Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:37:17 (1202)

1998-11-17 18:37:17# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:37]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. eru ljósar þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur sett fram varðandi markmið sín um losun sem tengist niðurstöðu fundarins í Kyoto og Buenos Aires. Menn vitnuðu til þess að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið og þegar undirritað, að vísu með miklum fyrirvörum, samkomulagið eða protokollinn sem fyrir liggur.

Bandaríkjastjórn er í töluvert annarri aðstöðu en við. Bandaríkjastjórn gerir mikla fyrirvara. Það er vitað að þessi sáttmáli á ekki stuðning í Bandaríkjaþingi. Bandaríkjastjórn getur ekki eins og við mundum geta gert og væntanlega eiga að gera ef við mundum undirrita slíkt plagg með þingmeirihluta okkar knýja fram samþykkt slíks máls í þinginu. Þegar þetta mál var undirritað lýstu þingleiðtogar því þegar yfir í Bandaríkjunum að málið kæmi dautt til þingsins, eins og það var orðað þar vestra. Það mál er því í töluvert öðrum búningi gagnvart okkur en gagnvart Bandaríkjunum.

Menn segja og kannski gera lítið úr því að við þykjumst hafa einhverja sérstöðu en menn búa sér alltaf til sérstöðuna. Evrópusambandið hefur búið sér til sérstöðuna. Evrópusambandið er því fylgjandi að miðað sé við árið 1999. Evrópusambandið miðar við það að á Evrópu verði litið sem eitt land. Menn sjá að það eru að koma inn úr Vestur-Evrópu, Austur-Þýskalandi, Póllandi og fleiri austrænum ríkjum verksmiðjur sem verður lokað hvað sem líður öllu samkomulagi í Kyoto eða Buenos Aires. Með þessari reglu miðað við 1999 mun Evrópa sem eitt land fá mikinn kvóta til að losa um á nýjan leik fyrir starfsemi sína vegna þessara úreltu mannvirkja. Við getum nefnt dæmi um flugið. Þar er Evrópa talin eitt land varðandi mengunina, en mörg lönd þegar um flug er að ræða þannig að millilandaflug verði í Evrópu en ekki innanlandsflug. Þeir verða því ekki taldir með. Þannig laga menn þetta í hendi sér. Við sjáum þetta. Við höfum hagsmuni að verja fyrir Ísland og við verjum þá eins og okkur ber að gera.