Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:41:21 (1189)

1998-11-17 16:41:21# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það hefur verið farið yfir það í umræðunni af þeim sem talað hafa á undan mér að vandinn, landsbyggðarvandinn sé mikill og raunar hafi hann aldrei lýst sér eins alvarlega og á yfirstandandi ári. Um þetta þarf ekki að deila. Þó að þetta vandamál, byggðaþróunin, hafi lengi verið stórt og þungvægt í íslenskri stjórnmálaumræðu þá er margt sem bendir til þess að vandinn sé að aukast. Og þá er rétt að við skoðum það með hvaða hætti aðstæður eru sérstakar nú til að takast á við þennan vanda því að við höfum ekki mikið upp úr því að velta okkur upp úr fortíðarvandanum. Mestu skiptir að átta sig á því hvaða stöðu við höfum til að takast á við þennan vanda nú.

Þegar við lítum til þeirrar till. til þál. sem nú er til umræðu er ljóst að hér er á ferðinni mjög athyglisverð bók, því um er að ræða þykka skýrslu, þykka bók sem ásamt öðrum fylgigögnum leggur til grundvallar þær upplýsingar sem við þurfum að hafa til að glíma við þennan vanda. Í þessum skjölum er tekist á af mikilli þekkingu við eitt flóknasta mál sem stjórnmálamenn og fræðimenn á Íslandi hafa fengist við. Eins og ég sagði höfum við glímt áður við þennan vanda en við höfum á undanförnum árum verið að glíma við byggðavandann ásamt ýmsum öðrum vandamálum sem hafa jafnframt verið vandamál hinna dreifðu byggða og þau vandamál hafa yfirskyggt byggðavandann.

Tökum sem dæmi að á tímum óðaverðbólgu á Íslandi gafst í raun og veru aldrei tóm til að takast af alvöru á við byggðavandann. Í kreppunni sem skall yfir þjóðina árið 1988 vorum við nokkur ár að ná vopnum okkar og réðumst síðan gegn þessari kreppu og höfum nú komist klárlega upp úr þeim erfiðleikum. En við vorum ekki í góðri stöðu í miðri kreppunni til að takast sérstaklega á við byggðavandann, enda var kreppan vandi landsbyggðarinnar á sama hátt og óðaverðbólgan var líka vandi landsbyggðarinnar þannig að við töldum okkur vera að leysa vanda landsbyggðarinnar með því að ráðast gegn þessum kreppueinkennum og með því að vinna á óðaverðbólgunni.

Tökum einnig erfiðleikana í sjávarútvegi þegar afli fór minnkandi og við sigldum inn í mikið erfiðleikatímabil. Við tókum á þeim erfiðleika þannig að nú þegar upp er staðið þá stendur sjávarútvegur okkar, sem skiptir mjög miklu máli fyrir landsbyggðina, sterkari en áður en kreppan hófst. Þessi vandamál hafa í stórum dráttum verið leyst farsællega. Við höfum kveðið niður verðbólguna, atvinnuástandið fer batnandi, efnahagsmálin eru styrk og við stöndum með ítarlegar upplýsingar í höndum um eðli byggðavandans. Það er rétt að það komi fram að aldrei fyrr hefur verið lögð eins mikil ástundun í það að komast fyrir um eðli vandans eins og nú hefur verið gert. Við höfum glímt við þennan vanda áratugum saman en aldrei höfum við safnað eins ítarlegum upplýsingum um eðli þess vandamáls sem við erum að glíma við og nú. Og það skiptir að sjálfsögðu sköpum að gera sér vel grein fyrir eðli vandans áður en gripið er til úrræða.

[16:45]

Það er því á traustum grunni sem við nú byggjum þessa umræðu og mótum hugmyndir um það hvernig tekist verði á við þetta mikla vandamál. Vandinn er stór. Byggðaþróunin er orðin vítahringur, er orðinn eins og risavaxið bjarg sem veltur niður hlíð og eykur sér sífellt þunga á leiðinni. Ísland er í dag og hefur verið í nokkurn tíma mjög sérstakt á evrópskan mælikvarða því hvergi annars staðar er svo hátt hlutfall íbúa landsins búandi í höfuðborginni eða í þeim bæjum sem mynda eina byggðaheild með Reykjavík. Það er einnig rétt að benda á það að hvergi í nágrannalöndum hefur hlutfallslega jafnlitlu fé verið varið til byggðamála og hér á landi.

Það fer því ekki á milli mála að þróun byggðar á Íslandi er núna tvímælalaust stærsta viðfangsefni stjórnmálanna. Fyrstu áratugir 21. aldarinnar munu ráða úrslitum um það hvernig þjóðfélag Íslands framtíðarinnar verður. Ef okkur tekst vel til verður framhald á sögu þjóðarinnar. Ef ekki, verða kaflaskil í sögu þjóðarinnar. Þá hefst ný saga, saga nýs þjóðfélags. Það verður eflaust merkileg saga en hún verður öðruvísi. Hún verður annars eðlis.

Saga þjóðarinnar er saga landsins alls og menning Íslendinga er menning landsins alls. Tunga þjóðarinnar er ekki samsafn af málýskum heldur tunga landsins alls. Og sérkenni íslenskrar sögu, menningar og tungu eru þau að þjóðin, þótt fámenn hafi alla tíð verið, hefur haft landið allt undir, ferðast, flust og blandast milli landshluta. Þannig hefur þjóðin lifað og þróast með landinu, byggt það og nýtt.

Baráttan gegn byggðaröskuninni hefur komist á nýtt stig --- raunar stenst ekkert byggðarlag nú sogkraftinn að sunnan, öll standa byggðarlög landsbyggðarinnar veik fyrir, þótt atvinnulíf á landsbyggðinni hafi sjaldan verið sterkara. Og það er þetta tvennt sem markar hinar sérstöku aðstæður í dag. Ef þessi barátta við þróun byggðarinnar í landinu tapast þá munum við minnka sem þjóð. Menning okkar verður fátæklegri, tengslin við söguna daprast og sambandið við landið rýrnar. Með fullri virðingu fyrir átthagafélögum þá munu þau ekki koma í stað byggðar í landinu.

Staða okkar til að takast á við þennan vanda er hins vegar sterkari nú en hún hefur áður verið og byggist það ekki síst á því hversu vel hefur verið staðið að því að skilgreina vandann í þeim plöggum sem fylgja með þessari till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001.

Nokkur atriði sem mér finnst að skipti miklu máli vil ég nefna sérstaklega. Í þessari till. til þál. er lögð mikil áhersla á það sem ég vildi kalla --- þó orðið sé nú ekki beinlínis nefnt í þessum gögnum --- sveigjanleika í atvinnulífi, menntun og menningarlífi. Það er þessi sveigjanleiki sem er orðin undirstaða allra framfara í nútímasamfélögum, þ.e. að geta brugðist hratt við. Atvinnulíf á alþjóðlegan mælikvarða hreyfist svo hratt, þróast svo hratt, að mannaflinn þarf að búa yfir miklum sveigjanleika. Og ef landsbyggðin getur ekki boðið fólki upp á að þjálfa og þróa þennan sveigjanleika til að geta brugðist alltaf við breyttum aðstæðum þá munum við verða eftir og tapa þessari orrustu.

Í þessu plaggi er einmitt lögð grundvallaráhersla á að byggja upp þennan sveigjanleika. Þar er talað um að gera það með menntun. Þar er talað um að gera það með því að nýta bestu tækni, fjarskipti og upplýsingatækni, og vinna þannig bug á fjarlægðunum sem eru að sjálfsögðu ein af helstu hindrunum landsbyggðarinnar. Háskólastarfsemin mun í þessu tilfelli skipta sköpum og það er afar mikilvægt að farið verði eftir þeim hugmyndum sem hér koma fram um uppbyggingu háskólastarfs og rannsókna.

Svo ég nefni aðeins einn þátt í atvinnulífi þjóðarinnar þar sem hvort tveggja þarf að byggja upp nánast frá grunni þá nefni ég ferðaþjónustuna. Þar skortir mikið bæði á menntun sem boðið er upp á en ekki síður á rannsóknir á helstu þáttum sem ráða því hvort arðsemi er í þessari grein eða ekki. Við erum komin mjög langt í rannsóknarstarfsemi á sviði ýmissa annarra atvinnuvega sem þó vega minna í efnahag þjóðarinnar en ferðaþjónustan gerir og hér er á ferðinni eitt af þeim miklu viðfangsefnum sem við þurfum að glíma við í anda byggðastefnu.

Einnig er athyglisverð sú áhersla sem hefur verið lögð hér á þróunarstofur og þá breytingu sem hefur verið gerð á þeim málum innan Byggðastofnunar. Það fer ekki milli mála að sú þróun öll hefur verið mjög jákvæð og við hana má binda miklar vonir.

Það er sérstök ástæða til þess að líta til þess hvernig hægt verði að gera Háskólanum á Akureyri kleift að verða virkur þátttakandi í því sem háskólastarfseminni er ætlað í þessari þáltill. Sú stofnun hefur eflst mikið en ég legg áherslu á að hún þarf á miklum stuðningi að halda. Hún þarf á miklum stuðningi að halda frá stjórnvöldum. Hún hefur notið mikils skilnings og henni hefur verið fólgið mikið hlutverk af hálfu Byggðastofnunar í þessu máli sem hér er til umræðu, og það er mjög brýnt að stofnunin fái viðamiklu hlutverki að gegna á sviði menntamála í þróun byggðamála í framtíðinni.

Annað vil ég nefna sérstaklega sem er mér mjög mikið ánægjuefni í þáltill. Það er að finna á bls. 3 í aðgerðaráætlun þáltill. þar sem sagt er að menningararfur verði varðveittur innan héraðs eftir því sem tök eru á og verði sýnilegur innlendum og erlendum ferðamönnum. Eins og ég gat um áðan þá er saga Íslands saga landsins alls og menningarverðmæti er ekki síður að finna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru jafnvel í vissum tilfellum enn frekar úti á landi heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfur hef ég gert þetta að málflutningi mínum á Alþingi að menningarverðmæti verði varðveitt innan héraðs, og nefni þar sérstaklega tillögu um kirkjumunasafn á Hólum, sem var samþykkt á Alþingi fyrir nokkrum árum. Það er dæmigert fyrir það hvernig við gætum notað sögu staðanna og þau verðmæti sem þar eru til þess að byggja upp söfn sem tengjast sögu landsins og þá á þann hátt að þeir munir sem við eigum og tengjast þessum sögustöðum verði þar varðveittir.

Ég nefni að eitt af þessum menningarverðmætum sem við eigum á Íslandi eru leifarnar af miðaldaþorpinu að Gásum í Eyjafirði. Það er mjög freistandi viðfangsefni að skoða möguleikana á því að setja á stofn miðaldasafn við Eyjafjörð sem tengdist verslunarsögu og siglingum. Í raun og veru væri hægt að ausa af þeim brunnum þekkingar sem fólgnir eru í gömlu lagatextunum okkar sem fjalla um viðskipti og verslun og koma upp safni sem yrði fyrst og fremst upplýsingasafn og tengdist viðskiptum og siglingum. Nútímatækni gerir mögulegt að búa til slíkar stofnanir sem eru bæði fróðlegar og aðgengilegar fyrir allan almenning og fyrir útlendinga, og þetta getum við gert í anda þeirrar stefnu sem mörkuð er í þessari þáltill.

Tími minn er á þrotum. Ég vil endurtaka það að ég tel að þó margt bendi til þess að byggðaþróunin sé komin á mjög hættulegt stig einmitt á þessu ári þá höfum við aldrei fyrr haft eins mikið í höndum til þess að glíma við þennan vanda og nú. Við höfum fundið lausn á mörgum vandamálum sem við höfum verið að glíma við á undanförnum árum, eins og verðbólguvandanum, og styrkt okkar hagkerfi þannig að við erum betur í stakk búin til þess að takast á við þennan vanda nú heldur en oft áður. (Gripið fram í: Treystum Alþýðuflokknum til þess.)