Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:17:26 (1199)

1998-11-17 18:17:26# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við höfum til umræðu þingskjal langt í blaðsíðum talið og skal það ekki lastað. Þar er að finna upplýsingar og tillögur sem margt jákvætt má segja um og ánægjulegt að það skuli vera hér til umræðu og aðalefni á þessum degi.

Allmargar tillögur, virðulegur forseti, sem snerta byggðamál og byggðastefnu í landinu hafa verið fluttar á undanförnum áratug svo ekki sé litið lengra til baka. Því miður hefur margt af þeim tillöguflutningi farið fyrir lítið jafnvel þótt samþykkt væri samhljóða á Alþingi Íslendinga. Aðrar tillögur hafa ekki hlotið náð í meðförum þingsins, þar á meðal sumt af því sem ég hef lagt til mála. Úr safni mínu hef ég tillögu sem ég stóð að ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á árunum 1986 og 1987, um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Það var 39. mál á 109. löggjafarþingi.

Margt af þeim áherslum sem koma fram í þeirri tillögu, virðulegi forseti, má lesa enn og aftur í tillögu sem ríkisstjórnin flytur 1998 og hefur ekki enn náð fram að ganga. Fróðlegt væri að fara í slíkan samanburð en ég vil ekki nota tíma minn í þann upplestur.

Sama má segja um tillögu sem afgreidd var á Alþingi, um stefnumótandi byggðaáætlun, í rauninni það plagg sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefði átt að hafa sem meginleiðarljós í sínum aðgerðum, þál. sem samþykkt var á Alþingi 6. maí 1994. Ég man ekki betur en ég hafi goldið þeirri tillögu atkvæði mitt með fyrirvara um einhver atriði þó að tillagan væri frá ríkisstjórninni eftir nokkrar breytingar á í meðförum þingsins. Þegar litið er yfir þál. Alþingis frá því fyrir fjórum árum kemur í ljós að á tiltölulega fáu af því sem þar er ályktað um hefur verið tekið nógu mynduglega. Ég skal undanskilja einn þátt þess máls sem reynt hefur verið að þoka fram en það varðar atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni. Byggðastofnun hefur komið að því á þessu tímabili og margt jákvætt hefur verið unnið í þeim efnum. Það er líka það helsta varðandi framkvæmd á þessari ályktun frá 1994. Á annað skortir stórlega.

Hér er komin tillaga þar sem okkur er ætlað að nýta á nýjan leik ályktanir sem samþykktar hafa verið á Alþingi á liðnum árum. Þetta veldur því að trú manns á tillögugerð og samþykktir af þessum toga hefur í raun litla þýðingu þegar ekki er betur fylgt á eftir af framkvæmdarvaldinu en raun ber vitni í framkvæmd á ályktunum Alþingis á liðnum árum. Þar við bætist að sú ríkisstjórn sem ber þetta mál fram á aðeins skamman tíma til starfsloka á þessu kjörtímabili, hvað sem verður að næstu kosningum loknum. Þetta er sannarlega áhyggjuefni og ansi hætt við því að fyrir mörgum af þeim huggunarorðum og áformum sem hér eru dregin fram sé ekki mikil innstæða, enda verði ekki mikill kostur fyrir núv. ríkisstjórn að láta reyna á efndirnar.

Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, að við hljótum að spyrja um vilja ríkisstjórnarinnar og meta vilja hennar út frá þeim aðgerðum og aðgerðaleysi sem hún hefur staðið fyrir á liðnum árum. Þá þurfum við einnig að líta til þess skamma tíma sem lifir af kjörtímabilinu og hvernig þar verður tekið á málum, m.a. í sambandi við afgreiðslu á fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar. Athygli hefur verið vakin á því að ekki fari mjög mikið fyrir jákvæðum aðgerðum í byggðamálum í því frv. Þó ég vilji ekki lasta það í einstökum atriðum þá tel ég það ekki bera mikinn vott um það að hugur fylgi máli hjá núverandi ríkisstjórn varðandi þær áherslur sem hér eru upp dregnar.

Þegar farið er yfir texta þeirrar tillögu sem við ræðum nú, sem er á þremur blaðsíðum, þá blasir við að þar er vikið að þáttum sem nýlega hafa verið gerðar samþykktir um til langs tíma hér á Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Ég tek sem dæmi samgöngumálin. Hér er vikið að samgöngum, vegagerð í landinu, fjárfestingu í samgöngum auk almenningssamgangna. Við afgreiddum á síðasta þingi stefnumarkandi ályktanir í samgöngumálum, í vegamálum til fjögurra ára og til 12 ára. Þó gert sé ráð fyrir auknum fjárveitingum á næsta kjörtímabili til vegamála og það sé út af fyrir sig gott þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að mikil breyting verði á því nema þá grundvallarbreyting verði á stefnu stjórnarinnar að því er þetta varðar vegna þess að núverandi hæstv. ríkisstjórn átti kost á að leggja áherslur sínar í þær áætlanir sem þingið hafði til umfjöllunar að þessu leyti á síðasta þingi. Þetta á við um marga aðra þætti.

Mismunun í húshitunarkostnaði, sem er eitt af hinum augljósu atriðum sem leiðrétta ber varðandi þau svæði sem hallast standa í þeim efnum, hefur blasað við allan starfstíma ríkisstjórnarinnar og miklu lengur. Hvar er viljinn? Það er spurt um viljann. Sá vilji mun ráða í sambandi við afgreiðslu núverandi fjárlaga og ákvarðanir ríkisstjórnar meðan hún hefur ráðrúm til að standa við orð sín. Spurt verður um vilja núverandi stjórnvalda í þessum efnum þegar leggja á mat á þær tillögur sem hér eru fram bornar.

Það væri ástæða til, virðulegur forseti, að ræða um mörg einstök atriði þeirra hugmynda sem hér eru settar fram í þáltill. Hins vegar er tímans vegna ekki hægt að fara ofan í þá þætti í þessari umræðu nema taka þá til máls aftur sem vel kemur til greina. Ég hef merkt við mörg atriði sem freistandi væri að spyrja nánar út í.

Ég ætla að víkja að einu, virðulegur forseti, svo það verði ekki út undan, sem fram kom í máli hæstv. forsrh. og varðar einn þátt í þessari tillögugerð sem er 7. töluliður. Ég vitna til þess, með leyfi forseta. Þar stendur:

,,Nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar og þannig stuðlað að varanlegri fólksfjölgun og fjölbreyttara framboði atvinnutækifæra þar. Lögð verði áhersla á að staðsetja ný stóriðjuverkefni sem víðast á landinu og þeim valinn staður með tilliti til orkuþarfa þannig að bæði sé um að ræða orkufreka stóriðju í nálægð við meginorkuöflunarsvæði hennar og önnur iðjuver sem ekki eru eins orkufrek utan þeirra svæða. Umhverfissjónarmiða verði gætt í hvívetna.``

Þetta er 7. liðurinn í tillögunni sem samtals er 21 liður.

Ef menn líta á það sem skynsamlegt verkefni að byggja upp stóriðju í landinu, orkufrekan iðnað, þá er eðlilegt að líta til verka núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum. Hver hafa verk núverandi ríkisstjórnar verið að þessu leyti? Það hefur verið byggð upp stóriðja en hún hefur eingöngu verið hér á höfuðborgarsvæðinu eða í næsta nágrenni þess. Það er vilji núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum. Ég er hins vegar ekki mikill áhugamaður um frekari uppbyggingu hefðbundinnar stóriðju eins og ríkisstjórnin stefnir að, þ.e. að verja miklum hluta af orkunni úr orkulindum landsmanna í málmbræðslu.

Ég tel fulla ástæða til þess við þessa umræðu að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir framgöngu hennar í þeim efnum. Auðvitað ber að gagnrýna það sem gert var á höfuðborgarsvæðinu að þessu leyti. Þá hefði betur verið litið til þeirrar stefnu sem hér er dregin fram og kannað hvort koma mætti þeirri stóriðju sem þar hefur risið fyrir þar sem byggðaáhrifin væru önnur en orðið hafa. Nú á að bæta við og heilum landshlutum er lofað stóriðjufyrirtækjum, meiri en sést hafa á Íslandi áður. Ekki er nóg með að vikið sé að því heldur á þetta að gerast sem víðast á landinu.

Hvar er orkustefna ríkisstjórnarinnar, virðulegur forseti? Hve mikinn hluta af orkuforða landsmanna ætlar ríkisstjórnin að binda í stóriðju, í málmbræðslum? Hæstv. forsrh. vék í máli sínu að loftslagssamningnum og bókuninni frá Kyoto með sérkennilegum hætti. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, vegna þess að það mál er mér nokkuð ofarlega í huga, að vitna til örstutts þáttar úr máli hæstv. forsrh. að þessu leyti. Ég hef útskrift úr ræðunni og les það með þeim fyrirvara sem ber:

,,Þá má heldur ekki láta tímabundnar öfgar gegn vatnsaflsvirkjunum og umhverfisvænni stóriðju á Íslandi valda landsbyggðinni varanlegum skaða. Öfgar í nýtingu eru vissulega slæmar, öfgar í verndun eru litlu betri.``

Síðan segir, og ég vitna áfram beint í ræðuna:

,,Þegar vissir landshlutar vilja styrkja efnahagslega stöðu sína með uppbyggingu iðnaðar verður að hlusta á þær raddir. Um leið þarf að gæta vel að umgengni við landið. Það hafa Íslendingar yfirleitt borið gæfu til að gera í gegnum áratugina. Við höfum að auki lagt af margvíslega mengandi starfsemi á undanförnum áratugum. Þess vegna getum við ekki gengist undir alþjóðleg viðmið í umhverfismálum ef þau eiga ekki við um aðstæður á Íslandi og eru bersýnilega óásættanleg fyrir okkur. Í loftslagsmálum gengi það til að mynda þvert á markmið Kyoto-samkomulagsins ef Íslendingar væru þar með að óbreyttu. Ástæðan er sú að ýmis stóriðja sem ella yrði staðsett hér á landi mundi með aðild Íslands að núverandi samkomulagi færast til landa sem nota margfalt meira mengandi orku en við. Að auki er samkomulagið og þær tímasetningar sem það byggir á sérstaklega ósanngjarnt gagnvart okkur Íslendingum. Kyoto-samningurinn eins og hann lítur út núna er ekki síst ósanngjarn íbúum landsbyggðarinnar sem eru að styrkja byggðarlög sín.``

Virðulegur forseti. Það er mjög sérstakt að hæstv. forsrh. skuli verja hluta af ræðu sinni um byggðamál á Íslandi til að ræða um þetta samkomulag í þeim dúr sem hér er gert. Það er ekki aðeins að verið sé að tala um sérstöðu Íslands, hina miklu sérstöðu Íslands sem ríkisstjórnin hefur tekið trú á og reynt að þrýsta fram á alþjóðavettvangi að fá viðurkennda, heldur eru einstakir landshlutar á Íslandi sem eiga að hafa á móti því að Íslendingar gerist þátttakendur í því alþjóðaátaki að vinna gegn loftslagsbreytingum. Mér finnst þessi þáttur þannig að ekki sé annað hægt en gagnrýna hann, þegar þetta er borið fram af forustu ríkisstjórnarinnar inn í þessa umræðu. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forsrh.: Er það eindregin skoðun ríkisstjórnar Íslands að Íslendingar eigi ekki að verða aðilar að Kyoto-bókuninni nema ríkisstjórnin hafi áður fengið samþykkta þá sérstöðu sem hún hefur flutt tillögu um, að losun frá stóriðjufyrirtækjum á Íslandi verði ekki hluti af bókhaldinu sem Ísland varðar í þessu samhengi?

Mér finnst nauðsynlegt að fá skýr svör um þetta mál í tilefni af ræðu hæstv. forsrh. hér við umræðuna.