Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:02:31 (1183)

1998-11-17 16:02:31# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Undanfarna þriðjudaga hef ég setið í félmn. Alþingis þar sem við við höfum farið yfir ýmsa þætti sem lúta að fjárlagagerð fyrir næsta ár. Á okkar fund hafa komið fulltrúar frá svæðisráði um málefni fatlaðra, bæði á Reykjanesi og í Reykjavík og greint okkur frá því að í þeirra umdæmi vanti verulegt fjármagn til þess að hægt sé að byggja upp fullnægjandi þjónustu fyrir fatlaða. Á þessum fundum hef ég innt fulltrúa þessara samtaka eftir því hvort þeir sjái þess merki að hluti af vanda fatlaðra á þeirra svæði megi rekja til hinnar alvarlegu búsetuþróunar sem við höfum horft upp á á síðustu árum. Niðurstaða þeirra er tvímælalaust sú að ein ástæðan fyrir vandanum sé einmitt búseturöskun undanfarandi ára. Þannig sjáum við í raun og veru hinn þjóðfélagslega herkostnað sem við stöndum nú frammi fyrir vegna búseturöskunarinnar á mörgum undanförnum árum. Þetta sýnir okkur ásamt öðru mikilvægi þess að Alþingi Íslendinga marki ákveðna stefnu í byggðamálum og snúi við hinni alvarlegu búsetuþróun. Þetta atriði áréttar það sjónarmið margra okkar að það sé ekki einkamál þeirra sem á landsbyggðinni búa hvernig búsetuþróunin verður, heldur sé það ekki síður spurning um hvernig við ætlum að efla lífskjarasóknina í landinu, að ein leið til þess sé að treysta forsendur byggðastefnunnar í landinu.

Það er sérkennilegt til þess að hugsa þegar maður veltir fyrir sér hversu lítið við höfum vitað um ástæður búseturöskunar fram á þennan dag. Auðvitað höfum við hvert með sínum hætti reynt að komast að einhverri niðurstöðu um þetta og mörg okkar farið kannski býsna nærri. Ýmislegt af þessu eru auðvitað sjálfgefnir hlutir og augljósir en engu að síður hefur ekki verið um heildstæða rannsókn á ástæðum búferlaflutninga að ræða að neinu marki á undanförnum mörgum áratugum. Það er undarlegt í ljósi þess að líklega erum við hér að fjalla um eitt alvarlegasta þjóðfélagsvandamál sem við er að glíma á Íslandi nútímans. Það eru óskaplegar fréttir þegar við blasir að nettófólksstreymið af landsbyggðinni geti numið kannsi 2--3 þúsund manns á þessu ári. Þetta eru auðvitað óskapleg tíðindi sem við stöndum frammi fyrir. Þau valda miklum erfiðleikum úti á landsbyggðinni og eru líka farin að koma hart niður á byggðarlögunum við Faxaflóa sem þurft hafa að taka á móti þessari fólksfjölgun.

Í hverju er vandi okkar falinn? Hvað er það sem við erum að fást við? Hver er ástæða búseturöskunarinnar? Í fyrsta lagi er rétt að nefna að þetta mál er nú orðið mun flóknara en fyrir nokkrum árum. Við gátum með tiltölulega einföldum aðgerðum snúið þessu við, uppbygging og þróttur í höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar á landsbyggðinni, landbúnaði og sjávarútvegi, nægði á sínum tíma til þess að snúa þessu fólksstreymi við. Nú liggur fyrir að það reynist ekki nóg. Forsenda þess að við getum ráðist að þessum vanda er auðvitað að höfuðatvinnugreinar okkar á landsbyggðinni séu öflugar en það nægir ekki.

Þeir sem hyggja nú á búferlaflutninga nefna þó sérstaklega atvinnumálin, bæði tekjumöguleika, skort á fjölbreytni atvinnulífsins og fleira af því taginu. Í öðru lagi eru nefnd menntamál. Ég hygg að það hafi komið ýmsum á óvart hversu hátt á skalanum það atriði var þegar fólk var innt eftir ástæðum þess að það hygði á búferlaflutninga. Þegar betur er að gáð þá er auðvitað augljóst að menntun er eitt af því sem nútímaþjóðfélag krefst og þess vegna er mjög eðlilegt að fólk horfi mjög til menntunarmöguleika barna sinna og endurmenntunarmöguleika sjálfs sín þegar það kýs sér búsetu.

Vissulega er hart til þess að vita að fólk sem þarf að senda börnin sín til framhaldsnáms þurfi í mörgum tilvikum að kosta til þess 400--500 þús. kr. á ári. Þegar svo er komið er ljóst mál að það þarf óskaplega sterk bönd til að binda fólk við átthagana svo það kjósi ekki að hverfa burtu, flytja á eftir börnum sínum og skapa sér nýja búsetu í öðru umhverfi. 400 þús. kr. kostnaður fyrir barn er auðvitað mjög erfiður fyrir allan venjulegar fjölskyldur og menn þurfa að geta vegið það upp með miklum tekjum ef það á að verða til þess að fólk kjósi ekki að yfirgefa heimahaga sína.

Síðan eru taldar til almennar lífsnauðsynjar. Bak við þær eru hlutir eins og m.a. húshitun svo ég taki dæmi sem greinilegt er og við vitum að vegur mjög þungt í útgjaldaþáttum heimilanna víða um landið.

Byggðastofnun hefur að undanförnu brugðist við með viðeigandi hætti. Ákvörðun hefur verið tekin um að efla sérstaklega starfsemina á landsbyggðinni, efla atvinnuþróunarstarfið á forsendum heimamanna þannig að heimamenn sjálfir geti lagt á ráðin um hvernig bregðast eigi við með sem mestum árangri. Þetta er eðlileg valddreifingarstefna og jafnframt eðlilegt að atvinnumál vegi svo þungt. Forsenda þess að við getum snúið þessari byggðaþróun við er auka megi fjölbreytni atvinnulífsins og styrkja stoðir þeirrar atvinnu sem fyrir er í landinu.

Þegar menn velta fyrir sér hvað liggi á bak við þessa þáltill. þá eru áherslurnar í byggðaáætluninni í samræmi við stefnumótun og grundvallarvinnu stjórnar Byggðastofnunar í aðdraganda þessarar tillögu.

Í þessari umræðu hafa menn velt fyrir sér markmiðunum sem koma fram í 1. mgr. tillögunnar sem eru þau að stefnt skuli að því að fólksfjölgun á landsbyggðinni verði ekki undir landsmeðaltali, þ.e. 10% til ársins 2010. Ég hefði einhvern veginn búist við því að gagnrýnin á þetta markmið væri fyrst og fremst sú að sagt yrði að um væri ræða frekar lágreist markmið. Með þessari tillögu erum við að segja að við ætlum okkur ekki meira en að stöðva fólksfækkunina og halda í við þróunina í landinu í heild. Kannski hefði einhver getað gagnrýnt okkur og sagt: Þetta er ekki mjög björgulegt, þetta er ekki mjög háreist, og það er út af fyrir sig rétt. Við erum hins vegar að reyna að setja okkur raunhæf markmið. Það er bjargföst trú okkar í stjórn Byggðastofnunar eftir að hafa farið yfir þessi mál að hægt sé að tryggja þetta ef okkur takist að fá þessa tillögu samþykkta og henni verði síðan fylgt eftir með raunhæfum aðgerðum í samræmi við þá stefnumótun sem hérna kemur fram. Forsenda þess að við náum þessu markmiði um fólksfjölgunina er að við náum að vinna í anda þessarar stefnumótunar og leggja fram þau úrræði sem þarf svo hægt sé að hrinda þessum markmiðum í framkvæmd.

Eitt það alvarlegasta sem við stöndum frammi fyrir í þessu sambandi er auðvitað staða sjávarútvegsbyggðanna. Sú staðreynd sem fram kemur í rannsókn Stefáns Ólafssonar og Háskólinn á Akureyri hefur enn fremur sýnt fram á, að fimmti hver starfsmaður í fiskvinnslu á landsbyggðinni hyggi á búferlaflutninga á næstu tveimur árum, er mjög alvarleg. Það er auðvelt að framreikna þetta. Samkvæmt þessu verða á næstu 10 árum alger skipti á fólki í fiskvinnslu á landsbyggðinni. Þetta er mjög alvarlegt og þetta er auðvitað kjarni málsins. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir núna.

Á árunum upp úr 1970, frá 1972 og fram undir 1980 togaði sjávarútvegurinn til sín fólk. Fólk flutti út á land til þess að vinna í sjávarútvegi. Þegar sjávarútvegurinn hættir síðan að toga til sín fólk, þá blasir við önnur mynd vegna þess að annað hefur ekki komið í staðinn. Okkur hefur ekki tekist að búa til þær aðstæður á landsbyggðinni að nokkuð annað hafi komið í staðinn fyrir það sem sjávarútvegurinn var byggðaþróuninni á 8. áratugnum. Almennt talað er það veikari staða fiskvinnslunnar í landinu sem valdið hefur þessum breytingum. Það eru ekki bara þjóðlífsbreytingarnar. Við skulum viðurkenna að þjóðlífsbreytingarnar hafa haft sitthvað í för með sér. Almennari menntun en áður hefur verið og fleira í þeim dúr hefur auðvitað gert það að verkum að krafa fólksins er aukin fjölbreytni í atvinnustarfsemi. Fiskvinnslan hefur ekki lengur sama aðdráttarafl og hún hafði fyrir örfáum árum og fyrir því eru ýmsar ástæður.

Á undanförnum árum hafa orðið afurðaverðshækkanirnar sem því miður hafa ekki orðið eftir hjá fiskvinnslunni og því ekki komið fram í batnandi kjörum fiskverkunarfólks í samræmi við það. Afurðaverðshækkanirnar hafa sífellt streymt út í hráefnisverðið, skilað sér til útgerðarinnar og í batnandi kjörum sjómanna. Þess vegna eru styrkleikahlutföllin í sjávarútvegi með allt öðrum hætti nú en áður.

Stefán Ólafsson prófessor, sem hér hefur margoft verið gerður að umtalsefni, víkur að þessu í athyglisverðri grein fimmtudaginn 12. nóvember þegar hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Eigendur kvótans hafa við núverandi skipan fengið vænlega útgönguleið úr greininni með því að selja frá sér kvótann, en með því er lífsbjörgin hins vegar seld frá landvinnslufólkinu, þ.e. fiskvinnslufólkinu og öðrum íbúum minni sjávarbyggðanna. Það fólk á um fátt annað að velja en flytja brott þegar svo er komið og jafnvel skilja eftir afrakstur ævistarfsins í verðlausu húsnæði, ef fólkið þarf þá ekki að taka með sér skuldir af því að auki. Íbúar sjávarbyggðanna skynja þegar þetta aukna óöryggi um lífsbjörg í framtíðinni og eru farnir að bregðast við því með brottflutningi, eins og sýnt var fram á í síðustu grein minni.``

Slík er alvaran í málinu. Ég vil því segja, virðulegi forseti, að ég tel að veikleikinn í tillögu okkar sé að skrifa þurfi textann skýrari hvað þessa þætti málsins varðar sérstaklega. Í tillögunni er almennt fjallað um að sköpuð verði skilyrði til að styðja aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega er hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.

[16:15]

Hér eru ýmsir þættir sem við þurfum að mínu mati að hyggja betur að. Ég skal nefna tvö eða þrjú atriði. Í fyrsta lagi tel ég að eðlilegt væri í þessu sambandi að við þróuðum betur og gerðum víðtækara það kerfi þorskaflahámarks við fiskveiðistjórn sem innleitt var fyrir örfáum árum. Þetta kerfi hefur virkað mjög vel. Það hefur styrkt mjög sjávarútvegsbyggðirnar sem eru næst fiskimiðunum, t.d. á Vestfjörðunum. Þetta hefur skapað nýja viðspyrnu fyrir þær byggðir sem hafa staðið frammi fyrir því að kvótinn hefur farið í burtu. Þess vegna tel ég að skynsamlegt væri að við skoðuðum það betur að þróa þetta þorskaflahámark í áttina að því að fjölga í og stækka þann flota sem fengi að njóta þessa kerfis.

Í öðru lagi teldi ég skynsamlegt að upp væri tekin ívilnun í kvóta hjá þeim sem landa til vinnslu innan lands. Þetta yrði til þess að jafna samkeppnisstöðu landvinnslunnar gagnvart sjófrystingunni sem er mjög ójöfn um þessar mundir. Það er óhjákvæmilegt að við verðum að reyna að styrkja þessar sjávarútvegsbyggðir þar sem menn standa stöðugt frammi fyrir þessu óöryggi eins og dæmin sanna hvert á fætur öðru. Við verðum að reyna að finna leiðir til að búa til varnarlínu fyrir þessar byggðir þegar þannig stendur á. Þetta er eitt af þeim málum sem ég held að væri eðlilegt að menn ræddu, kannski í tengslum við þessa þingsályktun, kannski í tengslum við sjávarútvegsmálin almennt, og er óhjákvæmilegur þáttur í því að snúa við þeirri óheillaþróun sem hefur verið í byggðunum í landinu.