Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 17:57:19 (1195)

1998-11-17 17:57:19# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[17:57]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get svarað því einfaldlega með því að mér finnst miklu betra að búa úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu þó að vinnustaðurinn sé hér. Ég vísaði til þess í ræðu minni og vil nú vísa þessu frá að ég hafi talað um að það væri vont að búa úti á landi. Það er öðru nær Það er miklu betra að búa þar heldur t.d. hér.

Það er ekki rétt sem fram hefur komið stundum í dag að menningarlíf sé minna á landsbyggðinni. Það er að mínum dómi meira. Það er almennari þátttaka í því en hér og það er í vissum skilningi menningarlega og félagslega meira þéttbýli á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Fólk veit betur hvert af öðru og líður oft og tíðum betur.

Það kemur líka fram í skoðanakönnun Stefáns Ólafssonar og Félagsvísindastofnunar að fleiri vilja búa úti á landi af þeim sem vilja á annað borð flytja sig, þ.e. það vilja fleiri úr Reykjavík og nágrenni flytja út á land en vilja flytja af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ástæðan fyrir því að samt sem áður er straumurinn hingað er fyrst og fremst sú að aðstæðurnar bjóða ekki upp á sömu kjör á landsbyggðinni. Þess vegna verðum við að jafna þennan hlut. Við verðum að auka hlut landsbyggðarinnar, jafna þann aðstöðumun sem er fyrir hendi og ég endaði ræðu mína á að segja að við þyrftum að taka betur á í málefnum landsbyggðar en hingað til hefði verið gert og spara ekki til þess.