Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:21:12 (1186)

1998-11-17 16:21:12# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er mikið rétt að þetta kerfi hefur skapað viðspyrnu fyrir þá staði sem næst liggja þorskmiðum. Það getur vel verið að það sé út af fyrir sig stefna að haga fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að menn geti notið nálægðar við þorskmiðin. En það hefur ekki verið þannig. Það hefur ekki verið sú stefna sem hér hefur verið rekin heldur hafa menn litið til þess að landið gæti allt verið í byggð, m.a. út frá því að hægt væri að sækja sjóinn alls staðar frá, að til þess væru forsendur. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það líf sem hefur verið að koma inn í ýmis pláss, eins og hv. þm. lýsti áðan, hefur verið á kostnað lífs í öðrum plássum vegna þess að þeir bátar sem hafa bæst við í löndun og útgerð frá þessum stöðum eru gjarnan bátar sem eru með lögheimili, ef það má orða það þannig, annars staðar á landinu, en þar sem kerfið býður upp á sókn hafa þeir kosið að gera út frá Vestfjörðum. Auðvitað gerist það þá á kostnað þess lífs sem ella væri í þeirra heimastöðum.