Ætli það sé ekki offjárfesting víðar en í skólum á landsbyggðinni, þó að vissulega megi benda á t.d. að menn vanmátu eða ofmátu fólksfjölgun og byggðu of stóra skóla og sitja núna uppi með þá illa nýtta. En sambærileg skipulagsleg mistök þekkjum við úti um allan heim á byggðu bóli, bæði í strjálbýli og þéttbýli.

Það er líka rétt að byggðastefnan fékk á sig mikið óorð, að hluta til með réttu vegna þess að mönnum voru mislagðar hendur í þeim efnum. En ég held líka að hún hafi á köflum verið skipulega rægð af mönnum sem gerðu út á það að velta sér upp úr því og fengu mikið út úr því að hamast á því þó að þarna væru gerð mistök í bland við margt annað sem var mjög vel gert. Ætli það sé nú ekki reyndin að þjóðin hefur æ síðan notið góðs af því sem gerðist á áttunda áratugnum í meiri hagsæld, þ.e. útfærslu landhelginnar, uppbyggingu sjávarútvegsins, bættu samgöngukerfi og öðru.

Ég er sammála því að í þessari skýrslu eru að mörgu leyti góð markmið. Ég er líka sammála því að ef þeim verður fylgt eftir með aðgerðum þá mun það hjálpa til við að skapa trú á framtíðina á landsbyggðinni. Það sem ég var fyrst og fremst að lýsa eftir við hæstv. forsrh., herra forseti, voru efndirnar, aðgerðirnar sem þurfa að koma í kjölfarið. Menn verða svo leiðir á þessum fallegu skýrslum og göfugu markmiðum, ef síðan gerist ekki neitt.