Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:28:14 (1180)

1998-11-17 15:28:14# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að talsverðar kjarabætur urðu í þessum samningum. Ég hefði að vísu kosið að sjá þær festar við staðina sem uppbætur eða bundnar við þá. Ég held að það hefði verið vænlegri leið heldur en að setja þetta inn í launasamningana eða taxtana sjálfa, m.a. vegna þess að að sjálfsögðu komu síðan aðrir og vildu fá það sama. Svo minni ég á að þegar farið er út í samanburð á launum manna þá mega menn ekki gleyma því að staða þessa fólks er sú að það er á vakt 24 tíma á sólarhring, oft vikum saman. (Gripið fram í.) Hvað er eini svæfingarlæknirinn á Austurlandi lengi á vakt mánuðum saman, einn í landsfjórðungnum sem getur aðstoðað við svæfingar þegar bráðar aðgerðir ber að o.s.frv.? Allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, allan mánuðinn, allt árið, nema ef tekst að fá manneskju í afleysingar á sumrin. Þannig er það. Og svo eru menn hissa á því að þetta fólk hafi einhver laun.

Herra forseti. Ég held að það skipti miklu máli að umræður um þessi mál gangi ekki fram hjá þeirri augljósu staðreynd að þrátt fyrir allt hefur fólkið á landsbyggðinni trú á landsbyggðinni fyrst og fremst. Annars væri það ekki þar. Ef fólkið í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu eða við stjórnmálamennirnir hér hefðum meiri trú á landsbyggðinni þá værum við þar en ekki hér. Og við skulum endilega ræða þetta undir þeim formerkjum. Spurningin snýst um það hvað hægt sé að gera til þess að hjálpa því fólki á þeim forsendum sem það vill til að heyja þessa baráttu, og jafna þessa aðstöðu þannig að menn geti yfir höfuð réttlætt það að þrauka þarna áfram, svo ég tali nú ekki um að taka ákvarðanir um að binda þar fjárfestingar lífs síns, eins og í íbúðarhúsnæði og öðru slíku. Ég held, herra forseti, að því miður dugi kurteisislegt hjal og jákvæðar yfirlýsingar í skýrslum ósköp skammt ef menn sjá ekki beinharðar aðgerðir og það strax. Við þolum ekki mörg ár í viðbót af því tagi sem nú stefnir í, mesta byggðaröskunarár sögunnar, og það hlýtur að hrikta eitthvað í á einstöku bæjum á þessum kosningavetri ef menn ætla að láta það bara líða fram hjá sér án þess a.m.k. að sýna einhverja viðleitni, herra forseti.