Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:25:22 (1188)

1998-11-17 16:25:22# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að blanda mér aðeins í þessa umræðu um till. til þál. um stefnu í byggðamálum og ætla að víkja að þremur atriðum. Í fyrsta lagi að tillögunni sjálfri. Í öðru lagi ætla ég að tala dálítið almennt um hlutskipti þéttbýlisins í þessu dæmi, þ.e. Reykjavíkur og nágrennis. Og í þriðja lagi ætla ég að nefna nokkrar hugmyndir um aðgerðir í byggðamálum sem að sumu leyti hafa verið nefndar hér áður en að sumu leyti ekki.

Ástæðan þess að ég tek þátt í þessari umræðu er ekki síst sú að Alþb. hafði forustu um að flutt var tillaga í svokallaðri kjördæmanefnd um að reynt yrði að taka sérstaklega á vandamálum dreifbýlisins í tengslum við breytingar á kjördæmaskipaninni. Fallist var á þá tillögu með þeim hætti að skipuð var sérstök nefnd í þeim efnum og hún er undir forustu hv. síðasta ræðumanns, Einars Kristins Guðfinnssonar. Þar er gert ráð fyrir að menn gangi eins rösklega til verks og mögulegt er þannig að menn verði ekki að leggja hér inn óljós loforð í safn framtíðarinnar heldur verði um að ræða skýra hluti. Þannig verði tekið dálítið öðruvísi á málum í þetta skipti en gert var t.d. 1983 þegar kjördæmabreytingin þá átti sér stað. Þá voru gefin býsna eindregin fyrirheit um aðgerðir í byggðamálum en því miður stóðu menn ekki við þau.

Um tillöguna sjálfa ætla ég að segja að í fyrsta lagi hefur hún þann galla að þetta er tillaga til þingsályktunar. Þetta er ekki lagafrv. Þetta eru ekki peningar í hendi og því er í rauninni óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. og þá sem með þetta mál fara og óska eftir að nefndin fjalli um það sérstaklega: Hvað af því sem hér er skrifað niður er í hendi? Verður strax í fjárlögum 1999, þó að tillagan hafi jafnvel ekki verið afgreidd, gert ráð fyrir fjármunum, t.d. upp á 300 millj. kr. til þess að tryggja nauðsynlegt eigið fé í nýsköpunarverkefnum og í því skyni verði komið á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar? Verða þessir fjármunir tryggðir? Verður það gert sem hér er skrifað niður um eflingu þróunarstofanna? Verður hér farið í samstarf við framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs, svo dæmi sé nefnt? Verður með öðrum orðum gengið í þau verkefni sem hér eru skrifuð niður? Ég ætlast til þess að það verði gert. Af hverju? Vegna þess að þeir sem flytja tillöguna ráða Alþingi. Þeir ráða meiri hlutanum. Þeir eru með löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið og fjárveitingavaldið í sínum höndum og þeir þurfa ekki að bíða eftir neinu í þeim efnum vegna þess að þingsályktun er jú ekki bindandi heldur almenn stefnuyfirlýsing eins og menn þekkja hér frá undanförnum árum og áratugum. Því vil ég segja: Ég tel að tillagan sé gölluð að því leyti að hún er þáltill. en ekki frv. Ég hefði viljað sjá frv. til laga um þessa hluti þar sem það er bundið niður lið fyrir lið sem hér á að gera. Ég tel að hún sé líka gölluð að því leyti, herra forseti, að ég hefði viljað sjá greinargerðina þannig uppsetta að menn hefðu fjallað um hvern einstakan efnispunkt nákvæmlega, öll þessi 21 atriði sem hér eru nefnd, hvert einasta atriði, og skilgreina þau nákvæmlega, hvenær eigi að gera þetta og hvernig, og hvernig eigi að útvega fjármuni í það.

Um leið og ég segi þetta þakka ég fyrir þau gögn sem fylgja tillögunni. Þau eru mjög mikilvæg. Og hver er kosturinn við tillöguna? Hann er m.a. sá að aðdragandinn að tillöguflutningnum eru rannsóknir, eru athuganir, er yfirferð þannig að maður hefur það a.m.k. á tilfinningunni að menn viti nokkurn veginn um hvað þeir eru að tala sem er vissulega kostur þegar um svona mál er að ræða.

Síðan ætla ég aðeins að víkja að nokkrum almennum atriðum og velta fyrir mér þremur þáttum. Í fyrsta lagi: Er það ekki umhugsunarvert að aldrei hefur verið fjallað um það hér í þessari stofnun sérstaklega eða gerð tilraun til þess að ákveða það í þessari stofnun, ekki einu sinni með þingsályktun, hverjar eigi að vera skyldur höfuðborgar, réttindi höfuðborgar og skyldur hennar gagnvart umhverfi sínu og þjóðinni allri. Ég hef í mörg ár velt því fyrir mér að leggja fram till. til þál. um að þetta verkefni verði unnið. Ég tel að eitt það mikilvægasta í stjórnmálum á Íslandi sé sæmileg sátt um höfuðborgina og stöðu hennar. Ég tel reyndar að á undanförnum árum hafi menn unnið skipulega að því að skapa betri sátt um borgina sem slíka, sem höfuðborg, heldur en var hér mjög lengi. Átökin andspænis þessu svæði hér, höfuðborgarsvæðinu, hafa verið andspænis svæðinu öllu en ekki höfuðborginn einni, eins og það var mjög lengi. Ég held að við þurfum að velta þessu fyrir okkur, og það nefni ég í fyrsta lagi varðandi almenna stöðu og þéttbýlið: Eigum við ekki að velta því fyrir okkur að skilgreina sérstaklega hlutverk höfuðborgarinnar, skyldur hennar og réttindi líka gagnvart umhverfinu? Ég vísa til þess að í öðrum löndum hefur þetta verið gert. Í öðrum löndum hefur það verið gert að menn hafa skilgreint hlutverk og stöðu höfuðborgar. Það held ég að sé mjög mikilvægt og það á að skilgreina þetta að mínu mati þannig að um það geti orðið sátt.

[16:30]

Í öðru lagi varðandi þéttbýlið ætla ég að segja að auðvitað á að reikna út hvað það kostar fyrir þjóðfélagið að þúsundir og aftur þúsundir manna flytja hingað til þéttbýlisins, til höfuðborgarsvæðisins, og yfirgefa fullbúin mannvirki í skólum, í heilsugæslustöðvum, í vegum, í bændabýlum, í fyrirtækjum o.s.frv. úti á landi. Og um leið þarf að eiga sér stað uppbygging á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við slíka flutninga. En svo ótrúlegt sem það nú er þá hefur aldrei verið reiknað út hvað þetta í raun kostar í uppbyggingu hér á þessu svæði.

Þeir menn sem ég hef talað við, m.a. hjá Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun, fullyrða að alls ekki sé víst að beinn hagur sé að því fyrir viðkomandi sveitarfélög, t.d. Kópavog, að byggjast jafnhratt upp og Kópavogur hefur gert. Það sé engan veginn víst að öruggur hagur sé að því. En svo merkilegt sem það er þá hefur þetta aldrei nokkurn tíma verið reiknað út. Það held ég að sé verkefni sem við eigum líka að velta fyrir okkur hér jafnframt þessari tillögu, hvort við felum ekki einhverjum, Þjóðhagsstofnun eða Byggðastofnun, að láta reikna það út hver þessi kostnaður er. Því að veruleikinn er sá, hvað sem öðru líður, að það er kostnaðurinn við þessa hluti eins og aðra sem menn horfa býsna mikið á.

Nú vill svo til að nýlega hefur verið tekin um það ákvörðun í borgarstjórn Reykjavíkur að reikna sérstaklega út kostnað við uppbyggingu í einu tilteknu nýju hverfi hér í borginni. Það er satt að segja mjög myndarleg ákvörðun og skynsamleg vegna þess að við þurfum að vita hvernig þessir hlutir eru. Samþykktin sem var gerð í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkru hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Borgarráð Reykjavíkur samþykkir að fela borgarhagfræðingi og fjárreiðustjóra að fá utanaðkomandi aðila til að taka út kostnað Reykjavíkurborgar af uppbyggingu í Grafarvogi og tekjum borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar af borgarhlutanum. Miðað verði við að nálgast sem best raunkostnað við uppbygginguna og áhrif hennar á stöðu borgarsjóðs á hverjum tíma.``

Hér er í raun bara verið að fjalla um kostnað borgarinnar. En af þessu er síðan og til viðbótar þjóðfélagslegur kostnaður vegna þess að fjármunir sem hafa verið lagðir í mannvirki, m.a. félagslegrar þjónustu í dreifbýlinu, eru núna ónotaðir sem ella væru nýttir. Þetta held ég að eigi að rannsaka og reikna út mjög nákvæmlega.

Fyrir nokkrum dögum fullyrti forsrh. í ræðu á Alþingi að kostnaðurinn við hvern íbúa sem settist að í þéttbýlinu og kæmi utan að, væri 3--5 millj. kr. á mann í stofnkostnaði, eingöngu í stofnkostnaði, gjaldfærðum eigna- og stofnkostnaði. Ekki í rekstrarkostnaði, bara í stofnkostnaði. Ég fór og kannaði þessa tölu aðeins betur hjá Þjóðhagsstofnun áðan og þeir sem þar urðu fyrir svörum sögðu: Þessi tala er nokkuð nákvæm, nokkuð undirbyggð, en hún er hins vegar ekki 100%, þetta er ágiskun. En hún er ekki fjarri lagi.

Ef þessi tala er rétt þá er kostnaðurinn við að flytja hingað segjum þúsund manns 3--5 milljarðar kr. Menn eru oft að býsnast yfir því að þeir fjármunir sem fara til aðgerða og til byggðajöfnunar séu miklir og þeir eru stundum einhverjir, þeir eru nú sjaldan mjög miklir. En þeir eru litlir í samanburði við þennan kostnað, sem verið er að bæta við þann kostnað sem menn hvort eð er hafa hér í þéttbýlinu. Þess vegna tel ég að nauðsynlegt sé að nefna þetta hér, herra forseti, af því að menn hafa iðulega talað um þetta eins og það væri sjálfgefið mál að þéttbýlið hagnaðist gífurlega á þessum breytingum. Það kann út af fyrir sig að vera að í mjög þröngu sjónarhorni séð geti það legið þannig, en þegar menn skoða þjóðfélagslega kostnaðinn og þá fjárfestingu sem menn skilja eftir, þá er ég sannfærður um að fyrir þjóðarheildina er tap af þessum gríðarlegu fólksflutningum sem eiga sér stað. Það er beint tap í beinum fjármunum, herra forseti.

Þetta voru þessi almennu atriði. Ég ætla síðan að bæta því við að ef menn ætla að taka á þessum málum þá þarf að breyta stjórnkerfinu. Þá þarf að koma upp burðugum stjórnsýslueiningum, það þarf að halda þannig á málum að menn hafi meira vald, bæði til að leggja á skatta og til að eyða fjármunum úti um landið.

Ég ætla að lokum, herra forseti, að nefna ellefu atriði sem ég tel að væri hægt að grípa til í því skyni að draga úr þeim ógnvænlega byggðaflótta sem nú er um að ræða. Mörg þeirra hafa þegar verið nefnd hér áður, eins og ég sagði, t.d. af hv. þm. Ragnari Arnalds, en ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem eru að nokkru leyti endurtekning.

Í fyrsta lagi nefni ég húshitunarkostnaðinn. Þar er um að ræða langalvarlegasta málið samkvæmt skýrslu Stefáns Ólafssonar. Og ef menn ætluðu að ná því viðmiði sem stendur í tillögunni, þá væri um að ræða kostnað upp á 300--400 millj. kr. sýnist mér.

Í öðru lagi er spurning um jöfnun raforkuverðs. Ég tel að ef menn ætluðu sér að ná einhverjum árangri í jöfnun raforkuverðs þyrfti ekki að vera um gríðarlega háar tölur að ræða.

Í þriðja lagi nefni ég menntamálin og þá sérstaklega framhaldsskólakostnaðinn. Hann er gífurlega alvarlegt vandamál og stórfelld ástæða fyrir því að fólk flýr utan af landi og í þéttbýlið. Og af því að ég er að tala um skóla ætla líka að leyfa mér að nefna grunnskólaaksturinn. Það er ægilegur hlutur sem fólk býr við í dreifbýli sums staðar að þurfa að aka með lítil börn kannski klukkutíma á dag til þess að sækja skóla.

Í fjórða lagi í sambandi við menntamálin ætla ég að nefna fjarnámið, þar sem hægt er að gera mjög góða hluti og menn eru víða að gera mjög góða hluti.

Ég ætla í fimmta lagi að nefna heilbrigðiskostnaðinn, ferðakostnaðinn til að leita sérfræðinga og læknisaðstoðar.

Ég ætla í sjötta lagi að nefna það sem ég tel hægt að gera, þ.e. að gera sveitarfélögin enn þá öflugri. Ég tel að menn eigi að velta því fyrir sér að sveitarfélögin fái skattlagningarheimildir. Þau hafa þær ekki í dag. Það verða allar skattlagningarheimildir að fara í gegnum Alþingi. Spurningin er hvort menn vilja breyta stjórnarskránni í vetur, um leið og við breytum henni af öðrum ástæðum, í því skyni að sveitarfélögin hafi rýmri tekjuöflunarheimildir en þau hafa núna.

Í sjöunda lagi held ég að skoða eigi í þessu sambandi skattamál almennt, hvort beita eigi skattaráðstöfunum eins og gert er í Norður-Noregi, í sambandi við byggðamál.

Í áttunda lagi ætla ég að minna á vöruverðið, sérstaklega fraktir og virðisaukaskattinn.

Í níunda lagi nefni ég samgöngurnar. Það kemur greinilega fram í skýrslu Stefáns Ólafssonar að þar er um að ræða mjög mikilvæg atriði og þau eru margþætt. Það er ekki bara það að leggja vegi heldur líka að halda við vegum, að ryðja vegi og halda þeim opnum á vetrum. Í sambandi við samgöngurnar koma einnig við sögu flugsamgöngur.

Í tíunda lagi ætla ég að nefna símkerfið og möguleika dreifbýlisins á að nota sér t.d. alls konar fjarvinnslu á tölvur, sem er afar lítil og þröng eins og er, bæði dýr og tekur langan tíma. Það verður auðvitað að fara í viðræður við Landssímann um að byggja upp þetta símkerfi þannig að þessi fjölvirka ISDN-þjónusta verði líka úti á landi en verði ekki bara forréttindi okkar sem búum hér í þéttbýlinu.

Í ellefta lagi ætla ég að nefna það sem ég hef stundum velt fyrir mér og það er að annaðhvort verði við forsrn. komið upp sérstakri skrifstofu eða við Byggðastofnun, sem meti byggðaáhrif allra mála sem hér fara í gegn, allra þingmála sem hér fara í gegn. Það held ég að gæti verið góð hugmynd alveg á sama hátt og það á að meta fjárhagsleg áhrif allra frumvarpa sem hér fara í gegn af fjárlagaskrifstofu fjmrn. Ég tel að meta ætti byggðaáhrif allra mála sem hér fara í gegn, þannig að menn sjái það svart á hvítu hvað þeir eru að gera, herra forseti.