Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:26:45 (1179)

1998-11-17 15:26:45# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni fyrr má auðvitað nefna margvísleg dæmi um viðleitni í þá átt að styrkja byggð úti um landið. Sumt hefur ekki endilega fengið mikinn hljómgrunn í þinginu eða meðal almennings. Og jafnframt þar sem ríkisvaldið hefur komið því við hefur það reynt að gæta sín á því að hafa byggðasjónarmið í öndvegi. Ég tek dæmi af því sem hv. þm. nefndi og snýr að heilsugæslu og heilsugæsluþjónustu. Þegar ríkisvaldið, fjmrn. og heibrrh., höfðu atbeina að kjarasamningum við heilsugæslulækna þá var það ríkt og ofarlega í þeirra huga að stuðla að því að launabreytingarnar mundu leysast þannig að heilsugæslulæknar á landsbyggðinni færu best út úr því. Ég sá nýverið í yfirlýsingu landlæknis, ég hygg fyrir þremur vikum, að hann lýsti því yfir að nú væru mál svo komin að staða heilsugæslulækna á landsbyggðinni hefði batnað svo mjög vegna þessa nýja átaks í kjaramálum að laun þeirra væru orðin svipuð og menn væru að bjóða í olíuríkinu Noregi. Hann ætlaði einmitt að fara að vekja athygli, ég hygg, einna 90 íslenskra lækna sem þar starfa á þessari breyttu stöðu heilsugæslulækna úti um land. Þarna voru menn sem sagt að leita leiða í þessu sambandi og fjmrn. og heilbrrn. sérstaklega beittu sér fyrir því að í þessa átt yrði farið.