Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 17:42:02 (1193)

1998-11-17 17:42:02# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[17:42]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Við erum lítil þjóð sem býr í fallegu landi og við syngjum á góðum stundum: ,,Ég vil elska mitt land``. Í mörgu fleiru kemur það fram og við viljum láta það koma fram að okkur þykir vænt um landið okkar og að við viljum fara vel með það.

Umhverfismál eru líka orðinn heitur málaflokkur. Okkur þykir mikilvægt að þjóðin búi í sátt við landið, meira að segja að sem flestir hafi yfirráð og umsjón með hálendinu og varðveislu þess, en sá vilji hefur kristallast í hálendisumræðunni, í virkjunarhugmyndum, áformum um breytingar á ásýnd hins ósnortna víðernis á hálendi Íslands.

Í góðæri höfum við efni á því að huga betur að gæðum lífsins, betur en oft annars, en megum þó ekki gleyma því sem Halldór Laxness segir einhvers staðar: ,,Miskunnsemin er það fyrsta sem deyr í hörðu ári.``

Við viljum vernda margt. Í gær var dagur íslenskrar tungu. Við verndum minjar frá liðnum tíma. Fólki er bannað að rífa gömul hús, kirkjur. Við leggjum fjármuni í að rannsökuð sé saga, fornminjar og þjóðhættir. Á þessum tímum verndunarsjónarmiða þurfum við að huga að ýmsu því fleiru sem er að breytast mikið á þessum síðustu missirum, og hvort við séum e.t.v. að glata verðmætum sem ekki eða erfitt verður að bæta síðar, ef þau tapast á annað borð.

Hvað skal vernda ef ekki það að búseta sé hvarvetna í landinu? Skiptir það þjóðina ekki máli að föst búseta skuli vera í Borgarfirði, en ekki aðeins sumarbústaðir þéttbýlisbúa? Er það ekki mikils virði að Skagafjörður sé byggður, ljósum prýddur í skammdeginu og söngur og norðurljós séu í loftinu? Þar sem Hólmurinn er eitt mesta samfellda frjólendi þessa lands, sem Jónasi Hallgrímssyni þótti helst koma til greina um samanburð þegar hann lýsti því í gamanbréfi hve kóngurinn á Frakklandi ætti falleg tún. Og Mývatnssveitin með fjallahringinn víða og fagra og það fólk í sveitinni sem síst allra Íslendinga þjáist af vanmetakennd, Dalirnir, Öræfasveitin, Héraðið, bæirnir og þorpin hvarvetna um landið. Öll þessi fjölbreytni, öll þessi fegurð lands og byggðar. (Gripið fram í: Og hvað nú?) Hvert hérað landsins er sérstakt og ,,hver einn bær á sína sögu,`` eins og hv. þm. veit, ,,sigurljóð og raunabögu``. Þetta orti séra Matthías, sé hv. þingmanni ekki um það kunnugt.

[17:45]

Íslendingar vilja byggja allt landið og landsbyggðarmenn vilja flestir búa þar sem þeir eru. Hins vegar er þeim gert erfitt fyrir í því efni á margan hátt vegna þess að jafnræði og jafnrétti ríkir ekki og hallast verulega á. En hvernig tryggjum við að lifað líf í landinu haldist við? Straumurinn af landsbyggðinni er orðinn svo ör að ef lítið gerist innan skamms verður straumurinn ekki stöðvaður. Sem sagt, það þarf að gerast mikið til þess að stöðva strauminn sem verður æ hraðari hingað til suðvesturhornsins. Gerist það ekki blasa við rúin héruð með fáum og fátæklegum byggingum sem uppi standa og þá verður ekkert sem heldur í, eins og annað skáld og söngvari kvað. Það er fátt ömurlegra þegar ekið er um landið en það að sjá rústir, hálfhrunda sveitabæi, hálfyfirgefin þorp, rústir sem vitna helst um hnignun, eyðingu og úrkynjun. Það væri mikil og hörmuleg hnignun þjóðmenningar og fjölbreytni lífsins í landinu ef svo mundi fara.

En hvað verður gert og hvað er hægt að gera til að sporna gegn örum búsetubreytingum? Hvað getur hið opinbera gert til að sporna gegn því að allir Íslendingar búi innan fárra áratuga á sama svæðinu, á suðvesturhorninu? Enda þótt við viljum vernda land og landsbyggð og vitum gildi þess að Ísland sé allt byggt, þá er okkur nútímamönnum einnig afar ljóst verðgildi hluta. Landsbyggðarfólk veit afar vel að það er dýrara að búa úti á landi og það er ýmis kostnaður sem þar við bætist sem ekki lendir á þeim sem í þéttbýli búa.

Námskostnaður unga fólksins, fjölskyldnanna er mun meiri. Ungt fólk sem fer í framhaldsskóla þarf að leggja hundruð þúsunda fram til viðbótar við það sem þeir þurfa að gera sem geta sótt framhaldsskóla á heimastað sínum. Því miður finnast dæmi þess að fólk hefur hætt í námi í framhaldsskóla nú síðustu missirin vegna þess að það hefur ekki haft efni á að mennta sig. Það sá fram á að það gæti ekki kostað sig og aðstandendurnir, fjölskyldan, hefði ekki möguleika á nægum stuðningi. Slík dæmi eru auðvitað þyngri en tárum tæki en því miður veit ég dæmi þess að fólk hætti í námi vegna féleysis og við sem tölum jafnrétti til náms munum líka vilja láta þetta sjást í fjárlagafrv. sem verða lög eftir um það bil mánuð eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns.

Húshitunarkostnaðurinn í sveitum landsins og sums staðar í þéttbýli á landsbyggðinni, aðstöðumunurinn eftir því hvar er búið og við sjáum þungaskattinn sem er hreinn landsbyggðarskattur, kostnaður sem leggst einfaldlega ofan á vöruverðið og gerir vörurnar 10--15% dýrari vegna flutningskostnaðar úti á landi.

Það er sagt svo mikið réttlætismál, herra forseti, að jafna atkvæðavægið en það er smámál miðað við þá mismunun sem á sér stað milli landshluta, milli þess hvar fólk býr á landinu. Ef fólk sæti við sama borð og ef tryggt væri að fólki væri ekki mismunað eftir búsetu, þá mundi heldur enginn kvarta undan því að atkvæðavægið yrði einfaldlega jafnað til fulls, einn maður eitt atkvæði hvar sem hann býr á landinu ef annað væri tryggt um leið. Þingmenn landsbyggðarinnar hafa oft og einatt talað fyrir daufum eyrum um nauðsyn þess að jafna lífskjör í landinu. Vil ég þó ekki segja að byggðastefnan hafi hingað til mistekist, svo slæmt er það ekki. En nú ættu þingmenn landsbyggðar ekki að tala um þetta einir. Þetta er mál allrar þjóðarinnar. Engum kaupstað eða þéttbýli er það til góðs að þangað flytjist of margt fólk á stuttum tíma.

Í haust var hv. fjárln. að ferðast um nágrannabæi Reykjavíkur og varð þar vör afar erfiða stöðu vegna ofþenslu á mörgum sviðum. Ráðamenn þessara bæja tjáðu okkur að þeir ættu í erfiðleikum með að ráða við að láta þjónustuna fylgja aðflutningi fólks. Þessir erfiðleikar vaxa til muna á næstu árum. Biðraðir myndast eftir leikskólaplássum, þjónustu heilsugæslu og hvers konar þjónustu samfélagsins. Sú byggðaþróun að yfirgefa fjárfestingar og þjónustu á landsbyggðinni en byggja upp nýja bæi og íbúðahverfi hér syðra er í raun og veru engum til góðs að svo hratt fari. Lauslega hefur þetta verið reiknað út og mælt í kostnaði og birt af hæstv. forsrh. að það séu 3--5 millj. beint í stofnkostnaði sem hver einstakur kostar sem tekur ákvörðun um að flytja af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Þá er ekki metið inn í að fjárfestingar á landsbyggðinni eru sumar hverjar yfirgefnar og verðlitlar eða verðlausar fyrir vikið. Því er alveg eðlilegt að leggja fram verulega fjármuni til að hægja á fólksstraumnum hingað suður. Það réttlætist af þessum tölum.

Í títtnefndum greinum Stefáns Ólafssonar prófefssors í dag er fjallað um þær vönduðu kannanir sem hann hefur gert fyrir tilstuðlan stjórnar Byggðastofnunar og vil ég þakka hv. þm. Agli Jónssyni alveg sérstaklega fyrir hans hlut í því máli og stjórn stofnunarinnar en Stefán segir og ég vitna í grein hans, með leyfi forseta. Hann segir:

,,Hnignun landsbyggðar á síðustu árum er úr takti við búsetuóskir landsmanna`` og þessi setning er afar mikilvæg.

Herra forseti. Í ræðu hæstv. forsrh. kom fram hverjar áherslur þyrftu að vera til að byggðastefnan skilaði árangri. Sumar tillögurnar eru hugsaðar til langs tíma. Þær munu því ekki skila árangri í fljótu bragði. Jöfnunaraðgerðir eru líka til sem eru skjótvirkari og skila sér strax og vissulega er sumt í tillögunum þannig að það skilar sér strax. Ýmissa aðgerða þarf vissulega að sjá stað í fjárlögum strax á næsta ári.

Það er sjálfsagt, eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði hér, að spyrja hæstv. ríkisstjórn hvað hún vildi gera í þessum vandamálum, þessum stóru vandamálum um búsetu á Íslandi og mismunun. Hæstv. forsrh. hefur lagt fram vandaða tillögu um stefnumótun í byggðamálum og hana styð ég eins og hún kemur fyrir og þó að vafalaust taki hún einhverjum breytingum hjá okkur í hv. allshn. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt fram frv. til fjárlaga og Alþingi hefur það til meðferðar um þessar mundir.

Það er Alþingi sem samþykkir lög á Íslandi. Það getur verið eina úrræði Alþingis til að jafna aðstöðuna að það sé í gegnum skattkerfið, hafa eins og Stefán Ólafsson nefndir sérstakan jaðarbyggðaafslátt frá opinberum sköttum, mismuna eftir búsetu til þess að jöfnuður náist. Það er t.d. gert með sjómannafslættinum og mætti hugsa sér einhvers konar útvíkkun á honum. En ég legg það til að hv. þingheimur sameinist í því að jafna aðstöðumun fólks hvar sem það býr á landinu og geri það áður en gengið verður til ákvarðana um að jafna atkvæðisréttinn. Hér er vissulega ólíku saman að jafna en hvort tveggja þarf samt að gerast með þjóðarsátt um leiðirnar. Annars verður landsbyggðin að rústum víðast hvar og við missum úr íslenskri byggð fagrar sveitir og héruð, missum hluta menningar okkar, missum verðmæti sem yrðu aldrei bætt.

Herra forseti. Undanfarið hafa verið að birtast myndir í fjölmiðlum sem hugsaðar eru til þess að rétta hlut kvenna í stjórnmálum, aðstaða karla og kvenna sé ójöfn og aðgangur þeirra að möguleikum og tækifærum í þjóðfélaginu. Sumir hafa viljað lyfta hlut kvenna og þannig eru myndir af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni með brjóstahaldara á lofti til þess að lyfta hlut kvenna og jafna aðstöðu fólks. Og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hefur farið inn á karlaklósettið og gert sig líklega til að pissa í skálina í því skyni að jafna með þeirri aðgerð aðstöðu karla og kvenna í þjóðfélaginu. Aukafjárveiting var lögð fram í þessu skyni að koma þessum auglýsingum á framfæri. Mér skilst að það séu 5 millj. kr.

Nú lýsi ég, herra forseti, eftir hugmyndum um það hvernig við getum náð eyrum og augum nógu margra til þess að það þyki sjálfsagt mál að breyta og uppræta þann mun og mismunun sem er milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Hvað þarf til að koma til þess að við áttum okkur á því öll að á þessu þarf að taka ákveðnar en hingað til hefur verið gert.